04.02.1953
Efri deild: 67. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (1232)

164. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Frv. þetta hefur tekið nokkrum breytingum frá því, sem það var þegar þessi hv. d. sendi það frá sér til Nd. Og er það þá helzt, að inn í 1. gr. hefur verið bætt nokkrum nöfnum. (Gripið fram í: Hvaða nöfn eru það?) Sem hefur verið bætt inn í? Það verður nú þm. að sjá á brtt., ég hef það ekki hérna hjá mér, hef aðeins frv. eins og það er, en það eru þó nokkur nöfn. En það má segja það, að nokkur af þessum nöfnum voru nú nánast leiðrétting, sem hafði sézt yfir hérna, þar sem láðst hafði að taka konurnar sem sjálfstæða ríkisborgara. Ég man eftir, að það eru a.m.k. 3 af nöfnunum þannig. Einnig hefur verið samþ. ný grein við frv. um nafnbreytingar hinna væntanlegu ríkisborgara.

Nú hefur komið hér fram frá hv. 4. þm. Reykv. brtt. við frv., við 2. gr., og er sú brtt. samhljóða till., sem var felld í Nd.

Ég get sagt það hér, að ég er mjög hlynnt þessari till. hv. 4. þm. Reykv. að efni til og mundi undir öðrum kringumstæðum heldur en þeim, sem hér eru fyrir hendi, að líkindum fylgja henni. En þar sem hún hefur nú verið felld í Nd. og þar sem liður að lokum þingsins, þá tel ég mjög óvarlegt að samþ. hana, þ.e.a.s., ég tel mjög óvarlegt að breyta frv. Það er nú þannig, að þeir menn, sem hér er um að ræða, hafa sótt um ríkisborgararétt og Alþ. hefur lagt í það vinnu að gera þetta frv. þannig úr garði eins og það er í dag, og ég tel ekki ástæðu til þess, úr því að búið er að leggja þessa vinnu í frv., að það sé stefnt að því að koma hlutunum þannig fyrir, að það kunni að daga uppi eða falla. Af þessum ástæðum legg ég til og mæli þar fyrir meiri hl. allshn., að frv. verði samþ. óbreytt eins og það er á þskj. 748.