18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

167. mál, skattgreiðslu Eimskipafélags Íslands

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. er nú orðið hv. alþm. kunnugt, eins og hv. frsm. sagði, eiginlega allt of kunnugt, a.m.k. er ég orðinn þreyttur á því. Það eru ekki svo fá orðin, sem búið er að segja um þetta mál á öllum þeim mörgu þingum, sem hafa haft það til meðferðar. Það er þess vegna ekki miklu við að bæta.

Hér er í stuttu máli um það að ræða, að lagt er til að gera eitt stærsta auðfélag landsins, sem er í einkaeign, skattfrjálst, samtímis því sem því er haldið fram, að ríkissjóður sé svo fjárþurfi, að leggja þurfi háa skatta á þá, sem ekki hafa til hnífs og skeiðar, og sömuleiðis á fyrirtæki í undirstöðuatvinnuvegum landsmanna, sem berjast í bökkum og verða að bera þungar álögur. Ég get þess vegna með engu móti goldið samþykki mitt við slíkri ráðstöfun sem í þessu frv. felst, og ég legg því til, að frv. verði fellt, í andstöðu við hv. meiri hl., sem vill láta samþ. það óbreytt.

Ég sagði, að Eimskip væri eitt af stærstu auðfélögum landsins. Á reikningum þess eru eignir þess taldar vera um 70 millj. En nú er það vitað, að skip þess hafa verið afskrifuð niður í hlægilega lágt verð, sum skipin niður í nokkrar þúsundir eða tugi þúsunda, svo að það mun varla of hátt áætlað, að raunveruleg eign félagsins sé um 150 millj. kr. Síðasta reikningsár var hagnaður þess talinn vera 16 millj. kr., en þegar búið var að afskrifa, þá voru eftir 2.8 millj. Það er vitað, að hlutabréf félagsins ganga á margföldu nafnverði, — ég veit ekki, í hvaða verði þau eru nú, það fer um það mörgum sögum, sumir segja tvítugföldu verði, aðrir þrítugföldu og aðrir enn meira.

Það hefur verið notuð sem afsökun fyrir þessari ráðstöfun, að hún er því skilyrði bundin, að hluthöfunum sé ekki greitt meira en 4% í arð. En ég tel það haldlaus rök. Það, sem hér er verið að gera, er það, að auðugum mönnum eru gefnar stórgjafir af ríkisfé, án þess að nokkuð komi á móti, ekki einu sinni forkaupsréttur að hlutabréfum félagsins. Það var flutt brtt. í hv. Nd. um það, en hún náði ekki samþykki. Ákvæðið um arðshámark til hluthafa, meðan skattfrelsi það, sem frv. fjallar um, er í gildi, breytir hér engu um, því að sannleikurinn er sá, að þetta ákvæði kemur fyrst og fremst þeim að gagni, sem eru nú og hafa verið með tilstyrk fjármagns síns að kaupa upp hlutabréfin í Eimskipafélaginu til þess að geta náð því undir sig að fullu og öllu.