06.02.1953
Sameinað þing: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

164. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Það liggur nú við, að það sé þjóðarhneyksli að heyra slíka ræðu á Alþingi Íslendinga. Það minnir ónotalega á það, þegar þessi þjóð réð ekki sínum málum og var knésett og yfirsetin af erlendri þjóð. En það, sem varð henni til viðreisnar og að hún endurheimti frelsi sitt, var, að hún átti menn, sem litu allt öðrum augum á slík mál sem þetta. Tungunni og fornum bókmenntum á hún það að þakka, að hún endurheimti frelsi sitt og er nú í tölu þjóða talin sem sérstök þjóð með sérstaka menningu og sérstaka tungu.

Það er málsháttur, sem segir, að „engum er viðleitnin bönnuð“, og svo er með þennan hv. þm., 3. landsk., að honum er vitaskuld ekki viðleitnin bönnuð, að reyna að koma því til vegar, að málið og tungan skemmist meira og meira eftir því sem stundir líða. Hvaða tryggingu hefur þessi hv. þm. fyrir því, þó að lögleitt væri, að þessir útlendingar tækju upp fornafn að íslenzkum sið, að það gilti fremur, en ef þeir tækju upp íslenzk heiti algerlega? Meira að segja er þeim sjálfum það miklu auðveldara, en að taka aðeins íslenzkt fornafn og halda svo að öðru leyti sínum nöfnum. Og sé svo mikil nauðung hjá þessum mönnum sem hann gefur í skyn, þá hef ég ekki mikla trú á því, að þeir viðhaldi þessu íslenzka fornafni, sem þeir eru að fá með þessari löggjöf, vitaskuld neyddir til þess að taka upp.

Hv. 3. landsk. þm. byrjaði ræðu sína á því, að það hefði verið hringt til sín, og efni þessa samtals var þá það að fara þess á leit við hann, að hann berðist fyrir því, að menn þyrftu ekki að skipta um nöfn, þessir menn, sem óska nú eftir ríkisborgararétti, einhverjir. Af 37 í fyrra ber nú 31 maður íslenzkt heiti, 6 ekki, eftir því sem upplýst hefur verið í hv. Nd. í umr. um þetta mál. Um tvo er það sagt, að þeir hafi ekki viljað vinna það til að fá íslenzkan þegnrétt að taka upp íslenzkt heiti. Um hina fjóra veit maður ekkert, hverjar orsakir eru til þess, að þeir hafa ekki gert það. Mér skildist nú reyndar, að einn af þessum mönnum frá í fyrra, þ.e.a.s. þessi Blumenstein, sem hv. þm. var að minnast á, hefði ekki viljað vinna það til, og það er sakir þess, að það eru fjórir aðrir, sem hafa ættarnafnið. Þetta gefur nú ofur lítið til kynna, hvernig það mundi fara úr hendi, ef þessi háttur yrði á, sem hv. þm. leggur til að hafður verði við veitingu ríkisborgararéttar, — hvað haldgott það mundi reynast, að menn skipti um nöfn. Og það er furðulegt að heyra, þegar hv. þm. segir, að með þessu móti mundi verða betur séð fyrir því, að menn skipti um nöfn og þessi útlendu heiti hyrfu úr tungunni. Það vitaskuld tekur engu tali.

