29.11.1952
Efri deild: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

18. mál, bæjanöfn o. fl.

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Eins og kom hér fram við 1. umr. um þetta frv., þá litu ýmsir svo á, þ. á m. ég, að það þyrfti að gera á l. meiri breytingar en hæstv. stjórn gerði með því frv., sem hún lagði hér fram. N. fór svo að athuga þetta nánar og komst að þeirri niðurstöðu, að réttast mundi að semja frv. í raun og veru alveg að nýju og breyta lögunum, sem nú gilda um bæjanöfn hér á landi. Þetta varð til þess, að n. samdi — ja, við skulum kalla það bara nýtt frv. að lögunum eða endursamdi lögin og eftir að hún hafði gert það, þá sendi hún það til örnefnanefndarinnar, sem hefur haft með þessi lög að gera frá fyrstu tíð. Í örnefnanefndinni sitja Geir Zoëga vegamálastjóri, sem er formaður n., próf. Ólafur Lárusson, Pálmi Hannesson, Hilmar Stefánsson og Matthías Þórðarson. Þessir menn höfðu svo þessar tillögur okkar til meðferðar, hafa verið nokkuð lengi með þær, og loksins fengum við þeirra umsögn, munnlega þó. Þá gerðu þeir fáeinar brtt. við okkar uppkast, sem við tókum allar upp og lögðum svo hér fram.

Breytingarnar, sem hér eru gerðar frá eldri lögum, eru fyrst og fremst þær, að það er tekið upp alveg nýtt ákvæði um, að heimilt sé að gefa nafn — og örnefnanefndin skuli ákveða það — þorpum, sem rísa upp í landinu. Það er nú svo, að það hafa breytzt staðhættir hér á landi ákaflega mikið síðustu árin. Það hafa skapazt þorp, sem sum þeirra má segja að séu búin að fá fast og jafnvel löglegt nafn, eins og t.d. Selfoss, þar sem búið er löglega að skíra hreppinn, sem þorpið myndar, Selfosshrepp. Þó er það nú svo enn, að þetta nafn er það laust í reipunum, að maður heyrir kauptúnið jöfnum höndum kallað Selfoss, Tryggvaskála eða Ölfusá. En ég verð nú að telja, að nafnið Selfoss sé orðið löglegt nafn á þorpinu. Austur við Stórólfshvol er að myndast þorp, sem hefur manna milli fengið nafnið Hvolsvöllur og ekki annað, en hefur ekki heldur verið staðfest. Austur á Egilsstöðum er að myndast þorp, sem gengur undir ýmsum nöfnum. Norður í Miðfirði er að myndast þorp, sem líka gengur undir ýmsum nöfnum og hefur ekkert löglegt nafn enn. Norður í Skagafirði, hjá Steinsstöðum, Reykjum og þeim bæjunum, er enn að myndast þorp o.s.frv. Við ætlumst til þess í þessu frv., að sýslunefndin skuli stinga upp á því við örnefnanefndina að gefa svona þorpum ákveðið nafn og benda á, hvað henni þyki hæfilegt nafn á þorpið. og þá skuli það lögfest.

Einnig tökum við fyllra fram en áður var, hvernig að eigi að fara, þegar menn sækja um ný nöfn, og hvaða gögn menn þurfa þá að láta fylgja, ef þeir vilja kenna það við staðhætti, landslag eða eitthvað annað, þannig að örnefnanefnd geti frekar áttað sig á, hversu réttmætt það er að lögfesta það á viðkomandi býli.

Í lögunum, eins og þau voru áður, var ekkert um það, hvernig með skyldi fara, ef örnefnanefnd og jarðareigandinn yrðu ekki sammála um nafnið, og af því leiðir, að yfir 40 nöfn, sem eru í fasteignamatsbókinni frá 1942, hafa aldrei verið staðfest af örnefnanefnd. Nú gerum við ráð fyrir því, að þegar svona komi fyrir, að örnefnanefnd vilji ekki staðfesta nafn, sem maðurinn vill fá á sitt býli, þá skuli, eftir að það er búið að fara á milli örnefnanefndar og hans og ekki hefur náðst samkomulag, örnefnanefnd benda honum á þrjú nöfn og segja: Eitthvað af þessum nöfnum gelur þú fengið á þitt býli — og vilji maðurinn ekki taka neitt af þeim, þá gangi málið til ráðherra, sem þá úrskurðar — vafalaust í flestum tilfellum eftir till. örnefnanefndar, en gæti líka hugsazt, að hann færi eftir tillögum mannsins — ákveðið nafn á býlið.

