30.01.1953
Neðri deild: 60. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (1209)

164. mál, ríkisborgararéttur

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 654 brtt. víð frv. það um veitingu ríkisborgararéttar, sem hér liggur fyrir, um það, að tveimur manneskjum verði veittur borgararéttur. Er hin fyrri þeirra Wilberg, Nils Petter Andreas, verkamaður á Ísafirði, sem fæddur er 20. okt. 1916 í Noregi. Hin síðari er kona hans, Ólöf Konráðsdóttir Wilberg, fædd á Ísafirði 23. júní 1919.

Þannig stendur á um þetta fólk, að eiginmaðurinn kom hingað til Íslands árið 1940 í norska hernum og dvaldi hér þá samfleytt í tæp 5 ár. Hann kvæntist árið 1941 þessari íslenzku konu, og þau fóru síðan til Noregs í september árið 1945, sem sagt eftir 5 ára dvöl hans hér í norska hernum. Voru þau kyrr þar til vorsins 1948, þegar þau fluttu alkomin hingað heim til Íslands, og hafa þau dvalið á Ísafirði síðan.

Umsækjandinn hefur þannig dvalið samfleytt hér á Íslandi í 10 ár, en dvöl hans hefur rofnað hér, þar sem hann fer í stríðslokin út og er nokkuð á þriðja ár í heimalandi sínu. Kona hans, sem er Íslendingur, eins og ég hef áður tekið fram, glatar hins vegar ríkisfangi sínu við það að flytja með manni sínum til Noregs. Ég hygg, að það sé mjög sanngjarnt, að þetta fólk fái íslenzkan ríkisborgararétt. Konan hefur aðeins glatað ríkisfangi sínu vegna þess, að hún flutti með manni sínum til heimalands hans og dvaldi þar skamman tíma. Maður hennar talar íslenzku og skilur til hlítar og er orðinn rótfastur hér í landi og mun dvelja hér áfram. Þau hjónin stunda atvinnu sína á Ísafirði, og eins og ég sagði, þá hafa þau ákveðið að búa þar áfram.

Ég hygg, að fordæmi séu fyrir því, að fólki, sem þannig stendur á um, sé veittur borgararéttur. Ég man það síðast frá reglulegu Alþingi 1951, að þá var samþ. brtt. frá mér um að veita Þjóðverja einum ríkisborgararétt, sem mjög svipað stóð á um. Hann hafði dvalið hér um nokkurt skeið fyrir stríð, var síðan tekinn til fanga af Bretum og fluttur úr landi, og slitnaði þar með dvöl hans hér á landi, þannig að hann hafði ekki verið hér samfleytt í 10 ár. Engu að síður var honum veittur þessi réttur. Um þetta má nefna fleiri dæmi.

Ég tel það mjög mikið atriði í þessu máli, sem mín brtt. fjallar um, að annar aðilinn, sem hún leggur til að veittur verði borgararéttur, er Íslendingur, sem misst hefur sitt ríkisfang við það eitt að flytja um skamman tíma með manni sínum til heimalands hans. Ég vil þess vegna mjög mælast til þess við hv. n., að hún taki þessum tillögum vel. Ég væri reiðubúinn til þess, ef n. teldi það heppilegri málsmeðferð, að taka till. aftur til 3. umr., þannig að hv. n. gæfist þá tækifæri til þess að athuga öll plögg þessa fólks, sem tillagan fjallar um.