04.12.1952
Neðri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

140. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Frsm. (Eiríkur Þorsteinsson):

Herra forseti. Þessi grein frv., sem hv. 2. landsk. gerir brtt. við, hefur verið allmikið til umr. í n., en það varð algert samkomulag um það að lokum, eftir rannsókn á öllum málavöxtum, að ganga inn á hana óbreytta, með því að fjárhag vélbátaábyrgðarfélaganna yfirleitt og Samábyrgðarinnar í heild er svo illa komið sem vitanlegt er. Þar sem ekki hafa verið nægilega skýlaus ákvæði um innheimtuna, er talið nauðsynlegt af öllum aðilum, að þetta umdeilda ákvæði komi inn í lögin. Ég er þess fullviss, að ágreiningur innan nefndarinnar hefur eingöngu orðið sakir þess, að hv. 2. landsk. var ekki mættur á fundi, þar sem ýtarlegar upplýsingar um málið lágu fyrir.

Frv. er orðið það athugað af nefndinni, að hún mun ekki ganga inn á breyt. á því, þar sem hún hafði athugað þetta atriði frá mörgum hliðum. En hv. Alþingi ræður náttúrlega um það, hvort það frestar afgreiðslu málsins. Þó vil ég benda á, að líða tekur á þing. Tel ég, með því að dregizt hefur af óviðráðanlegum orsökum að afgreiða málið frá hv. sjútvn., að réttara væri að taka svona brtt. til athugunar í Ed., ef ástæða þætti til, sem ég tel mjög vafasamt að yrði til bóta.

Áki Jakobsson: Herra forseti. Ákvæði 16. gr. í frv. þessu eru sennilega alveg einstakt fyrirbrigði í íslenzkri löggjöf. Ég veit ekki til, að það sé neins staðar til í nokkrum lögum, að það sé beinlínis lögð skylda á að framkvæma lögtök innan ákveðins tíma. Það er vitað, að ákvæðin um lögtök útheimta það, að lögtakið sé framkvæmt innan árs, þannig að lögtaksrétturinn fyrnist á einu ári. En þarna er það skylda á félögin að framkvæma lögtakið innan 3 mánaða, og þó eru þessi gjöld, sem þarna á að taka lögtaki, tryggð með lögveðsrétti, eða sem sagt veðrétti á undan öllum samningsbundnum veðum. Það á sem sagt að setja félögin í þann vanda, að þau verði að framkvæma lögtakið innan 3 mánaða og þar með kannske svipta eigendur þessara atvinnutækja yfirráðunum yfir þeim, koma þeim kannske út úr byggðarlögunum og valda þar með þeim byggðarlögum, sem þarna eiga hlut að máli, stórkostlegu óhagræði. Mér finnst þetta ákvæði ákaflega skringilegt og ákaflega óvenjulegt.

Ef það er tilfellið, sem ég efast ekki um að sé rétt, eins og fram kom hjá hv. þm. V-Ísf., að fjárhagur þessara tryggingarfélaga sé orðinn ákaflega slakur, vegna þess að ekki séu innheimt eðlilega iðgjöldin, og hafi komið fram í því, að þau hafa ekki getað borgað þau tjón, sem á þau hafa fallið, þá er engin ástæða til þess að setja sérstök lög um það, sem skyldi menn til þess að framkvæma lögtök. Þau hafa heimild til þess að framkvæma lögtök eins og nú er. Og þetta er ekkert annað en framkvæmdaratriði hjá Samábyrgðinni, sem á að hafa eftirlit og annast endurtryggingarnar fyrir þessi félög. Það er engin ástæða til þess að vera að setja sérstök lög um það, sem bindur þannig hendur þessara vátryggingarfélaga, að þau eru beinlínis skuldbundin til þess að gera ráðstafanir, sem kannske öllum öðrum finnst vera óhyggilegar og illframkvæmanlegar og til stóróhagræðis, bæði fyrir þá, sem eru þarna tryggjendur eða kaupa sér þarna tryggingu,fyrir byggðarlögin og fyrir kannske fjölda fólks, sem á atvinnu sína undir þessu. Mér finnst þetta ákvæði beinlínis barnalegt og geti orðið til mikils óhagræðis og skaða.

Ég vil eindregið skora á hv. sjútvn. að taka þetta mál til ýtarlegrar athugunar aftur og fá einhverja lagfæringu á því, vegna þess að þarna er stefnt til þess að gera lögin þannig úr garði, að félögin standi beinlínis frammi fyrir því að brjóta skýlaus lagafyrirmæli eða valda bæði einstaklingum og heilum byggðarlögum stórfelldu tjóni fjárhagslega og atvinnulega.