04.02.1953
Efri deild: 67. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

164. mál, ríkisborgararéttur

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. gat um, þá er þessi till. frá hv. 4. þm. Reykv. sú sama og hv. 3. landsk. bar fram í Nd. og náði ekki samþykki deildarinnar.

Því hefur verið haldið mjög fram, að með þessum hætti væri beitt mikilli harðneskju við þá útlendinga, sem sæktu hér um borgararétt. Við, sem erum fylgjendur þessarar breytingar, erum ekki á sama máli um það, að hér sé um nokkra harðneskju að ræða gagnvart þessum mönnum. Þeir sækja hér um réttindi, sem eru mjög mikilsverð, og ég get ekki séð, að þeir séu beittir neinni harðneskju, þó að þeir verði að hlíta sömu l. og Íslendingar sjálfir með nöfn sin. Það er tekið fram í l. um mannanöfn, að menn megi ekki bera önnur nöfn en þau, sem lúti lögmálum íslenzkrar tungu, og það er vitanlegt, að fæst af þeim nöfnum, sem þeir útlendingar bera, sem um borgararétt sækja, lúta þessu lögmáli.

Íslenzkar nafngiftir eru einn sterkasti þátturinn í okkar þjóðerni, sem við höfum haldið frá landnámstíð, og ef á hverju ári á í vaxandi mæli að hleypa inn í málið erlendum nöfnum, sem á engan hátt lúta lögmálum þess, þá verður ekki mikið úr þessum snara þætti þjóðernis okkar, þegar frá liður. Þetta viðurkenna allir. Þess vegna hefur líka þessi till. komið fram sem nokkurs konar millistig. En ég er gersamlega sammála hv. allshn. Nd., sem áleit, að um millistig í þessu máli gæti ekki verið að ræða.

Eitt af því, sem mælt hefur verið fram með þessari till., er það, hvað þeir útlendingar, sem um ríkisborgararétt sækja, séu óviljugir að skipta um nafn, og þess vegna séu margir menn ekki enn þá búnir að breyta nöfnum sínum og þar af leiðandi ekki búnir að þiggja borgararéttinn. Það var á síðasta þingi veittur borgararéttur 37 útlendingum. Af þessum 37 hefur 31 tekið sér góð og gild íslenzk nöfn, og það einkennilega við það er það, að flestir af þessum útlendingum hafa tekið íslenzk nöfn, sem að meira eða minna leyti eru þeirra eigin nöfn, þ.e.a.s., þeirra útlenda ættarnafni er sleppt, en fjöldinn af þeim hefur haldið sínu fornafni með íslenzkum hætti og tekið upp sitt föðurnafn. Þetta sýnir, að það er engin fyrirstaða hjá þessum mönnum, sem hafa beðið um borgararéttinn, að taka upp íslenzk nöfn, og úr því að Alþ. einu sinni hefur farið inn á þá braut að heimta það, að menn geri þessa breytingu á nöfnum sínum, þá er óeðlilegt að fara að breyta um það nú, eftir að þeir menn, sem fengu borgararétt í fyrra t.d., eru búnir að hlíta lögunum og flestir taka sér góð og gild íslenzk nöfn.

Ég vænti því, að hv. d. geti orðið samferða meiri hl. n. Eftir því sem mér skildist, þá viðhafði formaðurinn þau orð, að meiri hl. hennar væri því fylgjandi, að frv. gengi gegnum d. óbreytt.