16.12.1952
Efri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

186. mál, almannatryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mjög, enda sízt ástæða til að deila við hv. þm. Barð. um þetta efni, því að mér er kunnugt um, að hann segir það rétt, að hann hefur í sínum flokki verið sá maður, sem bezt hefur unnið að framgangi tryggingal. hér á Alþ., sem ég kann honum þökk fyrir.

En út af þeim orðum, sem hann lét falla um athugun ríkisstj. á því, hvað það mundi kosta að fella með öllu niður takmarkanir á lífeyrisgreiðslum samkv. bráðabirgðaákvæðinu, og sérstaklega því, sem hann sagði um að greiða að fullu þeim mönnum, sem orðnir eru 75 ára og eldri, þykir mér ástæða til að benda á nokkur atriði.

Það voru mjög athuguð eftir beiðni ríkisstj. ýmis atriði eða ýmsar hliðar á því að fella niður skerðinguna á lífeyrisgreiðslum og þá sérstaklega fyrir menn, sem hefðu náð vissum aldri. En við þá athugun kom það í ljós, að það var allmikill meiningarmunur milli mín og tryggingaráðs annars vegar og hæstv. ríkisstj. hins vegar um það, hvernig skyldi afla fjár til þessa. Þeir menn, sem orðnir eru nú 75 ára, hafa engan eyri greitt til almannatrygginganna og aðeins greitt tvö ár lítils háttar til alþýðutrygginganna, sem voru í gildi áður en almannatryggingalögin komu, þannig að í raun og veru hafa þeir menn, sem þessum aldri hafa náð, ekkert borgað til trygginganna. Ef nú væri ákveðið að borga þeim fullan lífeyri í viðbót við lífvænlegar tekjur, segjum 20–30 þús. kr., þá er það í sjálfu sér gott og fallegt. En er það réttlátt og sanngjarnt að leggja iðgjöld á þá, sem nú bera uppi kostnaðinn við tryggingarnar, til þess að greiða þessum mönnum lífeyri í viðbót við lífvænlegar tekjur, þegar þeir hafa engin iðgjöld greitt til stofnunarinnar frá fyrstu tíð? Það er annað atriði. Þetta var ástæðan til þess, að tryggingaráð gat ekki mælt með fyrstu ábendingunni, sem greint var frá í fylgiskjalinu með frv. hér áðan. Tryggingaráð litur svo á, að það sé ekki réttlátt eða eðlilegt að hækka iðgjöld á almenningi, sem nú stendur undir tryggingunum, til þess að borga lífeyri þeim, sem hafa lífvænlegar tekjur — segjum 20–30 þús. kr. — og ekkert hafa greitt til trygginganna, þó að þeir hafi náð þeim aldri, sem hér var nefndur áðan. Það er mín skoðun, að það sé mjög vafasamt að gera það. Þess vegna hefur tryggingaráð bent á aðra leið í þessu efni, sem það fyrir sitt leyti telur líklegasta, sem sé þá, að athugað verði, hvort ekki sé rétt að breyta ákvæðum l. í það horf, að réttur til ellilífeyris sé ekki eingöngu bundinn við ákveðinn aldur, 67 ár, heldur jafnframt það, að hlutaðeigandi maður hafi látið af störfum.

Markmið og tilgangur trygginganna er ekki út af fyrir sig að greiða lífeyri þegar vissum aldri er náð, heldur að tryggja menn fyrir því, að þegar þeir eru óvinnufærir fyrir aldurssakir, þá skuli þeir hafa rétt á ákveðnum lágmarkstekjum, eða þegar tekjur þeirra falla niður vegna þess, að þeir hafa látið af störfum og ekki getað unnið lengur. Þessi grundvallarregla er líka notuð í tryggingum, sem við höfum sjálfir hér á landi, og það er í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þar er ekki ákveðið, að menn skuli fá eftirlaun eða lífeyri þegar þeir eru orðnir 65 ára og mega hætta störfum, heldur þegar þeir eru orðnir að minnsta kosti 65 ára, ef þeir þá hafa látið af störfum, en meðan þeir halda áfram sínum störfum njóta þeir að sjálfsögðu ekki eftirlauna í viðbót við sín laun. Ég álit, að það sé fullkomlega athugandi, hvort ekki sé vert að færa þessa reglu, sem gildir um tryggingarnar úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, yfir á almannatryggingarnar almennt. Og það er einmitt sú ábending, sem kom frá tryggingaráði til ríkisstj. og hún telur, að mér skilst, að vert sé að athuga í sambandi við endurskoðun á tryggingalögunum fyrir árslok 1954. En það breytir ekki því, að menn, sem eru á tekjubilinu frá 6–9 þús. kr., eiga að minni hyggju að fá rétt til fulls og óskerts lífeyris engu að síður, hvað sem ræðst að því er framtíðina varðar með hina, sem hafa hærri tekjur, því að ég geri ekki ráð fyrir því, að það verði nokkru sinni gengið svo langt niður í þessu efni, að maður, sem hefur 9.000 kr. tekjur og ekki meira, verði talinn halda áfram störfum. Það getur ekki verið nema lítill hluti af hans starfi, sem svarar til slíkra tekna.

