02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

164. mál, ríkisborgararéttur

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. 3. landsk. við fyrri umr. í málinu vildi ég gjarnan gefa nokkrar upplýsingar í sambandi við nafnabreytingar þeirra manna, sem ríkisborgararétt fengu á síðasta ári, 1952.

Mér virtist það koma fram í ræðu hv. þm., að hann teldi, að fáir einir, sem fengu þá ríkisborgararétt, hefðu talið sér fært að breyta nöfnum sínum, og það sýndi, hversu óvinsæl aðgerð þetta hafi verið af hendi Alþ. gagnvart þessum mönnum, sem um ríkisborgararétt hefðu sótt.

Á síðasta þingi var 37 mönnum veittur ríkisborgararéttur. Af þeim hefur 31 leitað nafnbreytingar, m.ö.o., af þessum 37 eru aðeins 6 menn, sem ekki hafa leitað nafnbreytingar, og það er ekki kunnugt, hvort það stafar af því, að þeir vilji halda sínu nafni, eða af öðrum orsökum. Og ef farið er yfir þá skrá, sem ég hef hér í höndum, skrá yfir nöfn þeirra manna, sem tekið hafa sér íslenzk nöfn og sagt skilið við sín erlendu nöfn, þá kemur það fram, að meginhluti þessa fólks getur haldið að meira eða minna leyti sínum fyrri nöfnum. Ég rekst hér sérstaklega á tvö nöfn, þar sem breytingin er alveg gagnger. Það er nafn eins og Harry Rosenthal. Hann tekur sér nafnið Höskuldur Markússon. Og nafnið Max Robert Heinrich Kell; þessi maður ber nú nafnið Magnús Teitsson. Þetta er nú einna mest áberandi, að mínu viti. En hitt er líka ekki siður áberandi, hversu miklu fallegri þessi íslenzku nöfn eru, að ég tali nú ekki um hér á landi, heldur en þau erlendu.

Mér fannst rétt að gefa þessar upplýsingar, vegna þess að þær sýna, að það er miklu minni andstaða af hálfu þessa fólks að taka upp íslenzk nöfn, en sumir hafa látið í veðri vaka.