04.12.1952
Efri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

115. mál, stýrimannaskólinn í Reykjavík

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Sjútvn. hv. Nd. flutti þetta frv. að ósk samgmrn., en skólastjóri stýrimannaskólans hafði mælzt til þess, að þær breytingar, sem frv. felur í sér, yrðu gerðar á lögunum um stýrimannaskólann í Reykjavík. Ég vil leyfa mér að vekja athygli hv. dm. á bréfi skólastjórans, Friðriks Ólafssonar, en það er birt sem fylgiskjal með frv. Þar segir svo m.a. um nauðsyn umræddra breytinga, með leyfi hæstv. forseta:

„Síðan árið 1936 hefur í lögunum um stýrimannaskólann verið gert ráð fyrir prófi við skólann, sem nefnist „skipstjórapróf á varðskipum ríkisins“. Undir þetta próf hefur þó aldrei verið lesið til þessa við skólann, en nú eru horfur á, að halda verði deild fyrir það við skólann á næsta vetri, þar eð umsóknir hafa borizt um það frá nokkrum af stýrimönnum varðskipanna. — Síðan lögin voru samin upphaflega, hefur skoðun mín og annarra, sem þessum málum eru kunnugir, breytzt nokkuð varðandi þær kröfur, sem gera beri til þeirra, sem prófinu ætla að ljúka. Við álítum því nauðsynlegt, að lögunum og prófreglugerðinni verði breytt í samræmi við það, helzt áður en kennsla verður hafin við skólann í haust.“

Frv. var samþ. óbreytt í hv. Nd., og það mun engin brtt. hafa komið þar fram. Nú liggur aftur á móti fyrir hér í þessari hv. deild brtt. á þskj. 360 frá hv. þm. Barð. (GJ) og felur það eitt í sér að breyta frv. á þann veg, að ákvæði um þýzkukennslu verði áfram í lögunum. Út af þessari brtt. vil ég nú þegar taka það fram, að ég hef rætt þetta atriði við skólastjórann sérstaklega, og hann segir mér frá á þessa leið: Við reyndum í nokkur ár að halda uppi kennslu í þýzku við stýrimannaskólann ásamt með kennslu í ensku og dönsku. Það tókst ekki, svo að nokkurt lag væri á, að kenna þessi þrjú mál á þeim skamma tíma, sem skólinn starfar. Siðan hefur þýzkukennslan, sagði hann, verið felld niður síðustu vetur, og mun það vera samkvæmt heimild í viðkomandi lögum. — Þá sagði hann mér enn fremur, skólastjórinn, að í hliðstæðum skólum í nágrannalöndunum, svo sem í Englandi og á Norðurlöndum, a.m.k. í Noregi og Danmörku, væri ekki kennd þýzka. Á Norðurlöndunum er enska eina útlenda tungumálið, en í Englandi er ekkert erlent tungumál kennt við þessa skóla. Skólastjórinn taldi því rétt að fella þetta niður, og það virðist satt að segja ástæðulaust fyrir okkur að gera stórum hærri kröfur í þessu sambandi, heldur en gerðar eru í nágrannalöndunum, og því fremur er þetta ástæðulaust, þegar reynslan hefur sýnt, að ekki verður við það ráðið og kennslan í þremur erlendum tungumálum verður ekki nema kák.

Eins og hv. dm. hafa vafalaust gert sér ljóst, þá er þetta frv. fyrst og fremst um fagleg efni sjómannafræðinnar. Að mestu eru þetta smávægilegar breytingar til samræmis við breyttar aðstæður og fengna reynslu. Friðrik Ólafsson skólastjóri, sem er valinkunnur ágætismaður, hefur í lífsstarfi sínu öðlazt meiri reynslu á þessum sviðum en flestir, ef ekki allir aðrir Íslendingar, og það virðist því mjög eðlilegt, að tillögur hans séu mikils metnar.

Sjútvn. þessarar hv. deildar hefur athugað frv. og borið það saman við gildandi lög. Hún leggur einróma til, að það verði samþykkt óbreytt. — Ég skal svo að lokum geta þess, að þegar málið var afgreitt í n., voru tveir nm. fjarstaddir, Guðmundur Í. Guðmundsson og Steingrímur Aðalsteinsson.