20.10.1952
Neðri deild: 11. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

78. mál, húsmæðrafræðsla

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta litla frv., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 87, fjallar um það að gera nokkra breyt. á l. um húsmæðrafræðslu, sem er í því fólgin að afnema þá skilyrðislausu skyldu, sem nú er í 3. gr. l. um það, að húsmæðraskólar skuli standa í 9 mánuði á ári. Þetta er skilyrðislaus skylda um húsmæðraskóla í sveitunum, en það er heimild til þess með samþykki ráðh. að stytta þennan tíma í kaupstaðaskólunum um einn mánuð.

Fyrir þessu frv. er gerð nægilega glögg grein, að því er ég hygg, í grg., og ég vænti, að það geti fengið greiðan gang hér í gegnum hv. deild og hv. þing, því að það er áreiðanlegur hlutur, að þetta ákvæði er búið að hafa það mjög mikið í för með sér, að aðsókn að húsmæðraskólunum sumum hverjum er orðin minni en ella mundi vera, ef skólatíminn væri styttri og minni kostnaður fyrir stúlkurnar á ári hverju. Þessir skólar, húsmæðraskólarnir, heyra undir landbrn., og vil ég því leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. landbn.