31.10.1952
Neðri deild: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

100. mál, ábúðarlög

Jón Pálmason:

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur nokkrum sinnum veríð breytt ábúðarlögunum og oftast í þá átt að setja strangari ákvæði um skyldur jarðareiganda eða landsdrottins og á þann hátt að nokkru leyti rýra hans vald yfir sinni eign. Þetta hefur nú, því miður, ekki komið að því haldi, sem til hefur verið ætlazt, og það er kannske fyrst og fremst fyrir það, að sá aðili, sem lengst og mest hefur brotið gegn ákvæðum ábúðarlaganna, er ríkið sjálft. Ríkið sjálft — og þess starfsgreinar — á langflestar af þeim jarðeignum í landinu, sem ekki eru í sjálfsábúð, og það hefur brugðizt mest þeirri skyldu að gera þær umbætur á jörðunum, sem lögin ákveða. Ábúðarlögin, eins og þau eru nú, eru nú ekki eldri en frá 8. febr. 1951, en í því litla frv., sem hér liggur fyrir og flutt er af hv. landbn., er eitt nýmæli, og það nýmæli er aðeins það, að jarðareigandi, sem ekki treystir sér til eða ekki vill byggja upp á sinni jörð, skuli vera skyldur til að gefa ábúanda veðleyfi, þannig að hann megi veðsetja jörðina fyrir láni, sem út á hana fæst, til þess að hann geti byggt upp á jörðinni.

Ég er eins og aðrir hv. nm. samþykkur þessari breytingu, og er ég þó ekkert sérlega bjartsýnn á, að þetta komi að miklu haldi þegar til framkvæmdanna kemur, vegna þess að ég held, að það verði tiltölulega fáir ábúendur, sem treysta sér til að byggja upp á sinni ábúðarjörð, þó að þeir fái veðleyfi og geti fengið þau lán, sem um er að ræða, og þetta er m.a. vegna þess, hve þröngt er um lánsfé, en dýrt að byggja. Hins vegar, eins og tekið er fram í grg. fyrir þessu frv., er ég því ósamþykkur að setja inn í þessi lög sérstök sektarákvæði varðandi þetta eina atriði, og það er vegna þess, að ef það væri gert eins og hér er lagt til í frv., þá liti það þannig út, að þetta ákvæði væri þýðingarmeira, en öll önnur ákvæði ábúðarlaganna og því væri það skaðsamlegra að brjóta gegn þessu ákvæði, heldur en öllum hinum. Ég legg því til í brtt., sem ég hef flutt og er á þskj. 163, að síðari hluti 1. gr. orðist eins og þar hermir, og það er að vísa til hinna almennu sektarákvæða ábúðarlaganna varðandi þetta atriði elns og öll önnur. Og ég skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þá grein, sem ég vitna til og snertir öll ákvæði ábúðarlaganna. Það er 54. gr. l. og hljóðar þannig:

„Brot gegn ákvæðum þessara laga varða sektum allt að 3 þús. kr. Mál út af brotum á l. þessum svo og rannsókn sú, er um ræðir í 2. gr., skulu sæta meðferð almennra lögreglumála.“

Ég sem sagt legg til, að brot gegn þessu ákvæði um veðleyfi heyri eins og öll önnur ákvæði laganna undir þetta almenna sektarákvæði, það sé ekki farið að setja inn í þessi l. sérstök ákvæði um háar sektir, ef brotið er gegn því.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um málið eða mína brtt.