20.11.1952
Efri deild: 29. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

153. mál, eignarnámsheimild á hluta úr Breiðuvík í Rauðasandshreppi

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Með frv. þessu á þskj. 244 er leitað heimildar fyrir ríkisstj. til þess að taka eignarnámi 5 hndr. úr jörðinni Breiðuvík í Rauðasandshreppi. Ríkissjóður hefur átt þessa jörð um alllangt skeið að 5/6 hlutum, en 1/6 hluti jarðarinnar er í einkaeign og hefur verið það lengi. Á jörðinni hvílir sú kvöð að byggja upp kirkju, sem komin er að falli, og hefur eigandi að 1/6 hluta jarðarinnar ekki fengizt til þess að semja um að greiða kostnaðinn af sinni hálfu. Nú hefur ríkissjóður afhent þessa jörð til þess að koma þar upp vistheimili fyrir afvegaleidda unglinga, og hefur þegar verið byrjað á byggingum þar á yfirstandandi ári. Nefnd sú, sem fer með þetta mál f.h. ríkisstj., hefur leitað samkomulags við eiganda jarðarinnar, þ.e.a.s. manninn, sem á þau 5 hndr., sem hér um ræðir, en það hefur ekki náðst samkomulag um að kaupa þennan hluta jarðarinnar fyrir hæfilegt verð. Ég skal upplýsa hér, að n. bauð jarðareiganda þrefalt fasteignamat fyrir landið, sem er metið 1.100 kr. að fasteignamati. Húseignir eru engar á þessum hluta jarðarinnar. Boðinu var hafnað, en því fylgdi þó að viðkomandi jarðareigandi yrði leystur undan þeirri skyldu, sem því er samfara að byggja upp kirkjuna. Stofnuninni er nauðsynlegt að fá þennan hluta jarðarinnar einnig. Landið er að mestu óskipt, að vísu nokkuð skipt úr túninu, en það mundi skapa rekstri heimilisins mjög mikla erfiðleika, ef ekki væri hægt að fá afnot af allri jörðinni, og þess vegna er farið fram á þessa heimild, sem hér um ræðir.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál nánar, en vil að lokinni þessari umræðu leyfa mér að leggja til, að málinu sé vísað til landbn. Hún mun hafa slík mál með höndum venjulega.