Þetta vildi ég nú láta fylgja til skýringar út af þeim orðum, sem hv. þm. Barð. lét hér falla um þetta efni áðan. Ég er honum sammála um þýðingu trygginganna, þær séu orðnar núna svo mikill þáttur í afkomu alls almennings í landinu, að ég hygg, að það komi ekki til mála, að það séu bornar fram í alvöru till. um að skerða þær. Ég skal t.d. benda á það hér í Reykjavík, að þar nema bótagreiðslur Tryggingastofnunarinnar einnar saman nokkuð yfir 3 millj. kr. á hverjum einasta mánuði og það einmitt til þess fólks, sem hefur engar, sáralitlar eða litlar aðrar tekjur heldur en þær bætur, sem úr tryggingunum koma, auk þess sem sjúkrasamlögin greiða fyrir læknishjálp, sjúkrahússvist og annað þess háttar nokkuð yfir eina millj. kr. á hverjum mánuði. Það þarf engum getum að því að leiða, hversu miklu það mundi breyta hjá fólki, ef þessar tryggingar yrðu skertar verulega, að ég ekki tali um, ef þær yrðu felldar niður.

Mér þykir vænt um þau viðurkenningarorð, sem hv. þm. Barð. — og enda líka hv. frsm. — lét falla um nauðsyn mæðralauna. Og ef von væri til þess, að hann gæti fylgt þessari till. með því að fresta afgreiðslu málsins um einn til tvo daga, þá mundi ég að sjálfsögðu ekki vilja missa af þeim líkum. En ekki get ég látið vera að benda á, að þessi áhugi hefur nú komið fram hér fyrr. Ég held, að þetta sé í fjórða skiptið, sem þessar till. eru bornar fram hér á þingínu síðan almannatryggingalögin voru samþykkt, og alltaf hefur þeim verið tekið vel, en aldrei hefur verið svo ástatt með fjármálin eða annað, að hægt væri að samþykkja þær. Ég verð að segja, að þó að mér sé vel kunnugt um það, að erfitt sé að koma saman fjárlögum, þá hygg ég nú, að með samvizkusamlegri leit mætti finna einhverjar fjárveitingar þar, sem jafnvel væru heldur minna aðkallandi, en þær 500–600 þús. kr., sem það mundi kosta ríkissjóðinn að samþykkja till. um mæðralaun. Og ég vildi vona, að við nánari athugun á því gætu nú bæði frsm. nefndarinnar og hv. þm. Barð., formaður fjvn., komið auga á eitthvað slíkt, ef ekki væri þá fært að hækka einhverja tekjuliði sem því svaraði, sem ekki er nú óhugsandi heldur.

Að því er snertir ummæli hv. þm. Barð. um nauðsyn þess að finna sérstakan tekjustofn fyrir tryggingarnar, þá er ég honum sammála um það, að það væri mjög æskilegt. Í sjálfu sér er ekki erfitt að benda á einhvern tekjustofn í því efni, heldur liggja erfiðleikarnir sennilega í því, að það er talið, að það séu önnur útgjöld, sem kalli að til þess að verja fénu til. En ég skal aðeins minna á, að tiltölulega nýr skattur eins og söluskatturinn, sem var lagður á í ákveðnu augnamiði, til þess að standast uppbótagreiðslur á útflutningsafurðir og niðurgreiðslur hér innanlands, og nú er áætlað að muni gefa í tekjur á næsta ári í kringum 90 millj. kr., er enn í lögum og enn í fjárlögum, þrátt fyrir það þó að útflutningsuppbætur séu niður felldar og uppbótagreiðslur hafi mjög verið skertar. — Allur kostnaður ríkis og sveitarfélaga samanlagt á öllu landinu vegna trygginganna mun vera í kringum 60 millj. kr. Það eru áætlaðar um 35 millj. kr. í fjárlögum af hálfu ríkissjóðs, og mun vera eitthvað milli 24 og 25 millj. kr. frá sveitarsjóðunum eftir sömu áætlun. Þessar 60 millj. kr. eru þó ekki nema um 2/3 hlutar af því, sem söluskatturinn er áætlaður í frv. hæstv. fjmrh. nú. Nú verð ég að segja það um söluskattinn, að hann er nú einn af þeim sköttum, sem mér er nú verst við af þeim tollum og sköttum, sem nú eru á lagðir. Að sjálfsögðu mætti nokkuð lagfæra það með því að bæta úr verstu smíðagöllunum á honum, þannig að hann sé ekki marglagður á. En ef hann er tekinn á annað borð, þá sýnist mér, að það lægi ekki fjarri að nota hann einmitt í þessu augnamiði. Þetta er aðeins ábending, sem ég legg hérna fram, án þess að mér detti í hug, að á þessu þingi verði nokkru slíku ráðið til lykta. Ég geri mér sem sagt enn vonir um, að við afgreiðslu málsins hér í d. komist menn á þá skoðun, að sú hækkun, sem gert er ráð fyrir að muni leiða af mínum brtt. og nemur fyrir ríkissjóðinn ekki nema eitthvað nálægt 11/2 millj. kr., sé ekki svo mikil, að erfiðleikum valdi, og sú hækkun á iðgjöldum, sem gert er ráð fyrir að komi á iðgjaldagreiðendur, 15–20 kr. í grunn á hvern, sé ekki svo mikil, að ekki sé beinn vinningur að því að fá fyrir það þau auknu fríðindi og þær auknu bætur, sem þetta mundi gera tryggingunum fært að greiða af hendi.