30.01.1953
Neðri deild: 60. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

164. mál, ríkisborgararéttur

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. miklu meira. En mig langaði til að svara nokkrum orðum nokkru af því, sem hv. 3. landsk. sagði í sinni síðustu ræðu.

Fyrir hverju er öll þessi barátta hv. þm.? Hún er fyrir því, að nokkrir menn, sem vilja njóta þess dýrmæta réttar að vera íslenzkir borgarar, taki ekki upp íslenzk nöfn, m.ö.o., að þeir þurfi ekki, um leið og þeir fá þessi dýrmætu réttindi, sem þeir sækjast mjög mikið eftir, að færa þá fórn að bera íslenzk nöfn eins og aðrir íslenzkir borgarar. Það er þetta, sem hann er að berjast fyrir. Hann las hér upp í sinni fyrri ræðu nöfn nokkurra manna, sem höfðu tekið sér íslenzk nöfn, fengið höfðu borgararétt í fyrra. Ég get nú ekki betur séð, en að þessi upplestur hv. þm. hafi verið sterkustu rökin gegn ræðu hans sjálfs. Hann las upp prýðileg og falleg íslenzk nöfn á þessum nýju borgurum, og þessir menn, sem þarna eiga hlut að máli, hafa vafalaust gert það með mikilli ánægju að taka sér þessi fallegu íslenzku nöfn. Hinu get ég vel trúað, að það séu aðrir, sem ekki vilja taka borgararéttinn upp á þau býti, að þeir þurfi að skipta um nafn. Það er þá þeirra mál, alveg eins og hv. 1. þm. Árn. sagði. Ef þeir vilja ekki vinna það til að öðlast þessi réttindi, þá þeir um það. Ég skil ekki, að það verði neinn landbrestur hér hjá okkur, þó að eitthvað af því fólki, sem nú flykkist að og vill ná íslenzkum borgararétti, týnist úr lestinni.

Hv. þm. sagði, að ég hefði farið með lokleysur miklar, vegna þess að ég hefði sagt, að ég hefði ekki trú á því, að þessi nöfn, sem heimiluð yrðu samkv. hans till., féllu nokkurn tíma burt úr málinu. Og ég vík ekki frá því. Ég hef ekki neina trú á því, að þau mundu falla úr málinu, ef þau yrðu einu sinni leyfð. Það hefur ekki reynzt svo haldgott eftirlit með slíku, og ég hygg ekki, að það yrði neitt betra í framtíðinni. Hins vegar verð ég að mótmæla því, sem hv. þm. sagði, að það væri ekki haldbetra að láta menn skipta um nöfn, áður en þeir fengju ríkisborgararéttinn. Ég er þeirrar skoðunar, að um leið og einn maður er búinn að taka sér nýtt nafn, áður en hann fær borgararéttinn, þá er engin hætta á því, að hann breyti því á eftir.

Þá er það, hvernig skilja beri lögin í þessu efni, vegna þess að ég sagði, að með þessu væri útlendingum veittur meiri réttur, en Íslendingum sjálfum. Ég vík alls ekki frá því. Lögin gera ráð fyrir því, að þeir, sem hafa fjölskyldunafn eða ættarnafn 1925, megi halda því, en enginn megi taka upp ný. En ég get ekki séð, að þar með sé um aldur og ævi gefinn réttur þeim mönnum, sem kunna að sækja um að verða íslenzkir ríkisborgarar, til að koma með sín ættarnöfn inn í málið, eins og ekkert hafi skeð og engin lög séu því til fyrirstöðu. Ég get ekki séð, að ég hafi farið með staðlausa stafi í þessu efni, eins og hv. þm. vildi vera láta.

Hann gat þess, og hv. 1. þm. Árn. vék nokkuð að því, að hann vissi ekki til, að þessi venja væri nokkurs staðar í öðru landi, að menn væru skyldaðir til að taka sér innlent nafn, ef þeir fengju ríkisborgararétt. Ég get vel trúað því, að þetta sé alveg rétt hjá hv. þm. En ég vil aðeins benda á, að það eru allt aðrar aðstæður hjá okkur, og ég efast um, að til séu sömu aðstæður í nokkru öðru landi hvað þetta snertir. Við höfum haldið þessum þætti menningar okkar í gegnum aldirnar frá landnámstíð, og það er verið að eyðileggja þennan merka menningarþátt með því að hleypa erlendum mannanöfnum inn í málið. Gegn því eigum við að sporna.