05.02.1953
Neðri deild: 68. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

164. mál, ríkisborgararéttur

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég skal lofa því að tala ekki oftar í þessu máli hér en í þetta skipti til þess að vera ekki að tefja málið um of. En mér fannst ég þurfa að leiðrétta nokkuð, sem hv. þm. Ísaf. nefndi í þessu sambandi. Hann sagði, að þessi nafnabreyting hefði valdið ríkisstjórninni miklum erfiðleikum. Mér er alls ekki kunnugt um það, að nokkrir slíkir erfiðleikar hafi komið fyrir. Síður en svo. Það voru settar mjög einfaldar reglur fyrir því, hvernig þessum nafnaskiptum bæri að haga, og mér vitanlega hafa ekki neinir erfiðleikar og yfirleitt ekkert umtal spunnizt um málið í ríkisstj. Það hefur ekki komið þar til umr. einu sinni síðan það var samþ. á þinginu. Og þó að einn maður sé á Ísafirði, sem ekki hefur skipt um nafn, þá er hann einn af sex, sem ekki hafa beðið um nafnbreytingu af þeim 37, sem fengu borgararétt í fyrra. Þeir eru þá ekki fleiri en 6 af 37, sem ekki hafa óskað að breyta sínu nafni, og það er enginn kominn til að segja, að það stafi af því, að mennirnir hafi ekki viljað skipta um nöfn. Það geta verið margar fleiri orsakir, sem liggja til þess. Og þó að hv. þm. Ísaf. þekki einn eða tvo menn á Ísafirði, þá kannske veit hann um þeirra hugarfar í þeim efnum, en hann þekkir þá ekki hina fjóra. Hvar eru þá hinir fjórir? Kannske hv. 3. landsk. þekki þá, svo að það sé hægt að fylla bókina. En hér er ekki um neina erfiðleika að ræða, hvorki fyrir ríkisstj. né sýnilega fyrir þá, sem þurfa að skipta um nafn. Hins vegar get ég vel hugsað mér það, að margir af þessum mönnum vildu frekar halda sínu fyrra nafni. Það er ekki nema eðlilegt. En þetta sýnir samt sem áður, að mönnum þykir það ekki svo mikil fórn, að þeir vilji ekki vinna það til að verða íslenzkir ríkisborgarar. Og sumir gera það vafalaust með mikilli ánægju. Ég efast ekki um það.

Hv. þm. Ísaf. gat þess, að við hefðum ýmis nöfn í málinu, sem væru ekkert betri heldur en þau nöfn, sem hér væri um að ræða og við vildum að menn tækju sér íslenzk nöfn í staðinn fyrir. Þetta er alveg rétt. Það eru mörg nöfn og það mörg fjölskyldunöfn, sem komin eru inn í málið. Menn, sem setztir eru að í landinu, bera þau nöfn, sem frekar hefðu átt að vera íslenzk. Ég viðurkenni það fyllilega. En erum við miklu bættari að fá fjölda af erlendum nöfnum í viðbót, þó að þessi erlendu nöfn, sem nú eru, hafi ílenzt í landinu? Ég held, að við séum þá betur settir með því að þurfa ekki að taka við meiru.