04.11.1952
Neðri deild: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

116. mál, matsveina-og veitingaþjónusta skóla

Frsm. (Pétur Ottesen):

Það er hið sama að segja um þetta frv. eins og frv. um stýrimannaskólann, sem ég lýsti hér áðan, að það er flutt eftir beiðni samgöngumálaráðuneytisins. Matsveina- og veitingaþjónaskóli var stofnaður með lögum 1947. Þessi skóli hefur enn þá ekki tekið til starfa að öðru leyti en því, að haldin hafa verið 2 matreiðslunámskeið. Nú mun vera í ráði, að matsveinaskólinn taki til starfa á næsta ári og þar hafin kennsla.

Sú breyt., sem hér er um að ræða, tekur eingöngu til yfirstjórnar skólans, en samkv. 6. gr. þessara l. nú á samgmrh. að skipa yfirstjórn skólans án tilnefningar. En breyting sú, sem felst í þessu frv., er sú ein, að gert er ráð fyrir því að skipa skólanefnd einum matreiðslumanni, einum framreiðslumanni, einum veitingamanni og einum fiskiskipsmatsveini, og skulu þessir menn skipaðir eftir tilnefningu hlutaðeigandi stéttasamtaka, og fimmta manninn skipar svo ráðh. án tilnefningar. Þetta er sú eina breyt., sem felst í þessu frv., og í greinargerð samgmrn. fyrir frv. er þess getið, að það sé flutt vegna ítrekaðra tilmæla Sambands matreiðslu- og framreiðslumanna og Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda. — Mál þetta er flutt af n., og þarf þess vegna ekki að vísa því til n. aftur.