06.02.1953
Sameinað þing: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (1258)

164. mál, ríkisborgararéttur

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég ber djúpa virðingu fyrir hreinum og fögrum tilfinningum og óblandinni ættjarðarást þeirra manna, sem fremstir standa í þessu þjóðþrifamáli, sem hér er barizt um, og vil, að það sé lýðum ljóst, að það er sannarlega mikil þörf slíkra manna í voru þjóðfélagi á þessum hættutímum, sem yfir okkur ganga, og ber að meta viðleitni þeirra til að halda í heiðri fornum venjum og afstýra þeim ægilegu hættum, sem grúfa yfir íslenzkri tungu, og sannarlega skal ég virða til betri vegar allt það fagra, sem fyrir þeim vakir. Hins vegar get ég ekki neitað því, að ég hef talið, að Íslendingar veiti mönnum hér borgararétt vegna þess, að þeir menn, sem hlut eiga að máli, uppfylli þau skilyrði, sem Alþingi Íslendinga telur að menn þurfi að uppfylla til að geta öðlazt þann rétt. Ef svo er, og það hefur hingað til verið talið á Alþingi, þá kann ég því betur, að hér sé ekki um kaup og sölu að ræða, heldur sé rétturinn veittur vegna þess, að skilyrðum er fullnægt, og án þess að því fylgi af hendi Alþ. skylda eða kvöð á þessa menn að leggja niður sín fornu heiti. Ég sé að vísu þá ógurlegu hættu, sem yfir þjóðinni vofir, þegar hv. 1. þm. Árn. gat um það, að 37 menn hefðu fengið borgararétt — ég held í fyrra — og 27 mundu fá hann nú. Nú er þetta kannske einhver hugsunarvilla hjá mér, einhver óljós, þokukennd hugsun, en ég hefði nú haldið, að þjóðinni stafaði, ef um hættu er að ræða, meiri hætta af blóðblönduninni, heldur en af nöfnum. Ef það er óhætt að hleypa þessum útlenda hrútahóp hér á hjörðina, þá hélt ég, að nöfnin skiptu ekki aðalmáli, og vildi því beina til athugunar þessum þjóðhreinsunarmönnum, þar eð nú er upp fundin ný lækningaaðferð, þar sem blóð er tekið úr mönnum og hreinsað, hvort ekki væri nú athugandi að gera það að skilyrði fyrir ríkisborgararétti, að tappað verði af þeim blóðinu og komið einhverju íslenzku blóði í þessar æðar, og mundi þá öllu betur borgið og þjóð vor eiga bjartari framtíð í hvívetna.

Ég var að litast um áðan hérna í þinginu og sá engan með flibba eins og þennan, sem ég geng með. Nú er ég sárhræddur um, að þeir, sem fastast halda í þjóðernið, finni það nú upp næst, að að vísu megi menn ganga með svona flibba eins og ég er með, en þeir megi ekki koma á Alþingi með hann. Það gæti verið ástæða til að telja hann óþjóðlegan, og hann er það sennilega, þegar ég lít hér í kringum mig, og mundi áreiðanlega hafa þótt heyra til undurs hér fyrir þúsund árum eða nokkru lengur á Þingvöllum, þegar forfeður vorir mættust. Hins vegar tel ég, að hár mitt mundi hafa sæmt sér þá vel á Þingvöllum, og yrðu þá aðrir að fá sér parruk hér, ef þeir ættu að vera líkir forfeðrunum. Og vildi ég þá líka, að það yrði athugað. Enn fremur tel ég það mikla rækt við forna menningu og sögu Íslendinga, að til athugunar væri tekið, hvort menn ættu ekki að mæta hér á Alþingi í fornmannabúningi, og tel ég það sérstaklega eiga við um þm. Árn., sem eru nú umboðsmenn fyrir hinn forna þingstað. Það var skotið að mér hér till., sem ég vil nú ekki bera fram, en gæti þá verið hv. 1. þm. Árn. til athugunar, og hún hljóðaði þannig, — ég læt hæstv. forseta heyra hana, en vil ekki gerast flm. að henni. Hún var eitthvað á þessa leið:

„Engum skal heimilt að fara með umboð hins forna þingstaðar á Alþingi Íslendinga, nema hann klæðist þar búningi forfeðranna.“

Ég vil sem sagt ekki gerast tillögumaður að þessu, líka af því að ég veit ekki nema um einn Íslending, sem klæðist nú þessum búningi í dag, og veit ekki, hvernig það mundi falla öðrum mönnum að taka hann upp. En ég vil, að menn skilji það, að hér er um eitthvert mesta stórmál að ræða, sem komið hefur fyrir þessa þjóð, og þar sem menn tala nú mjög um að skjóta vandamálum, — það er nú tæplega innanþjóðarmálum, — undir alþjóðasamkundur, þá mætti sjálfsagt líka, ef þeir verða undir, sem eru málhreinsunarmenn, athuga t.d., hvort þjóðasambandið gæti lagt þeim eitthvert lið eða Sameinuðu þjóðirnar. Sem sagt, með djúpri virðingu fyrir hinni fögru viðleitni læt ég þessu máli lokið og ber ekki fram tillöguna, þó að hún gæti verið skynsamleg eða a.m.k. svona viðlíka skynsamleg eins og það, sem hér er verið að ræða um af þeirra hendi.