20.11.1952
Efri deild: 29. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

76. mál, búfjártryggingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil nú þakka hv. formanni n. fyrir það að vilja athuga fyrir 3. umr. 5. gr., og skal ég ekki ræða um hana frekar hér. En ég get ekki verið sammála honum um það, sem hann hélt hér fram í sambandi við brtt. við 2. gr. Ég held, að það verði að hugsa þetta mál miklu meir, en gert hefur verið, ef það á að fara inn á þessa braut.

Ég fullyrði, að flóðhætta í eyjum, sem fé almennt gengur í og eru óbyggðar, er miklu minni en á ströndinni, þar sem fólkið býr, eða að minnsta kosti er það svo við Breiðafjörð. Ég fullyrði m.a., að flóðhætta í Stagley er engin, og ég fullyrði að það mundi engum bónda detta í hug að láta nokkra skepnu í þær eyjar, sem ekki er nein mannabyggð í, ef um flóðhættu er að ræða yfirleitt. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki venjulega gert, því að hann væri þar með að baka sjálfum sér stórkostlegt tjón. Og það er einmitt vegna þess, að ekki er til flóðhætta í þessum eyjum, að þeir láta féð ganga þar úti, og reynslan hefur sýnt, að flesta vetur hefur það getað gengið þar án nokkurrar snjóhættu. Það geta náttúrlega alltaf komið einhverjir vetur svo harðir, eins og t.d. s.l. vetur, og komið byljir ákveðna daga, en snjóhætta í eyjum yfirleitt, eða að minnsta kosti á Breiðafirði, er mörgum sinnum minni, en snjóhætta í landi. Það er mér alveg kunnugt um. Ég teldi það t.d. alveg frágangssök að banna bóndanum á Brjánslæk að hafa fé í t.d. Engey, sem liggur mitt á milli Fossár og Brjánslækjar. Ég tala um þetta af því, að ég er kunnugur því. Og ég er alveg viss um, að snjóhætta og margar aðrar hættur á landi uppi eru miklu meiri, en sú snjóhætta, sem getur verið í Stagley. Það eru möguleikar til þess, að bændur komist ekki að fé fyrir illviðri, snjóalögum og vatnsföllum, sem óbrúuð eru, og ég held, að þá yrði að fara inn á það að flokka alveg niður áhættusvæðin yfirleitt í landinu, taka ekki eingöngu eyjar, heldur líka þau áhættusvæði, þar sem mest hættan er almennt á landi, og láta það fólk þá ekki fá leyfi til þess að tryggja nema gegn hærri iðgjöldum.

Hins vegar hef ég skilið allt annað við tryggingar heldur en hv. formaður virðist gera. Ég hef skilið það við tryggingarnar, að það væri sameiginleg áhætta þeirra manna, sem tryggja hjá tryggingunum. Hér virðist það ekki eiga að vera. Það á að tryggja þar, sem minnst hættan er, en útiloka hina, sem einhverja hættu kunna að hafa haft, og beinlínis byggt á því, að ákveðin slys hafi orðið á s.l. ári. Þetta tel ég alls ekki frambærilegt. Og mér eru það mikil vonbrigði, ef hv. formaður nefndarinnar vill ekki taka till. aftur til 3. umr. Ég get engan veginn fylgt frv., ef þetta ákvæði á að koma inn, þar sem bændum er sýnt slíkt misrétti eins og hér er gert. Ég skal hins vegar ekki tefja lengur tímann út af þessu atriði, en vil enn leyfa mér að fara fram á það, að hv. formaður n. taki þessa till. aftur til 3. umr. og sjái, hvort við getum ekki fundið sameiginlega annað orðalag á till., heldur en hér er haft.