03.02.1953
Neðri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

164. mál, ríkisborgararéttur

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. frsm. allshn. fyrir undirtektir hans undir þær till., sem ég hafði leyft mér að flytja við 2. umr. þessa máls á þskj. 654.

Hv. n. hefur að vísu ekki tekið þessar till. upp og flutt þær sem sínar, en ég lít svo á, og ég hygg, að ég hafi til þess gildar ástæður, að skilja megi ummæli hv. frsm. þannig, að n. telji ekki óeðlilegt, að þessar till. og aðrar hliðstæðar nái samþykki. Það er alveg rétt hjá hv. frsm., sem hann benti á, að þessar þrjár brtt., sem liggja fyrir við frv., eru allar um að veita Norðurlandabúum íslenzkan ríkisborgararétt, og það er enn fremur rétt, að hv. Alþ. hefur á undanförnum árum verið miklu fúsara til þess að veita Norðurlandabúum ríkisborgararétt heldur en borgurum annarra landa.

Ég leyfi mér þess vegna að taka upp till. mína, sem ég flutti við 2. umr., um það, að Nils Petter Andreas Wilberg, verkamanni á Ísafirði, og konu hans, Ólöfu Konráðsdóttur Wilberg, verði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur. Ég vil aðeins bæta því við og endurtaka það, sem ég sagði hér við 2. umr., að þessi útlendingur hefur verið hér í 10 ár, ríkisfang hans hefur aðeins slitnað um skamman tíma, þegar hann flutti út til Noregs í lok síðustu styrjaldar. Um konu hans er það að segja, að hún er alíslenzk og fædd hér á Íslandi og missti aðeins ríkisfang sitt við það að flytja með manni sínum til Noregs, eins og áður getur. Þetta fólk er gott og myndarlegt fólk og vel látið í sínu byggðarlagi og hefur fyllstu meðmæli, sem krafizt er til þess, að þessari ósk þess verði sinnt.

Ég leyfi mér svo að vænta þess, að hv. þd. líti svipað á þetta mál og hv. frsm. allshn. og að þessi brtt. verði samþykkt.