04.02.1953
Efri deild: 67. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

164. mál, ríkisborgararéttur

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var til 2. umr. hér í hv. d., þá flutti ég brtt. á þskj. 458 um það að veita ríkisborgararétt 6 mönnum umfram það, sem meiri hl. n. mælti með að tekið yrði inn í frv. Þessar brtt. mínar voru allar felldar þá, að undantekinni einni, nr. 2, um Ingibjörgu Felzmann, sem var samþ. Og þetta var gert á þeirri forsendu, eða a.m.k. kom ekki fram neitt annað gegn því að samþ. till. mínar heldur en það, að þeir menn, sem hér er um að ræða, væru ekki búnir að vera búsettir hér á landi samfleytt í 10 ár. En það er sú regla, sem meiri hl. n. setti sér, og hann synjaði þeim, sem uppfylltu ekki það skilyrði, og það virtist svo sem meiri hl. d. féllist á það sjónarmið og miðaði ákvarðanir sínar við það.

Nú hefur hins vegar farið svo, að í Nd. hafa verið samþ. og teknir inn á frv. 3 af þeim mönnum, sem ég flutti till. um, er felldar voru hér í d. En hins vegar eru eftir aðeins tveir af þeim mönnum, sem ég flutti till. um að teknir væru inn á frv., tveir Norðmenn, sem stendur á um nákvæmlega eins og um þá aðra Norðmenn, sem ég einnig flutti till. um, en nú hafa verið teknir inn í frv. af hv. Nd.

Ég sé ekki, hvernig væri hægt að réttlæta það að veita sumum af þessum mönnum ríkisborgararétt án tillits til þessarar reglu, sem var látin gilda við afgreiðslu málsins hér í d. á fyrra stigi, en veita hann ekki öðrum, sem eins stendur á um, án þess að færa fram nokkrar ástæður fyrir því eða nokkuð það, sem gæti verið í vegi fyrir því að veita mönnunum þessi umbeðnu réttindi.

Ég vil þess vegna leyfa mér að flytja hér enn till. um það, að nr. 5 og 6 á þskj. 458 verði bætt inn á frv. Ég hef þegar sent um þetta till. í prentun, og mér er sagt, að það sé verið að sækja hana í prentsmiðjuna, en henni hefur ekki enn verið útbýtt hérna. Ég dró það að senda hana í prentun í gærkvöld, vegna þess að mér skildist, að ætti að ræða þetta frekar í allshn., en vannst nú ekki tími til þess í gærkvöld meðan fundur stóð hér, og þess vegna sendi ég hana ekki í prentun fyrr en í morgun. En hún er sem sagt alveg á leiðinni og verður væntanlega útbýtt hér alveg á næstu mínútum. Vil ég vonast til þess, að forseti vilji annaðhvort fresta um stund afgreiðslu málsins eða þá taka gildar þær till., sem liggja hér fyrir á þskj. 458, taka það sem skriflega till., ef hinar koma ekki í tæka tíð.

Ég tel mig ekki þurfa að færa nein sérstök rök eða gefa neinar frekari upplýsingar um þá menn, sem hér er um að ræða, heldur en ég gerði við 2. umr. Ég lýsti því þá, hvernig ástæður þeirra væru, og vil aðeins endurtaka það, sem ég sagði áðan, að það stendur alveg nákvæmlega eins á um þá eins og þá tvo Norðmenn, sem teknir hafa verið inn í frv. í hv. Nd., þá Arne Jakobssen og Hákon Dyrö. Það eru líka Norðmenn, sem komu hingað á stríðsárunum og settust síðan hér að alveg á sama hátt og þessir tveir, sem hér er um að ræða.

Það kann að vera, að menn vilji halda því fram, að ekki sé hægt að taka hér upp till., sem búið sé áður að fella í d. En ég vil í sambandi við það benda á, að það stendur alveg nákvæmlega eins á um þá menn, sem Nd. hefur bætt inn í frv. af þeim, sem felldir voru hér áður. Það eru í raun og veru nýjar till., sem liggja hér fyrir d. aftur, og þeir geta ekki öðlazt þessi réttindi, nema því aðeins að Ed. samþykki aftur till. um þá, sem hún er búin áður að fella, svo að það breytir engu að mínu áliti hvað það snertir, þó að þessum tveimur mönnum sé líka bætt við, þótt áður hafi verið felld till. um að taka þá inn á frv.