02.12.1952
Efri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

139. mál, lax- og silungsveiði

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur nú lýst því yfir hér, að hann muni mjög bráðlega láta endurskoða lögin, og læt ég það mér nægja, eins og ég tók fram í minni fyrri ræðu hér áðan, og tek þar af leiðandi till. á þskj. 342 aftur með tilvísun til yfirlýsingar hæstv. ráðh.

En út af því, sem hv. 11. landsk. (ÞÞ) sagði, þá vil ég ekki heldur láta því ómótmælt hér, úr því að farið er að ræða það mál, og leyfi mér að benda á fyrst og fremst hin skýru orð hæstv. ráðh., þar sem hann sagði, að svo mjög arðvænlegur væri þessi atvinnuvegur, þ.e. að stunda þjófnaðarveiði, að viðkomandi aðilar gætu vel staðið sig við að greiða lögbundnar sektir. Nú eru þessar sektir að vísu ekki háar, þær eru frá 100 kr. og upp í 500 kr. samkvæmt gildandi lögum. En ef það er svo, að hægt er að stunda þjófnaðarveiði í ánum með ágætum hagnaði og greiða samt sektirnar, þá verður erfitt að sanna það, að það sé nokkur ósanngirni að leggja skatt á þessa veiði í landinu til þess að tryggja framtíðararð af veiðinni. Ég vil benda á einnig í sambandi við þetta, að fiskveiðasjóðurinn hefur sínar tekjur af fiskveiðunum. Það er lagður skattur á þá menn, sem framleiða fiskinn, og þeir eru skuldbundnir til þess að greiða hann í sérstakan sjóð til þess að efla sinn eigin atvinnuveg, og væri ekkert óeðlilegt, að það sama væri gert hér. Sama má segja um landssamband útvegsmanna, þeir fá einnig hlut af útflutningsgjaldi, sem þeir greiða sjálfir, og fá það til sinnar starfrækslu. Annars skal ég ekki ræða efnislega þá till. nú, hún liggur ekki fyrir, en mér þótti rétt að láta þetta koma fram, úr því að hv. frsm. fannst ástæða til þess að mæla gegn því, að sett yrði þetta gjald á.

Ég vil hins vegar segja í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði hér um einkaaðila, sem hefði komið hér upp klakstöð, að það er nú ekki betri fjárhagurinn þar heldur en svo, að hann sækir um lán frá ríkissjóði allt að 500 þús. kr. og 150 þús. kr. styrk til uppeldisstöðva. Ég geri ráð fyrir, að hann sæki um þessar upphæðir til þess að þjóna þjóð sinni og tryggja þennan atvinnuveg, sem hann hér í mörgum skjölum lýsir að sé mjög glæsilegur, en ekki til þess að hafa fé í sinn vasa. En þetta bendir þá einnig til þess, að það sé nægilegt verkefni, sem þurfi mjög mikið fé til einhvers staðar frá, annaðhvort frá ríkissjóði beint í framtiðinni eða einhvers staðar annars staðar frá. Og finnst mér þá, að það sé ekki óeðlilegt, að það fé komi að einhverju leyti frá þeim mönnum, sem eiga þau verðmæti hér, að það borgar sig fyrir ólöghlýðna menn að stunda þar veiði, stela úr ánum og borga háar sektir fyrir samkvæmt landslögum.