04.12.1952
Neðri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (1442)

140. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Þetta mál hefur nú legið fyrir sjútvn., og hún hefur athugað þetta nokkuð, en því miður hafði ég ekki vegna anna aðstöðu til þess að fylgjast eins með afgreiðslunni og ástæða hefði þó verið til.

Á þeim fundi í n., sem ég var staddur á, þegar málið var rætt, þá var aðeins minnzt á ákvæðin í 16. gr. frv., og ég vildi vekja sérstaka athygli á þeim ákvæðum, sem mér fannst strax vera nokkuð hörð og nokkuð vafasöm í framkvæmd. En það hefur nú ekki komið fram frá n. nein breyt. við ákvæðin í 16. gr., en þar segir, að ef dráttur verði á greiðslu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipa, þá skuli tvímælalaust krefjast lögtaks á hinum vangreiddu gjöldum innan 3 mánaða frá því að gjalddagi var. Það er að vísu rétt, að það mun hafa verið talsvert algengt að undanförnu, að vanskil hafi verið allmikill hjá vélbátaflotanum á vátryggingariðgjöldum, og það er kunnugt mál, að af þessu hefur orðið jafnvel í sumum tilfellum hin mesta óreiða. Það er að vísu sjálfsagt að reyna að kippa þessu einhvern veginn í lag, en ég er ósköp hræddur um það, að eins og hag vélbátaútvegsins er nú komið, þá verði þetta æði erfitt í framkvæmd, þegar búið er að binda það í lögum, að strax þegar 3 mánuðir eru liðnir frá gjalddaga, þá skuli í öllum tilfellum, undantekningarlaust, krefjast lögtaks á vangoldnum iðgjöldum. Það er því mín skoðun, að ákvæðin í 16. gr. séu of hörð og hljóti að leiða til þess, að allmargir bátar, eins og nú er yfirleitt komið rekstrarafkomu bátanna, yrðu beinlínis seldir af þessum ástæðum, og ég held því, að það væri í rauninni full ástæða til þess að athuga það, hvort ekki væri rétt að lina nokkuð á þessum ákvæðum, enda mun það vera alveg óvenjulegt að ákveða í lögum eins og þessum, að lögtak skuli fara fram, — binda það alveg hreint skilyrðislaust ákveðið í lögum, að slíkt lögtak skuli fara fram. Venjan mun vera sú að gefa aðeins heimild til þess að ganga að á þennan hátt.

Ég vildi nú, af því að þetta mun vera 3. umr., óska eftir því, að málinu yrði frestað og það yrði athugað örlítið betur, hvort ekki væri rétt að gera nokkra linun á þessu. Hins vegar skal ég játa það fullkomlega, að það hefur staðið upp á mig að mæta í n. í þessu falli, og hefði ég því auðvitað getað, ef ég hefði mætt, flutt till. á réttum tíma, en ég vildi mjög gjarnan fara fram á það við hæstv. forseta, að málinu yrði frestað til næsta fundar eða svo, til þess að það mætti athuga örlítið betur þetta ákvæði, sem mér þykir óþarflega hart.