05.12.1952
Neðri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (1483)

178. mál, fiskmat

Frsm. (Pétur Ottesen):

Sjútvn. hefur flutt þetta frv. eftir ósk atvmrn. Í þessu frv. er lagt til að breyta aðeins einni grein í lögunum um meðferð, verkun og útflutning á fiski, þ.e. 6. gr., og breytingin er í því fólgin og því einu, að þar er bætt við tveimur yfirfiskmatsmönnum. Öðrum þessara yfirfiskmatsmanna er ætlað að hafa sérþekkingu í meðferð og verkun harðfisks, og á hann að leiðbeina um skreiðarmat um land allt. Í hinu tilfellinu er um að ræða að fjölga úr tveimur upp í þrjá yfirfiskmatsmönnunum á Suðurlandi, en þeir eiga að hafa búsetu í Reykjavík. Þó er hér í raun og veru ekki um að ræða neina fjölgun frá því, sem nú er, því þó að svo sé ákveðið í lögunum, að það skuli ekki starfa nema tveir yfirfiskmatsmenn á Suðurlandi, þá felst í lögunum heimild til þess að bæta þriðja yfirfiskmatsmanninum við, og þessi heimild hefur verið notuð nú um nokkurt skeið, þannig að þar hafa starfað og starfa nú þrír yfirfiskmatsmenn, svo að í raun og veru er ekki hér um að ræða raunverulega breytingu aðra en þá, að bætt er við einum fiskmatsmanni, sem á að hafa sérþekkingu í meðferð og verkun harðfisks og leiðbeina um skreiðarmat. Það hefur hin síðari ár mjög færzt í aukana um útflutning á hertum fiski, og virðist hér vera um sæmilegan markað að ræða fyrir þessa vöru, þannig að þessi verkunaraðferð verði notuð í vaxandi mæli, og það er að sjálfsögðu eins ástatt um fisk, sem þannig er verkaður, eins og um annan fisk, að nauðsynlegt er, að eftirlit sé haft með því, að hann sé fluttur út í því verkunarástandi, sem kaupendurnir gera kröfu til. En það er eins og kunnugt er undirstöðuatriði um markað fyrir fiskframleiðslu vora, að treysta megi matinu. Gæði íslenzks fisks eru viðurkennd, ef eigi brestur á um verkunina. Er því mikið í húfi, að gætt sé fyllsta öryggis.

Sjútvn., sem flytur þetta mál, hefur, eða einstakir nm., haft nokkurn fyrirvara um að áskilja sér rétt til þess að flytja brtt. við þetta frv. á síðara stigi málsins og jafnframt að vera með brtt., sem aðrir kunna að flytja. — Ég vil svo f. h. nefndarinnar mælast til þess að, að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr.