05.02.1953
Efri deild: 72. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

199. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Á þessu frv. hafa verið gerðar tvær breyt. frá því það fór héðan út úr deildinni tvær breyt. gerðar í hv. Nd. Önnur þeirra er aðeins formsbreyting, og hana er að finna í 8. gr. frv. Hún er um það, að l. skuli öðlast gildi 15. febr. í staðinn fyrir 1. febr., sem hafði verið áætlað hér. Það er aðeins formsbreyting. — Hin breyt. er efnisbreyting, og hún er við 2. gr. Sú breyt. er raunverulega við ákvæði, sem hafði verið samþ. hér fyrir áramótin, ekki þau ákvæði, sem var bætt inn í nýjum, og er um það, að lífeyrisgreiðslur til þeirra kvenna, sem hafa gifzt erlendum mönnum, sem hafa skilið við þær, farið frá þeim eða fallið frá, skuli ná aftur fyrir sig, en þó ekki lengra aftur í tímann en til 1. jan. 1951. Það liggja engar upplýsingar fyrir um það, um hve mikla upphæð muni hér vera að ræða, eða hve mörg börn. En þó hefur heyrzt nefnt, að um 20 börn muni vera að ræða. Það kom fram í n., að vafasamt væri í sjálfu sér að láta greiðslur sem þessar ná aftur fyrir sig fyrir liðið tímabil. En þar sem hér er um undantekningartilfelli að ræða og væntanlega mjög fáa aðila og þar sem vitað er, að hér eiga í hlut mæður, sem eru mjög illa staddar og hafa ekki hlotið á undanförnum árum neina fyrirgreiðslu, þá sá n. ekki ástæðu til að leggja til, að þessu yrði breytt, og leggur til, að frv. verði samþ. eins og það er komið frá hv. Nd.