16.12.1952
Efri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

186. mál, almannatryggingar

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls í gær leyfði ég mér að rekja það nokkuð samkvæmt hinni skýru grg., sem fylgir því, og vísa til grg. og þess, sem ég sagði þá varðandi málið í heild. En um nál. á þskj. 469 vil ég taka það fram, sem raunar kemur fram í því, að aðeins 3 nm. voru á fundi, er málið var afgreitt, og hafði einn af þessum þremur, hv. 4. þm. Reykv., fyrirvara um afgreiðslu málsins, en meiri hl. af þeim, sem voru viðstaddir, vildi samþykkja frv. óbreytt.

Fyrirvari sá, sem hv. 4. þm. Reykv. áskildi sér, er varðandi tvær brtt., sem hann nú hefur borið fram á þskj. 468, og eru nú raunar þrjár, en sú þriðja er afleiðing af tveimur þeim fyrri. En eins og segir í nál. (Forseti: Þær eru nú fjórar.) Afsakið, þær eru fjórar, en tvær þær síðari eru afleiðing, hækkunarákvæði, sem leiðir af tveimur þeim fyrri. En eins og segir í nál., þá eru þessar till. um það, að hann vildi láta hækka tekjumarkið, sem skerðing lífeyris var miðuð við, um 50% frá því, sem nú er, en það mundi þýða hækkuð iðgjöld til trygginganna og framlög til þeirra af opinberu fé um nálega 3%, og yrði hlutur ríkissjóðs af þeirri hækkun um 900 þús. kr. Önnur breyting, sem hv. 4. þm. Reykv. leggur til, er, að tekin verði inn ákvæði um mæðralaun, sem mundu nema 2% hækkun á tekjuliðum stofnunarinnar og kosta ríkissjóð um 600 þús. kr. Heildarhækkun sú, sem þessar breytingar mundu hafa í för með sér, mundi nema 5% á öllum iðgjöldum, sem greidd eru til trygginganna, og sömuleiðis á öllum framlögum til þeirra, og mundi kostnaður ríkissjóðs af þessu nema um 11/2 millj. kr.

Það var nú hvort tveggja, að meiri hl. taldi, að ekki mundi heppilegt að gera slíkar hækkanir nú, hvorki að því er varðar iðgjöldin né heldur að því er varðar framlög hins opinbera til trygginganna og ekki heldur þá hækkun á hluta ríkissjóðs. Enn fremur er það, að það kemur fram í grg. þeirri, sem hér liggur fyrir, og umsögn um frv., að það er gert ráð fyrir, að innan tveggja ára fari fram heildarendurskoðun á tryggingalögunum. Töldum við í meiri hl. rétt að fresta þessum miklu breytingum þangað til slík endurskoðun hefði farið fram. Sá meiri hl., sem var til staðar á þessum nefndarfundi, leggur því til, að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það liggur fyrir á þskj. 454.