04.02.1953
Efri deild: 67. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

164. mál, ríkisborgararéttur

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. tók fram, þá var brtt. sama efnis og till. mín á þskj. 751 flutt í hv. Nd. og náði þá ekki samþykki deildarinnar.

Um efni till. þarf ég ekki að segja margt. Hv. dm. er það kunnugt. Því verður ekki neitað, og um það eru allir sammála, að það er nokkuð harðneskjulegt, þegar á annað borð. Alþ. metur ástæður til að veita útlendingum ríkisborgararétt hér, að binda það slíkum skilyrðum sem gert er með ákvæðum 2. gr. frv., að þeir leggi niður nöfn sín og taki þá þegar önnur ný. Hins vegar er ég sammála því, sem vakir fyrir hæstv. menntmrh., sem hefur komið þessum ákvæðum inn í frv. og fyrri lög, að rétt og eðlilegt sé, að þeir, sem verða íslenzkir ríkisborgarar, hafi, áður en langt um líður, nöfn, sem samrýmist íslenzku máli. Ég hygg, að því megi ná einmitt á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í þessari till. hér, þannig að strax og þeir fá ríkisborgararéttinn, þá taki þeir sér íslenzkt fornafn, og í flestum tilfellum er þar ekki um nema litla breytingu að ræða, börn þeirra haldi svo íslenzku nöfnunum og taki nafn föður síns og kenni sig við hann, þegar þau vaxa upp.

Þetta er efni till., og ég veit, að hér í þessari hv. d., eins og líka kom fram hjá hv. frsm. í ræðu hans áðan, er vilji fyrir því, að þessi leið sé farin.

Ég sé ekki, að málinu sé stefnt í neina hættu, þó að þessi brtt.samþ. hér og það gangi á ný til Nd., því að eftir því sem mér hefur heyrzt á ráðamönnum þingsins, þá er ekki gert ráð fyrir, að þingi verði slitið fyrr en á föstudag, og ætti því að vinnast nægur tími til þess að ljúka málinu.

Ég get annars tekið það fram, að ég gæti í sjálfu sér vel á það fallizt og álít, að það sé réttara að taka það til athugunar síðar, að þessi ákvæði yrðu tekin inn í hin almennu lög um veitingu ríkisborgararéttar, þannig að ekki væri hætta á því, að verið væri að deila um þetta frá þingi til þings í sambandi við veitingu borgararéttar til einstakra manna.

Ég hygg sem sagt, að ég viti það rétt, að verulegur hluti hv. dm. sé í raun og veru efnislega samþykkur þessari till., og vænti ég, að þeir sýni það við atkvgr., því að það er hugarburður einn hjá hv. frsm., að afgreiðslu málsins sé með því stefnt í nokkra verulega hættu.