Enn fremur höfum við gert það í samræmi við það, sem áður var í lögunum að vísu, en það á við eldri tíma, að láta þau býli, sem búin eru að fá nöfn í fasteignabók, sem örnefnanefndin hefur aldrei samþykkt, — þau munu vera nálægt 40, sem voru byggð milli 1930 og 1940, — halda þeim sem löglegum. Við verðum að lita svo á, að þessi nöfn séu þegar staðfest af stjórnarráðinu. Stjórnarráðið er búið að löggilda bókina og löggilda þessi býli þar með. Þess vegna látum við þessi nöfn falla undan því að þurfa að sækja um leyfi. Við skoðum þau lögfest. Það má kannske deila um það. Stjórnarráðið hefur löggilt bókina og þar með nafnið og matið á þessum býlum með þessu nafni, en örnefnanefnd hefur aldrei fengizt til að viðurkenna þau og samþykkja. Hin, sem eru heldur fleiri, sem ágreiningur hefur verið um milli örnefnanefndarinnar og eigendanna og til hafa orðið eftir að sú bók kom út, verða áfram í deiglunni og verða að komast út úr henni á þann hátt, að örnefnanefndin taki sig til og búi til þrjú nöfn og sendi hverjum manni, og svo verður hann að velja á milli og ráðherra að úrskurða. Með því fá þau löglegt nafn, ef lögin yrðu samþykkt elns og hér er lagt til.

Þetta held ég að séu nú aðalbreytingarnar, sem í þessu frv. felast. Við höfum eins og áður látið hús í kauptúnum ekki þurfa að ganga til örnefnanefndarinnar, heldur bara til viðkomandi sýslumanns. Á því eru engar breytingar. Við höfum tekið af skarið og bannað örnefnanefnd að láta taka upp nöfn, sem fyrir eru í viðkomandi sýslufélagi, til þess að forðast hér brjál á milli á bréfum og öðru, misgrip á fasteignunum, sem oft verða, þegar svo stendur á. Og við höfum gengið lengra. Við ætlumst til, að örnefnanefnd taki upp hjá sér að reyna að útrýma þeim nöfnum, sem eru mörg í sömu sýslunni, þar sem eru fimm Brekkukot í sömu sýslu og tvö í sama hreppnum, eins og er á einum stað, o.s.frv. Við ætlumst til, að þar eigi hún frumkvæðið að því að reyna að koma þessum samnefnum burt, þannig að ekki sé nema ein jörð í hverri sýslu með sama heiti. Ég geri ráð fyrir, að þetta verði sums staðar ákaflega létt verk, á öðrum stöðum verði það nokkuð erfitt. Ég geri t.d. ráð fyrir því, svona án þess að ég viti nú neitt um það, að í t.d. Suður-Þingeyjarsýslu, þar sem Nesin eru þrjú, sem ég man nú eftir, án þess að hafa neitt krufið það til mergjar, — það getur vel verið, að þau séu fleiri, en ég man eftir þremur, — ég geri ráð fyrir því, af því að það eru svo gömul nöfn og þar hafa búið þekktir menn, að mönnum sé illa við að skipta um þau, en það á nefndin þó að reyna að gera eftir þessu frv., hún á að reyna að láta ekki vera nema eitt Nes eftir í Suður-Þingeyjarsýslu, þegar hún er búin að laga þetta. Þetta er líka nýtt í lögunum og enn fremur það samhliða, að sums staðar er nú ekki um samnefni að ræða beint, heldur ákaflega náið, þótt það sé kannske ekki alveg samnefni. Í því sambandi vildi ég nú gjarnan leiðrétta það, sem ég sagði hér við fyrri umr., — það sá ég, þegar ég fór að setja mig inn í málið, að ekki var rétt, — ég sagði, að nefndin hefði leyft tvo Ásgarða í Skagafjarðarsýslu. Það hefur hún ekki gert. Hún hefur látið annað býlið heita Ásgarður og hitt Ásgarðar, en það er nú anzi nálægt, að það sé sama nafn, og spurning, hvort það er heppilegt að hafa svo náið. Við að minnsta kosti bendum á það og ætlumst til, að hún sneiði fram hjá því að taka upp svo náin nöfn á tveimur jörðum í sama sýslufélaginu.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að fara nánar út í þetta. Ég hef hérna lista yfir öll þau býli, sem ekki var búið að samþykkja nöfn á fyrir skömmu. Eitthvað hefur komið síðan. Ég fékk í morgun tilkynningu um sex nýbýli með nöfnum, og ég sé, að þar koma tvö af þessum, sem lengi er búin að standa deila um. Það hafa verið samþykkt núna alveg nýlega, og þetta getur vel verið með fleiri, svo að það sé ekki alveg eins margt eins og ég sagði áðan, sem núna er eftir að samþykkja nöfn á, af býlum, sem eru orðin til og menn setztir á. En þau eru þó nokkur áreiðanlega, þó að eitthvað af þeim hafi fallið burt.

N. er held ég öll sammála um að leggja til, að frv. verði samþykkt eins og hún nú leggur til á þskj. 324. Að vísu var einn nm. ekki við, þegar við gengum frá þessu, en við vorum áður búnir að tala um þá stefnu, sem um er að ræða, og mér virtist hann þá vera með því, en náði ekki í hann, þegar nál. var sett út, og þess vegna er ekki nafn hans hér undir. Það var hv. 1. landsk. þm. (BrB), en ég veit ekki annað en að hann sé með því líka, en það kemur þá í ljós núna, ef það ekki er.