31.10.1952
Efri deild: 19. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1150)

18. mál, bæjanöfn o. fl.

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það voru aðeins bendingar í sambandi við þetta frv. — Það hafa komið frá bankastjóra Búnaðarbankans mjög harðorðar umkvartanir yfir starfi þessarar nafngiftanefndar, og hafa bréfaskriftir farið milli landbrn. og menntmrn. út af þessum umkvörtunum bankans. Umkvartanirnar eru aðallega þess eðlis, að afgreiðsla í n. gangi svo seint, að þetta standi í vegi fyrir því, að hægt sé að veita eðlileg lán út á nýbýli. Stundum standi þetta í vegi fyrir lánveitingum alveg óeðlilega langan tíma og nýbýlaeigendunum til mjög mikils baga. Nú skal ég ekkert dæma um það, hvað þessum töfum veldur, en ég vildi aðeins óska eftir því, að n. sú, sem fær þessi mál til meðferðar, ræddi við bankastjóra Búnaðarbankans um þetta atriði, því að ég tel víst, að hann geti gefið um það mikilsverðar upplýsingar. Fyrst tekið er að breyta þessum l., er nauðsynlegt að taka einmitt þetta atriði til meðferðar, sem mest hefur verið rætt núna seinni árin sem ágallar á þessu fyrirkomulagi, þá geysilegu töf, sem oft og einatt er á því að fá nöfn á nýbýli, og þar af leiðandi mjög mikil óþægindi fyrir þá, sem þurfa að taka lán út á sínar jarðir.