13.01.1953
Efri deild: 48. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (1193)

164. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Það er svo langt um liðið siðan þetta mál var á dagskrá síðast, að það er nú ofur lítið farið að fyrnast yfir það, en ég hygg þó, að ég hafi ekki f.h. allshn. verið búin að skýra þá brtt., sem n. ber fram á þskj. 456. En þessi brtt. er um það að bæta við fimm nýjum mönnum, sem hafa óskað eftir að fá veittan ríkisborgararétt. Tveir af þessum mönnum, nr. 1 og 5, eru fæddir í Færeyjum og einn, nr. 4, fæddur í Danmörku, og það hagar þannig til, að þeir eru allir komnir fyrir marz 1946 og mundu allir hafa getað öðlazt hér ríkisborgararétt, ef þeir hefðu bara með umsókn sótt um það samkv. l. um það efni, þar sem þeir voru danskir ríkisborgarar. Þótti n. því rétt, þar sem svo stóð á, að leggja til, að þeim yrði veittur ríkisborgararéttur. Aftur á móti voru þarna aðrir menn, sem höfðu sótt um ríkisborgararétt, fæddir í Færeyjum líka, en höfðu ekki komið fyrr en eftir þennan tíma, fyrr en eftir marz 1946, og leggur n. ekki til, að þeim verði veittur ríkisborgararéttur. Hinir tveir, nr. 2 og 3, eru fæddir í Þýzkalandi. Um nr. 2 stendur þannig á, að hann var kominn hingað og var búinn að vera hérna nokkuð mörg ár fyrir stríðið, — er búinn að vera hérna núna samtals í 12 ár, — en var fluttur út nauðugur þegar stríðið hófst. En nr. 3 hefur verið hér samfellt síðan 1924 og á hér uppkominn son, sem er íslenzkur ríkisborgari.

Ég held, úr því að ég er komin hér fram, að ég ræði þá í leiðinni þær brtt., sem hér eru bornar fram af hv. 4. landsk. þm. Nefndin hafði einnig þær umsóknir til athugunar, allar nema nr. 1 á þskj. 458. Að öðru leyti hafði n. þessar umsóknir til athugunar. En það stendur þannig á um nr. 1, 4 og 5, að það eru allt menn fæddir í Noregi, og þeir eru allir giftir íslenzkum konum. En n. setti sér í byrjun þá starfsreglu að taka ekki inn á frv. aðra en þá, sem höfðu dvalizt hér á landi í minnst 10 ár, og gerði enga undantekningu frá því, nema undantekningu, sem hefur komizt hér hefð á, þar sem eiga í hlut reglusystur, nunnur, — það var önnur undantekningin, — og svo þessi varðandi dönsku ríkisborgarana, sem hafa komið hingað 1944 og 1945. En þessir þrír norskfæddu menn hér komu hingað á vegum hersins í stríðinu, en eru hér ekki á manntali fyrr en 1944 og 1945, en þeir hafa sumir hverjir talið á umsókn sinni, að verutími þeirra sé frá því að þeir komu hingað sem norskir hermenn. Á þetta gat n. ekki fallizt, og þess vegna leit hún svo á, að því skilyrði, sem hún hafði sett sér til þess að fara eftir sem reglu, væri ekki fullnægt að því er varðaði þessa menn. Af þessum sökum var það, að nokkrir af þessum mönnum voru felldir í n., en hafa nú verið teknir upp af hv. 4. landsk. þm. Um nr. 6 á þskj. 458 er nokkuð svipuðu máli að gegna, að öðru leyti en því, að hann hefur verið mikið fjarverandi. Hann er hvorki búinn að uppfylla tímann hér, sem við settum sem reglu, og einnig hefur hann verið fjarverandi langan tíma af þeim stutta tíma, þannig að það eru ekki nema eitthvað 4–5 ár, sem hann hefur dvalizt hér. Nr. 2 er íslenzk kona, gift Austurríkismanni, sem er kunnur hljóðfæraleikari hér í Rvík. Hann hafði farið héðan burt af sjálfsdáðum — ekki vegna stríðsins — fyrir stríðið, 1938, og hann hefur ekki heldur fullnægt 10 ára búsetuskilyrðinu, jafnvel þó að tekinn sé samtals sá tími, sem hann var búinn að vera hér, áður en hann fór 1938, og lagður við það sá tími, sem hann er búinn að vera, eftir að hann kom aftur að stríðinu loknu. N. gat því ekki fallizt á að leggja til, að honum yrði veittur ríkisborgararéttur. Af þessum sökum mun meiri hl. n., að ég hygg, greiða atkvæði gegn brtt. á þskj. 458, þar sem hefur farið fram atkvgr. um það í nefndinni.