29.11.1952
Efri deild: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

18. mál, bæjanöfn o. fl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mér finnst nú hæstv. forseti fara nokkuð fljótt yfir sögu í þessum úrskurði sínum, því að málið er auðvitað engan veginn jafneinfalt og hann vill vera láta. Eins og hv. þm. Barð. skaut inn í, mundi það varla talið heimilt, ef borin væri fram ein lítil breyt. við eitt ákvæði skattalaga og svo væri sett inn t.d. við 3. umr. í seinni d. alveg nýtt skattalagafrv., gerbreyt. á eldri skattalögum, og mundi þá varla heimilt að afgreiða það mál í þinginu aðeins við eina umr. í seinni d. og láta það siðan fara til einnar umr. í þeirri fyrri aftur. Þá væri hægt að afgreiða slíkt mál við tvær umr. Við getum haldið áfram að taka dæmi. Hegningarlögin eru viðamikill bálkur. Mundi vera heimilt, ef það kæmi breyt. við eitt ákvæði, við skulum segja að breyta sektarákvæði í hegningarlögum eða lengja fangelsisrefsingu við einhverju tilteknu afbroti, að setja inn allar hegningarlagagr., nokkuð hundruð að tölu, og telja, að það væri bara breyt. á því upphaflega frv.? Ég efast mjög um, að þetta fái staðizt, og er raunar sannfærður um, að það fær ekki staðizt. — Ég tel, að hv. n. hefði hér átt að flytja nýtt frv. Það er ekki af neinni þykkju fyrir hönd ríkisstj. Það stendur alveg á sama, hver málið hefði flutt. Og ég held, að efnislega séu flestar breyt. hv. n. til bóta, og ég þakka henni sem deildarmaður hér fyrir að hafa lagt þá vinnu í þetta mál, sem hún hefur gert. En mér finnst formið vera ákaflega varhugavert, og ég vildi skora á hæstv. forseta að láta athuga það mál nokkru betur, áður en hann úrskurðar, hvort þetta er heimilt.