21.10.1952
Efri deild: 12. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

84. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Flm. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Herra forseti. Eins og skýrt er frá í grg. þessa frv., þá er það flutt að ósk hreppsnefndar Kópavogshrepps. Ég vil einnig láta þess getið, að ég hef rætt þetta mál við hv. þm. G-K., hæstv. atvmrh., og ber ég frv. fram með hans vitund og samþykki.

Í grg. þessa frv. eru sögð nokkur deili á þeirri byggð, sem hefur á stuttum tíma risið upp í Kópavogshreppi. Þar eru nú nokkuð á þriðja þús. íbúar, og ef spurt væri um ástæður fyrir því, að sú byggð hefur aukizt svo ört á nokkrum árum, þá hygg ég, að mætti benda á tvennt meðal annars: Það fyrst, að menn þar hafa lengi verið studdir til þess og greitt fyrir mönnum á ýmsan. hátt til þess, að þeir gætu byggt hús sín sjálfir, unnið að þeim mjög sjálfir í tómstundavinnu. Annað, að þar hafa menn fengið nokkru rýmri lönd og lóðir til afnota, svo að þeir hafa getað stundað ýmsa tómstundavinnu sér til gagns og gamans; bæði stunda menn þar mjög almennt garðrækt, alifuglarækt og smábúskap, og margir leita líka á sjó og róa til fiskjar á vorin og sumrin. Og nú hefur það gerzt á þessu ári, að menn þar og annars staðar hér við Faxaflóa hafa þótzt verða þess varir, að nú fengist fremur fiskur hér á grunnmiðum en áður, og þakka þá veiði þeirri friðun, sem hefur orðið á miðum hér í Faxaflóa. Menn binda við þetta miklar vonir, vænta, að framhald verði á þessum afla, og hugsa til að hagnýta sér hann, en hafa þá misjafna aðstöðu til þess.

Aðstaða til þess að hafa smábáta þarna í Kópavogshreppi er að sumu leyti góð, en að öðru leyti ekki. Það er allmikið útfiri þarna við vogana, en grýtt fjara út með nesinu, Kársnesi, sem er á milli Kópavogs og Fossvogs, svo að þar þarf að gera nokkrar framkvæmdir, svo að mönnum verði auðveldara að hafa þar smábáta. Það þarf að ryðja fjöruna, gera viðlegugarð og bátabryggju, uppsátursfjöru fyrir minni báta, en leguaðstöðu fyrir meðalstóra báta eða stærri báta. Það hafa verið gerðar mælingar til að finna þann stað, sem tiltækilegastur er í þessu efni, og má segja, að þar sé mjög góð aðstaða til þess að gera þar bátahöfn eða bátabryggju. Þær mælingar hefur Axel Sveinsson verkfræðingur vita- og hafnarmálastjórnarinnar gert og einnig þá teikningu af bátabryggju, sem fyrirhugað er að gera.

Það er nú ekki mikið nýmæli hér á hv. Alþingi, þó að óskað sé eftir því að taka nýjan smástað inn í l. um hafnargerðir og lendingarbætur og þá á B-lið þeirra laga, liðinn, sem fjallar um lendingarbætur eða smærri hafnargerðir. Síðan l. um hafnargerðir og lendingarbætur voru sett, 1946, hafa, að ég hygg, verið sett sex ný l. til viðbótar þeim og 7 smástaðir úti um land verið teknir inn á B-lið þessara laga. Þessir staðir eru Leirhöfn á Melrakkasléttu, sem var tekin í lögin 1947, Borðeyri í Hrútafirði og Óspakseyri í Bitrufirði einnig 1947, en í öðrum l., Hindisvík á Vatnsnesi og Hnúksnes í Dalasýslu 1948, Svalbarðseyri við Eyjafjörð 1949, og síðast Hjarðardalsbót í Önundarfirði 1950. Enginn þessara staða hafði eða hefur íbúatölu neitt á móts við það, sem nú er þegar í Kópavogi, og á sumum þessara staða búa aðeins örfáir menn. Þessir staðir hafa ekki heldur nein sérstök skilyrði, sem geri þá líklega til að verða miklir útgerðarstaðir eða samgönguhafnir, og hefur þó hv. Alþingi þótt rétt að taka alla þessa staði, sem ég nefndi, inn á l. um hafnargerðir og lendingarbætur. Það hefur yfirleitt verið auðsótt um alla staði, sem farið hefur verið fram á að taka inn á þessi l., enda fylgja því ekki aðeins réttindi, heldur einnig skyldur, fyrst og fremst sú skylda, að kostnaðurinn við lendingarbæturnar sé lagður fram af viðkomandi sveitarfélögum að mjög miklu leyti, og í öðru lagi, að lendingarbæturnar séu framkvæmdar á réttan hátt undir eftirliti vita- og hafnarmálastjórnar. Ég vil nú ekki halda því fram, að Kópavogur hafi nein sérstök skilyrði til að verða mikill útgerðarstaður. En hitt er ég viss um, að þar má gera lendingarbætur nokkrar, sem íbúunum geta orðið til mikils bagræðis, án verulegs kostnaðar. Ég held, að menn þurfi ekki að óttast, að ríkissjóði verði bundnir miklir baggar með samþykkt þessa frv., því að bæði er það, að Kópavogshreppur hefur í mörg horn að líta um aðrar framkvæmdir, en hafnargerðir sínum íbúum til handa, og auk þess er það nú svo, að við, sem þar búum, höfum ekki hingað til gert fyrst og fremst kröfur til ríkissjóðs um framlög til þeirra framkvæmda, sem við höfum þurft að gera, og hingað til höfum við áreiðanlega lagt meira til ríkissjóðs heldur en við höfum farið fram á að fá og fengið úr honum.

Ég vildi vænta þess, að hv. þdm. taki þessu litla frv. vel og veiti því samþykki. Að síðustu leyfi ég mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.