Hv. þm. misskilur gersamlega lögin um mannanöfn, viðvíkjandi ættarnöfnum, sem leyfð hafa verið samkv. þeim í íslenzkri tungu. Því fólki, er bar ættarnöfn áður en lögin 1913 voru sett, var leyft að halda þeim áfram og niðjum þeirra. Yngri ættarnöfnin áttu eftir löggjöfinni frá 1925 að falla úr gildi við andlát þess fólks, er hafði rétt á að bera þau um stund, en niðjar þess höfðu ekki leyfi til þess að taka þau upp eða halda þeim áfram. Það er þess vegna ekki um önnur ættarnöfn hér að ræða heldur en þau, sem eldri eru en lögin frá 1913, þ.e.a.s. íslenzk ættarnöfn. En hér eru útlend ættarnöfn, sem komið hafa inn í málið eftir þennan tíma, og þau halda áfram, eins og reyndar mun eiga sér stað með ættarnöfn á íslenzku fólki. Þetta er vitaskuld ekki leyfilegt og fer í bága við gildandi lög um mannanöfn á Íslandi, og er þess vegna réttur hjá stjórnarvöldunum að banna alveg, að þetta haldi svona áfram. En það, sem hv. þm. fer nú fram á, er, að við veitum þessum útlendingum meiri rétt, en nokkur Íslendingur hefur nú samkv. nafnalögunum, að við leyfum þeim að halda ættarnöfnum og hafa þau áfram, leyfum þeim það, sem Íslendingum er bannað. Þetta finnst mér til of mikils mælzt, þótt ég að vísu viðurkenni, að það er náttúrlega ekki nærri eins mikið atriði eins og það, hve mikla hættu tungan er sett í með því að leyfa slíkt. En eigi að síður, þó að það sé minna atriði en sú málskemmd, sem hlýtur að leiða af því, ef þessum nafngiftum er hleypt inn í tunguna, þá er það samt sem áður í mesta máta óréttmætt og óviðfelldið og alls ekki fyrir hv. Alþ. viðhlítandi, að þessi vinnubrögð séu viðhöfð.

Ef þessum útlendingum, sem sækjast eftir ríkisborgararétti eða þegnrétti hér hjá okkur, finnst það ekki þess virði að breyta til og við getum verið öruggir um okkar tungu, þó að þeir fái þegnrétt, þá held ég, að við getum ekki unnið það til að veita þeim þennan rétt, og mig furðar satt að segja alveg á hv. 3. landsk., að hann skuli geta háð þessa baráttu fyrir því að innleiða þessa reglu, sem hann berst nú fyrir. Mig stórfurðar það. Honum þótti það hlálegt, að þessum fimmta manni, sem á nú að fá þegnréttinn, þessum Blumenstein, skuli ekki vera leyft að halda ættarnafninu, en fjórir mega hafa ættarnafnið. Ég sé ekkert broslegt við það. En vera má, að það bregði upp skýru ljósi um þá þörf, sem á því er að koma í veg fyrir, að slíkt eigi sér stað. 37 fengu ríkisborgararétt í fyrra, 27 munu eiga kost á því að fá hann nú í ár. Ef nú þetta fólk fær að halda sínum útlendu heitum og þannig verður viðkoman árlega, þá geta menn séð, hvernig fara muni eftir nokkra áratugi, — ég tala nú ekki um, ef lík hreyfing yrði á flutningi fólks þjóða á milli, hvernig verða mundi eftir eina öld eða svo.

Ég minnist umr. frá því að nafnalögin voru sett, 1925. Þá komu svona raddir fram, hvað óheyrilegt það væri að setja hindrun í veginn fyrir það, að menn mættu hafa ættarnöfn. En þó að sú löggjöf markaði ekki nógu skýrt, ekki eins og vera hefði átt, heimildina fyrir því, hvaða nafngift menn hafa, þá var það eigi að síður spor í rétta átt, og ef l. hefðu verið framkvæmd eftir því, sem þau bjóða, þá hefði verið allvel séð fyrir þessu.

Síðasta Alþ. tók upp þá reglu, að þeir útlendingar, sem vildu fá íslenzkan ríkisborgararétt, yrðu að skipta um nöfn. Nú er barizt fyrir því á næsta þingi að afnema þetta. Að vísu eiga menn að taka sér íslenzkt fornafn, en nöfnin mega halda sér að öðru leyti, og ég geri mjög lítið úr því, að það komi að þeim notum, sem ætlazt er til. Þetta er því gersamlegt fráhvarf frá því, sem Alþ. var búið að marka, og mér finnst, að hvað sem öðru liður, þá sé það ekki sæmilegt fyrir Alþingi. — Annars ætla ég ekki að þessu sinni í það minnsta að fjölyrða um þetta frekar. Ég veit, að hv. Alþ. passar upp á hróður sinn í þessu máli, að fara ekki að brjála þá löggjöf eða þá reglu, sem upp var tekin í fyrra.