02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

164. mál, ríkisborgararéttur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Það er misskilningur hjá hæstv. ráðh., að ég hefði haldið því fram, að andstaða gegn nafnbreytingum væri svo mikil meðal hinna nýju ríkisborgara, að meginhluti þeirra hefði ekki viljað þiggja ríkisborgararéttinn. Það sagði ég aldrei, heldur hitt, að nokkrir þeirra, sem veittur hefði verið ríkisborgararéttur, hefðu ekki viljað þiggja þennan mikilsverða rétt, vegna þess að þeir væru tregir til þess að láta af fjölskyldunöfnum sínum. Þetta staðfesti hæstv. ráðh. einmitt, þar sem hann sagði, að 6 af 37, þ.e.a.s. sjötti hluti hinna nýju ríkisborgara, hefðu enn ekki leitað nafnbreytingar og þá um leið ekki fengið íslenzkan ríkisborgararétt. Þetta vissi ég, — ég hef listann frá dómsmrn. hér fyrir framan mig, — og hef auk þess fengið þær upplýsingar um a.m.k. nokkra af þessum 6 mönnum, að það er einmitt vegna þess, að þeim er sárt um sitt fjölskyldunafn.

Annars vildi ég aðeins að síðustu, þar sem hæstv. ráðh. virðist vera þetta mjög mikið áhugamál, spyrja hann: Vill ráðh. þá ekki líka láta þá Íslendinga, sem nú bera erlend ættarnöfn, skipta um nöfn? Ég gat þess, þegar málið var siðast hér til umræðu, að fjöldi Íslendinga ber algerlega erlend ættarnöfn, og nefndi nokkur,: Claessen, Biering, Jensen og fjöldamörg, sem allir kannast við. Er ekki rökrétt afleiðing af þessari stefnu, sem ráðh. mælir með, að sett séu l., sem fyrirskipi þessum Íslendingum að leggja þessi erlendu ættarnöfn niður? Eða vildi þá ekki ráðherrann, svona til samkomulags, til þess að útrýma þeim úr málinu, banna a.m.k. niðjum þeirra að bera hin erlendu ættarnöfn? — Ef hæstv. ráðh. og hv. frsm. eru á þeirri skoðun, er ég þeim alveg sammála. Býð ég þeim hér með að gerast meðflm. að slíkri till., því að það er einmitt það sama sem ég hef verið að leggja til varðandi hina nýju ríkisborgara, að þeir sjálfir fái að halda sínum ættarnöfnum meðan þeir lifa, en niðjum þeirra verði bannað að bera þessi erlendu nöfn. En það á auðvitað ekki að gilda einvörðungu um hina nýju ríkisborgara, heldur einnig um þá Íslendinga, sem nú bera slík nöfn. Annars er engin heil brú í afstöðunni, alls engin. (Gripið fram í.) Það verður ekki talinn misskilningur. Annaðhvort er mönnum illa við erlend ættarnöfn í málinu eða mönnum er ekki illa við þau. Og sé mönnum illa við þau og vilji útrýma þeim, þá á að útrýma þeim á nýju ríkisborgurunum og þeim, sem fyrir eru. Annars er engin heil brú í afstöðunni.