02.12.1952
Efri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

153. mál, eignarnámsheimild á hluta úr Breiðuvík í Rauðasandshreppi

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv. fer fram á að heimila eignarnám á 5 hundruðum úr jörðinni Breiðuvík í Rauðasandshreppi í Vestur-Barðastrandarsýslu. Á hinum hluta jarðarinnar er verið að koma upp vistheimili fyrir vandræðabörn, og það er talið, að það vistheimili þurfi á allri jörðinni að halda.

N. sendi þetta frv. til umsagnar menntamálaráðuneytisins, sem befur þetta vistheimili í Breiðuvík í V-Barðastrandarsýslu með höndum, og það staðfesti ósk og nauðsyn heimilisins um að fá jörðina alla til umráða.

Við leggjum til, að 1. gr. sé breytt að orðalagi. Það kemur af því, að okkur er ekki alveg ljóst eftir greininni, eins og hún er í frv., hvað mikinn hluta hér er um að ræða í jörðinni. Það eru talin 5 hndr., en það kemur ekki fram, hvort það er að fornu mati eða matinu frá 1861. Og mér er ekki ljóst að minnsta kosti, hvenær þessi 5 bndr. eða þessi jarðarhluti varð sérstök eign. Í Johnsens-jarðatali er jörðin öll sameiginleg eign, metin 30 hndr. 1861 er hún líka í eign sama manns og metin sameiginlega á 28.5 hndr. Svo hefur hún einhvern veginn skipzt og er metin í tvennu lagi bæði 1932 og 1942. Þá eru, ef þetta er úr fornu mati, þessi 5 hndr., sem svara þá til 1/6, orðin breytt, þannig lagað að það hefur verið meira gert af umbótum á öðrum partinum, en hinum. Trúlega hefur það verið gert úr sameiginlegu landi með því að stækka tún, og mundi þá, ef jörðinni yrði skipt, aftur verða tekið óræktarland hins hlutans og lagt undir þann, sem búið er að rækta, til ræktunar af óræktarlandi. Þess vegna leggjum við til, að greinin sé orðuð þannig:

„Ríkissjóði er heimilt að taka eignarnámi þann hluta úr jörðinni Breiðuvík í Rauðasandshreppi í Barðastrandarsýslu, sem er ekki nú þegar eign ríkissjóðs.“

Það er sami hlutinn, sem um er rætt, hvort sem það þá er úr 30 hundruðunum gömlu eða úr 281/2 hundraðinu frá 1861, — það er sami hlutinn, sem um er að ræða, og skiptir ekki máli fyrir framgang málsins, en orðalagið ótvírætt. Í samræmi við þetta breytum við fyrirsögn frv. og leggjum til, að frv. sé samþ. þannig breytt. — Annars er rétt að benda á það, að á allri jörðinni Breiðuvík er bændakirkja, sem er lítil kirkja gömul og þarf a.m.k. ákaflega mikillar viðgerðar við og líklega alveg endurbyggingar. Hún á ekki nema kr. 3.218.26 í sjóði, og eigandi jarðarinnar Breiðuvíkur, hver sem hann er, er skyldur til að byggja hana upp. Þess vegna hvílir þarna á jörðinni kvöð. Ráðuneytið áætlar, að það muni kosta 60–80 þús. kr., og ef þetta væri nú 1/6 hlutinn, þá er það 10 þús. kr. minnst, sem hvílir sem kvöð á þessum parti af jörðinni, og til þess verður vitanlega að taka tillit, þegar jörðin er keypt og metin. Satt að segja er ekki trúlegt núna, að hún seljist fyrir miklu meira, en til þess þarf að uppfylla þá kvöð, ef hún þá selst fyrir það. Þrátt fyrir það, þó að það kunni þess vegna beinlínis að hafa svolítil útgjöld í för með sér að kaupa jörðina, þá leggjum við til, að frv. sé samþ. með þeim breyt., sem greinir á þskj. 333.