18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

167. mál, skattgreiðslu Eimskipafélags Íslands

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef nú ekki miklu að svara ræðu hv. frsm. minni hl. Það eru sömu rök eins og hafa komið hér fram áður í þessu máli og byggð á mjög miklum misskilningi. Hér er ekki verið að gefa neinum auðugum mönnum stórfé. Það er aðeins verið að halda þessu fé í fyrirtæki, sem hefur þjónustu fyrir allt landið og hefur innt hana af hendi með ágætum í s.l. 30 ár eða meira og m.a. gert mögulegt að lifa hér menningarlífi, á meðan tvær heimsstyrjaldir hafa geisað á þessu tímabili. Í staðinn fyrir að greiða ágóðann út til hluthafa eða í skatt til ríkissjóðs hefur þetta fyrirtæki getað byggt upp svo myndarlegan skipaflota, að Íslendingar eru öruggir um siglingar til landsins, jafnvel þó að heimsstyrjöld hafi ríkt hér, eins og kunnugt er, og auk þess er ekkert fyrirtæki landsmanna, sem hefur borið eins vel hróður Íslands út á við og verið eins góð landkynning fyrir landið eins og Eimskipafélagið. Ég vildi því mótmæla þeim staðhæfingum, sem hv. frsm. minni hl. hefur sagt hér í sambandi við þetta mái.