19.01.1953
Neðri deild: 52. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

164. mál, ríkisborgararéttur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Svo sem hæstv. menntmrh. hefur þegar getið, gerði þessi hv. d. í fyrra nokkra breytingu á frv. til laga, sem fyrir lá um veitingu ríkisborgararéttar, í þá átt, að þeim, sem ríkisborgararéttur var veittur, var gert að skyldu að taka upp nýtt íslenzkt nafn. Það var heilbrigður hugsunarháttur, sem lá að baki þessari till., því að hér er um mikið vandamál að ræða. Það er óeðlilegt og óheppilegt, ef erlend nöfn af erlendum stofni, sem lúta reglum gerólíkum þeim, sem gilda í íslenzku máli, ná að festa rætur í málinu. Þess vegna tel ég, að það hafi í sjálfu sér verið heilbrigður hugsunarháttur og þakkarverð viðleitni, sem lá að baki þeirri till., sem um þetta efni var samþ. hér á síðasta þingi, og hún hreyfði vissulega máli, sem ástæða var til að hreyfa. En ég held, að hv. Alþingi hafi tekið ákvörðun um þetta í helzt til miklum flýti. Ég játa það á mig fúslega, að ég hugleiddi þetta mál þá ekki nógu rækilega. Ég greiddi atkvæði með þeirri breyt., sem samþ. var samhljóða, en hef seinna við nánari umhugsun um málið komizt að raun um, að þessi lausn, sem hér var lögtekin, er ekki heppileg og það er hægt að ná þeim tilgangi, sem ég held að hafi vakað fyrir menntmrh. í fyrra og hv. allshn., sem var einróma um þessa breyt., með öðrum og einfaldari hætti.

Það er tvímælalaust, að það er ekkert hégómamál fyrir hlutaðeigandi mann að þurfa að hætta að nefna sig og láta aðra nefna sig því nafni, sem hann hefur borið frá því að hann hlaut skírn, og taka allt í einu upp annað nafn. Nöfn manna eru algert persónumál og oft og einatt svo viðkvæmt, að því fylgja miklir vankantar að þurfa þar nokkurn hlut við að hrófla. Nafn manns er í raun og veru hluti af honum sjálfum, þannig að honum kann að finnast hann hafa glatað einhverju af persónuleika sínum, ef hann þarf að segja að fullu og öllu skilið við nafn sitt, e.t.v. kominn á fullorðinsár eða efri ár. Og mér hefur síðar dottið í hug, hvort ekki mundi vera til sú millileið í þessu máli að gera það eitt að skilyrði fyrir veitingu íslenzks ríkisborgararéttar, að menn tækju upp íslenzkt fornafn, en héldu síðan ættarnafni sínu meðan þeir lifðu, og síðan giltu reglur íslenzkra nafnalaga auðvitað um afkomendur þessara manna, þannig að þeir kenndu sig allir til föður síns, eins og nú er svo að segja aðalreglan varðandi íslenzk mannanöfn, m.ö.o.: því yrði frestað í eina kynslóð að láta þessa breytingu til íslenzkra nafna taka gildi. Þeir menn, sem nú fá ríkisborgararéttinn víðurkenndan, mega kalla sig áfram því ættarnafni, sem þeir hafa verið nefndir og er orðið hluti af sjálfum þeim. Aftur á móti taka þeir upp nýtt fornafn, stundum þarf ekki nema rétt aðeins að víkja því við, stundum þarf alls ekkert að breyta því, og börnin nota síðan þetta fornafn sem sitt föðurnafn að íslenzkum hætti.

Eini vandinn, sem hér er á ferðinni, yrði sá, ef börnin eru sjálf orðin fullorðnir menn, komin yfir tvítugt t.d. Þá þyrfti að athuga, hvort menn vildu láta nafnbreytinguna gilda um þau eða gefa líka þessum aðilum, sem þá eru orðnir fullorðnir menn, heimild til þess að nota ættarnöfn sín áfram, meðan þeir lifa, en láta siðan regluna, sem ég gat um áðan, gilda um afkomendur þeirra.

Það, sem hlýtur að vaka og á að vaka fyrir löggjafanum í þessu efni, er að tryggja það, að erlend nöfn festist ekki í málinu. Hitt skiptir auðvitað minna máli, hvort ákveðnir einstaklingar, komnir á miðjan eða efri aldur, noti áfram meðan þeir lifa þau nöfn, sem þeir hafa borið síðan þeir hlutu skírn.

Mér finnst í raun og veru einnig koma til greina, að þessi regla yrði látin gilda um þá menn, sem þegar bera íslenzk ættarnöfn. Ég er þeirrar skoðunar, að ættarnöfnin eigi öllsömun að hverfa úr málinu. Og það er allalgengt, að þeir menn, sem sjálfir bera ættarnöfn, láta þau ekki ganga áfram til barna sinna, heldur láta um þau gilda þá reglu, sem algengust er hér á Íslandi, að kenna barn til föður síns. Þannig er það t.d. um sjálfan mig, sem ber ættarnafn, en ég læt börn mín ekki bera það, heldur fylgja hinni venjulegu íslenzku reglu hvað það snertir.

En það er þó annað og stærra mál, hvort við ættum að ryðja ættarnöfnunum þannig algerlega burt úr málinu eða ekki. En ég vil benda hv. n. á að taka til athugunar, hvort ekki sé hér um að ræða millileið, sem fara mætti og gæti fullnægt hagsmunum beggja, þeim íslenzku hagsmunum að láta ekki erlend ættarnöfn, óskyld íslenzku máli, festast í málinu, án þess þó að valda þeim útlendingum, sem hér eiga hlut að máli, því tjóni, sem ég vil segja að það veldur þeim, ef þeir eru skyldaðir til þess að skipta um nafn og láta af hinu erlenda nafni sínu, því að það er tvímælalaust, að það veldur mönnum óþægindum og kann að taka menn sárt að þurfa að gera það. Ef hægt er að komast hjá því að valda mönnum slíkum vandræðum, þá tel ég einsætt, að það eigi að gera. Vil ég því mjög beina því til hv. allshn., hvort hún vildi ekki taka þessa hugmynd mína til athugunar.