05.02.1953
Neðri deild: 68. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

164. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Það er nú í sjálfu sér ekki vert að þrátta lengi um þetta, því að málið er nú í raun og veru útrætt. En ég skil ekkert í hv. 3. landsk., hvernig hann fer að komast að þeirri niðurstöðu, sem hann kemst nú jafnan að viðvíkjandi þessum nöfnum, út frá þeim forsendum, sem hann færir þó fram fyrir sínu máli. Eins og hæstv. menntmrh. vék nú að, þá er Íslendingum bannað með nafnalögunum frá 1925 að taka upp nokkurt ættarnafn. Þar átti að vera alveg endað. Heimild þeirra laga, eins og hann las upp, leyfir þeim ættum, sem áður höfðu tekið sér upp með löglegu móti ættarnöfn, að halda þeim sína tíð, og er vitnað í því sambandi til laganna frá 1913. Nú erum við með þegnréttindi til handa mönnum, sem hafa ættarnöfn, hafa ekki tekið þau hér hjá okkur, þau eru aðfengin með fólkinu sjálfu, og þá ættum við að veita þessu góða fólki meiri réttindi heldur en nokkur Íslendingur hefur heimild til að öðlast nú. Nú ættum við að veita þeim heimild til að hafa ættarnöfn, upptekin hér hjá okkur með þegnréttinum, sem við bönnum öllum Íslendingum. Vafalaust er þetta gott og gagnlegt fólk, en að við getum að lítt reyndu máli tekið það umfram okkar þegna, það finnst mér vera til of mikils mælzt. Og það er skoðun hv. þm., að þeir þurfi ekki að taka nema aðeins fornafn, þar með sé verndun fyrir málið fengin. Þeir mega halda sínu nafni alveg, ef þeir skeyta íslenzku fornafni framan við. Samkv. hans orðum á að vísu að leggja þá kvöð á þeirra bök, sem öðlast þegnréttinn með foreldrum sínum, að kenna sig við þetta íslenzka heiti. En eftir orðum hv. 3. landsk., eftir því sem hann rökstyður málið, þá hefur maður ástæðu til þess að ætla, að þetta yrði ekki haldgott. Hann segir: Ef það verður gert að skyldu, að menn leggi niður sitt ættarnafn og taki algerlega upp íslenzkt heiti, þá munu þeir reyna að svíkjast frá því; að vísu munu þeir formlega taka nafnið, en í daglegu tali og undir öllum öðrum kringumstæðum munu þeir halda sínum ættarnöfnum og heitum. Það væri náttúrlega skýlaust brot á lögunum, alveg gersamlegt brot, en því meira sem þeir þurfa að breyta til frá lagalegu sjónarmiði, því erfiðara viðfangs ætti það þó að verða. Það ætti að bera minna á því, þótt þeir slepptu þessu eina íslenzka heiti, ef þeir hefðu leyfi til þess að halda sínum ættarnöfnum og öðrum heitum líka. Þetta er náttúrlega alveg hvað á móti öðru.

Hv. þm. var svo að víkja að því, að við hefðum átt að taka þetta mál öðruvísi og gera breytingu á nafnalögunum til frekari staðfestingar á skoðunum okkar. Það er vitaskuld ekkert tækifæri nú á þessu þingi til þess að gera slíka endurskoðun. En það má vel vera, ef þetta hefði borið fyrr á góma, þessi barátta fyrir því, að nú eigi að vera heimilt að hafa erlend heiti, þau megi bætast svona inn í málið, að við hefðum gert það. Það er alveg nýtt, eins og reyndar er ekki nema til síðasta þings að rekja það, að það er gert að skyldu að taka upp íslenzkt heiti, en þá var þetta að kalla mótspyrnulaust. Nú aftur á móti er háð nokkur barátta, þótt í henni taki fáir þátt, til þess að breyta til. Það verður þess vegna að bíða seinni tíma að gera slíkt, en ég get búizt við því, að það sé ástæða til þess að taka einmitt nafnalögin til athugunar, en í þetta sinn fer ég ekki út í það nánar. En ég skil ekki almennilega þær ástæður hjá hv. þm., ef honum finnst mikil nauðsyn á, að það sé gert, — og sízt vil ég andmæla því neitt, — að vilja þá lögleiða með þessu móti, eins og hann leggur til nú, þessi heiti og koma þeim inn í málið. Og ég vil benda hv. þm. á það, að eftir því, sem sótt er nú mikið um íslenzkan ríkisborgararétt af útlendu fólki, þá er þetta ekkert smáræði, sem kemur inn í málið. Það eru 25 útlendingar núna á þessu þingi. Ég held ég muni það rétt, að það hafi verið milli 30 og 40 í fyrra. (Gripið fram í.) Já, mig minnti það, en þorði nú ekki að nefna töluna; ég þakka fyrir upplýsingarnar, 37 í fyrra. Verði það nú svona áfram, þótt ekki sé vitnað nema fáa áratugi, hvernig ætlar hv. 3. landsk. þá að verði komið nafngiftinni í íslenzkri tungu með þessu? Annars ætla ég ekki að fjölyrða um þetta frekar.

Ég veit, að hv. d. passar upp á þetta mál, það hefur hún gert áður, svo að það mun ekki vera í neinni hættu.