15.12.1952
Efri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

186. mál, almannatryggingar

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af heilbr.- og félmn. fyrir beiðni fors: og félmrh., en nm. hafa óbundnar hendur um frv. og einstök atriði þess.

Ég hafði nú ekki ætlað, að það mundi falla í minn hlut að flytja aðalframsögu fyrir þessu frv., enda verður það lítið, sem ég segi. Ég mun aðeins rekja hér þær greinar og þau ákvæði, sem í frv. felast eftir grg. Vænti ég, að við 2. umr. málsins verði frekari grein gerð fyrir málinu af hæstv. félmrh., sem hér er ekki staddur nú.

Í 1. gr. frv. er aðallega að finna þá breyt., sem er síðast í 2. málsgr., um þann rétt, sem Tryggingastofnunin eignast á hendur framfærslusveit föður og dvalarsveit móður. Nýjungin í þessari grein er sú, að þar með er talinn sá réttur að leita yfirvaldsúrskurðar um sveitfesti barnsföður. Þetta hefur ekki þótt alveg afdráttarlaust, og því er lagt til, að þetta sé tekið hér upp í 1. gr.

2. gr. er um það, að íslenzkar konur, sem gifzt hafa erlendum mönnum og þeir fallið frá, yfirgefið þær eða skilið við þær, skuli hljóta sama rétt og ekkjur og fráskildar konur til lífeyrisgreiðslu með börnum sínum samkv. 23. og 28. gr. l. um almannatryggingar, en svo er gert ráð fyrir, að ríkissjóður endurgreiði Tryggingastofnuninni fé þetta. Svo sem í grg. segir, er hér aðallega um að ræða íslenzkar konur, sem gifzt hafa erlendum hermönnum, sem dvöldu hér á ófriðarárunum og hafa af einhverjum ástæðum skilið svo við menn sína, flutzt hingað heim — oft algerlega eignalausar og án þess að hafa nokkra fyrirvinnu. Nú hefur það verið þannig, að Tryggingastofnunin hefur neitað að greiða konum þessum barnalífeyri, vegna þess að börnin eru erlendir ríkisborgarar. Og þrátt fyrir það, þó að sveitarsjóðir hafi gert einhverja úrlausn, þá hefur ævinlega verið talið, að um bráðabirgðaúrlausn væri að ræða. Einnig er hér um að ræða konur, sem hafa gifzt mönnum með erlendu ríkisfangi, og mennirnir hafa flutzt af landi burt og skilið þær eftir með börn án þess að leggja þeim nokkuð til framfæris. Þessar konur halda að vísu sínum íslenzka ríkisborgararétti, en börnin hafa ríkisfang föðurins, og er því einnig í slíkum tilfellum um erlenda ríkisborgara að ræða. Fram að þessu hefur því Tryggingastofnunin orðið að neita um að greiða lífeyri með þessum börnum, þrátt fyrir það þó að þær konur, sem hér eiga hlut að máli, hafi iðulega verið mjög illa settar. Úr þessu er gert ráð fyrir að bæta með 2. gr., og endurgreiði ríkissjóður Tryggingastofnuninni þennan barnalífeyri.

Þá er í 3. gr. talað um hækkun samkv. 47. gr. l. nr. 104 1943 upp í 72 krónur. Þetta er hækkun daggjalda fyrir sjúklinga á spítölunum frá því, sem þau voru 1941. Þá voru þau 41 kr., eru nú 60 kr. á þessu ári, og er búizt við, að þessi daggjöld hækki upp í 70 kr. í byrjun næsta árs. Vegna þessarar hækkunar er hámark það, sem ákveðið er samkvæmt l. á framlagi ríkissjóðs og sveitarsjóða til sjúkrasamlaga, allt of lágt, og verður því að hækka það, ef þessar hækkanir eiga ekki að lenda á samlagsmönnunum aðeins. Það er breytingin, sem gert er ráð fyrir með 3. gr.

Þá er 4. gr. um takmörkun á lífeyrisgreiðslum til ellilífeyrisþega. En samkv. l. nr. 1 frá 1952, um almannatryggingar, mundi þetta skerðingarákvæði falla úr gildi, ef það er ekki framlengt núna fyrir áramótin. Meginhluti þessarar grg. gengur út á það að skýra þá möguleika, sem væru fyrir hendi, ef að því ráði væri horfið að fella niður skerðingarákvæðið. Og þegar búið var að leggja niður fyrir sér bæði í félmrn. og hjá tryggingaráði þá möguleika, sem fyrir hendi eru, hefur niðurstaðan orðið sú, að það hefur þótt of viðurhlutamikið að ráðast í það nú á næsta ári að nema skerðinguna úr gildi að hluta eða öllu leyti, eins og talað er um hér í þessum skjölum, þannig að það er gert ráð fyrir, að það fari mjög ýtarleg rannsókn fram á tryggingakerfinu öllu, og gert ráð fyrir, að þeirri rannsókn verði lokið fyrir árslok 1954. Þess vegna er líka lagt til, að þetta bráðabirgðaákvæði skuli vera í gildi til ársloka 1954, en það hefur verið reiknað út, að það mundi kosta um 10 millj. kr. að afnema skerðingarákvæðið með öllu. Hins vegar hefur verið rætt um þann möguleika að afnema það smátt og smátt. En vegna þeirrar endurskoðunar, sem fyrir liggur, og ýmislegs annars, þá er þó lagt til að halda því nú um sinn.

Þetta eru aðalákvæði frv. þess, sem hér liggur fyrir. Þrátt fyrir það þó að það sé borið fram af n., þá er það borið fram með þeim hætti, að rétt mun vera, að málinu sé vísað til n. aftur, og mun hún þá skila áliti um það. En ég vil beina því til hæstv. forseta, að það mun vera óhætt að taka málið á dagskrá á næsta fundi d., vegna þess að n. mun hraða störfum mjög með þetta, þar sem það þolir enga bið.