14.11.1952
Efri deild: 26. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (1294)

100. mál, ábúðarlög

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Landbn. þessarar deildar hefur orðið sammála um að mæla með frv. því, sem hér er til umr., en þó með nokkrum breytingum. Frv. er komið hingað frá Nd. og þar flutt af landbn. deildarinnar. Markmið frv. virðist það að stuðla að því, að landsetar á jörðum, sem vilja húsa þær, eigi kost á því að ná í hagkvæm lán til þeirra framkvæmda. En hagkvæmust lán, er nú fást, eru bundin því skilorð i, að jörðin, sem byggt er á, sé seld að veði fyrir láninu. Hefur það átt sér stað, að landsdrottnarnir hafa vafizt fyrir nauðsynlegum byggingarframkvæmdum með því að synja landsetum um veðleyfi og það orðið báðum til baga, landsetum og landsdrottni. Við nm. töldum það hins vegar of langt farið að takmarka hvorki lánsupphæð né vaxtaupphæð, eins og frv. þetta eins og það nú liggur fyrir ber með sér.

Fyrsta brtt. á þskj. 215 frá n. gerir hvort tveggja, að þar er lánshámarkið í raun og veru ákveðið, af því að byggingarsjóður hefur jafnan ákveðið hámark, hvað má lána mikið út á íbúðarhús. Nú er hámarkið 60 þús., en áður var það 45. Aftur á móti er það þannig um Ræktunarsjóð Íslands, að hann hefur ekki sérstakt hámark að krónutali, en aftur á móti hefur hann hámark um, hvað mikinn hundraðshluta skuli lána út á nauðsynlegar framkvæmdir jarðarhúsa. Og þannig bindur hann lánið að nokkru leyti, að það verði ekki alveg út í loftið og ónauðsynlega mikið. Um vextina er það að segja, að í þessum sjóðum eru þeir 2% í byggingarsjóði, en 21/2% í ræktunarsjóði. Aftur á móti er í frv., eins og það liggur fyrir, gefið leyfi til að taka lán í opinberum sjóðum, en þeir mega nú eins og sakir standa, þó að fasteignaveð sé, lána fyrir allt að 7%. Við vildum yfirleitt, nefndarmennirnir, stuðla að því, að landseti ætti jafnan kost á því að hagnýta sér hagkvæm og nauðsynleg byggingarlán, en að hann gæti þó ekki farið út í neina fjarstæðu.

Önnur brtt. okkar nm. er aðeins skýring, eins og hv. þdm. geta séð, að það sé aðeins sú jörð, sem byggt sé á, eða sú fasteign, sem hægt er að heimta veð af.

Þriðja brtt., 1.c, er það að fella niður þau sektarákvæði, sem ákveðin eru í þeirri málsgr. frv., sem þar um ræðir. En aftur á móti settum við brtt., sem verður, ef samþ. er, ný grein í frv. og gengur í þá átt að tvöfalda sektarákvæði ábúðarlaganna yfirleitt. Eins og nú er orðið, eru þau allt of lág. Hámarkið er 3.000 kr. og þá venjulegast í sektum ekki nema helmingur af þeirri upphæð, sem gerðar eru þeim seka. Þetta er þannig í framkvæmd svo lítið, að það er leikur einn fyrir þá að brjóta í bága við lögin, sem vilja hafa sig til þess. Og ef litið er nú á verðgildi peninganna, þá er það í raun og veru, að sekt þessi er ekki með frv. hækkuð frá því, sem hún hefur verið ákveðin þegar l. þessi voru sett.

Þá er brtt. undir 1. tölulið d, að svartíma landsdrottins teljum við, eins og samgöngum er nú háttað, nægilega langan tvo mánuði og teljum, að það verði engum til hagræðis óþarfur dráttur í því máli. Því leggjum við til, að tíminn sé styttur um einn mánuð, eða úr þremur mánuðum niður í tvo. Ef á annað borð veðleyfi fæst og fer fram þessi veðsetning, þá er það báðum heppilegast, landseta og landsdrottni, að það geti gengið sem fyrst og án nokkurs undandráttar.

Með þessum breytingum, eins og ég er búinn að lýsa þeim, var n. öll sammála um að leggja til við d., að hún vildi samþ. frv.