28.10.1952
Efri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

95. mál, tilkynningar aðsetursskipta

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þegar frv. til l. um manntal var hér á ferðinni, þá minntist ég á það, að von væri á öðru frv., sem væri beint áframhald af því, og það er það, sem hér liggur fyrir. Nefndin hefur haft þetta frv. til athugunar og rætt það við hagstofustjóra. Það voru nokkur atriði í frv., sem ég taldi að þyrfti og ætti að breyta, og sum af þeim hef ég minnzt hér á áður og skal ekki gera þau frekar að umtalsefni. En það, sem mér sérstaklega og reyndar nefndinni fannst ábótavant við þetta frv., eru þær undantekningar, sem gerðar eru frá skyldu manna til að tilkynna aðsetursskipti og felast í 2. og 4. tölul. 3. gr. Það er augljóst mál, að ef hafa á það gagn af manntalinu, sem við allir óskum eftir, það gagn að geta, auk þess að vita á hverjum tíma, hvar hver einstakur maður hefur aðsetursstað, líka vitað, að hverju hann vinnur, þá má ekki sleppa fólkinu, sem fer úr bæjunum í kaupavinnu, því að það gefur upplýsingar um þá menn, sem að þeirri atvinnugrein vinna, sem landbúnaður er, né heldur þeim mönnum, sem færa sig á milli staða á vertíð, hvort sem það er nú á milli þorpa eða þá beinlínis menn úr sveit, sem koma til að stunda sjóróðra í verstöðvunum. Þess vegna hefði ég — og reyndar nefndin — gjarnan viljað breyta bæði 2. tölul. og 4. tölul. og taka upp tilkynningarskyldu um þá menn, sem fara annars vegar í sveit, og eins þá unglinga, sem sumarlangt dvelja í sveit og hjálpa óneltanlega oft mikið til við framleiðslu þar. En hagstofustjóri sagði okkur, að það að koma í kring manntalinu, eins og lög þessi eru nú, væri svo mikil vinna, að ef við bættum á þá þessari til- kynningarskyldu, sem undan er felld núna í 2. og 4. tölul. 3. gr., þ.e. um börnin, sem eru sumarlangt í sveit, og fólkið, sem fer í árstíðabundinn stað, sumt að sumrinu og sumt að vetrinum, eftir 4. lið 3. gr., þá gætu þeir bara alls ekki annað því, og bað okkur þess vegna í nefndinni að gera það fyrir sín orð að breyta þessu ekki núna. Eins og okkur væri ljóst, þá yrðu bæði lögin um manntalið og þessi lög að sameinast í eitt á næsta þingi og þá felld úr gildi lögin um venjulegt manntal, sem enn þá gilda og eru ekki felld úr gildi með þessum lögum, en verða óþörf, þegar þetta kemst í kring, og þá skyldi hann vera með okkur í því að taka þessar breytingar upp, því að þá mundu þeir verða búnir að komast svo vel í gang með þetta, að þeir gætu bætt því við sig, þó að þeir gætu það ekki núna. Það væri þess vegna þýðingarlaust að breyta því núna og skylda þá til þess, því að þeir gætu það ekki. Á þessum rök- semdum féllum við frá því að flytja brtt. við bæði 2. og 4. tölul. 3. gr., sem ég annars hafði mjög mikla tilhneigingu til — og ég held nefndin öll, því að n. allri er það ljóst, að það er ákaflega mikil þörf á því að hafa sem nánasta vitneskju um það á hverjum tíma, hve margir menn vinna við þessa eða hina atvinnugreinina í landinu, en eftir þeim upplýsingum verðum við þó að bíða þangað til eftir liðugt ár, þegar þetta verður allt endurskoðað, og þá taka það inn. Sömuleiðis var frá mínu sjónarmiði ákaflega vafasamt, hvort ætti að undanskilja tilkynningu til manntalsskrifstofunnar eða hagstofunnar námsmenn erlendis, eins og gert er í síðari hluta 6. gr. frv. Menn, sem dvelja árum saman við nám erlendis, hafa oft verið taldir eiga heimilisfang hér og hafa aðsetur hér og þá venjulega eða alltaf hjá sínum foreldrum eða aðstandendum hér heima, en ekki nærri alltaf. Ég veit t.d., að ég sjálfur hef átt syni við nám árum saman erlendis, og ég taldi þá ekki hér, þeir voru taldir þar. Eins og þetta er nú í þessum lögum, þá mundu þeir allir taldir hér með dvalarstað, þó að þeir væru árum saman við nám erlendis. Þetta taldi n. dálítið vafasamt, en við að ræða um þetta við menn, sem hafa nú átt námsmenn erlendis, þá virtist allur fjöldinn hafa fylgt alveg gagnstæðri venju og ég hef gert við mína syni, þegar þeir voru ytra, talið þá hér, meðan þeir voru við nám, og ekki hætt að telja þá, eins og ég gerði, og látið þá telja sig ytra. Og með tilliti til þess var nú þetta látið standa óbreytt í frv., það mundi þá verða til athugunar næsta haust, um leið og þetta allt verður endurskoðað og fært saman í einn bálk, hvort það ætti að gera það eða ekki. Þetta tvennt, sem ég taldi fyrst, var það, sem allri nefndinni fannst ástæða til að breyta, þótt hún félli frá að gera það núna, en um þennan þriðja lið, sem ég talaði um, síðari málslið 6. gr., var n. ekki alveg sammála, sumir vildu jafnvel sleppa honum og aðrir ekki, og endalokin voru þau, að við létum hann standa. Hann liggur þá líka til athugunar að hausti, þeg- ar lögin verða sameinuð og steypt í einn bálk.

Hagstofan leggur ákaflega mikla áherzlu á að fá þessi lög afgreidd sem fyrst úr þinginu. Hún segist þurfa að láta prenta í sambandi við þau ýmis eyðublöð, sem þurfa að komast til hrepp- stjóra og sýslumanna sem fyrst og alltaf fyrir áramót. Og þess vegna bað hagstofustjóri mig að skila því til hæstv. forseta að reyna að hraða gangi þessa máls í gegnum deildina eins og hægt væri, og helzt, ef hann gæti sent það til Nd. í dag. Ef deildin er sammála um að taka ekki þessar breytingar, sem ég hef minnzt á og við höfum látið liggja, og sér ekki ástæður til annarra breytinga, sem ég held nú, að ekki séu, þá vildi ég mælast til þess við forseta, að hann reyndi að þessum fundi loknum að setja annan fund og koma málinu til Nd., svo að það geti komið þar fyrir á fimmtudag og þá kannske öðru hvoru megin við helgina orðið að lögum, svo að það sé hægt að fara að starfa eftir því.