18.12.1952
Neðri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

189. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði nú búizt við því, að það mundu fylgja nokkur orð úr garði, annaðhvort frá hæstv. fjmrh. eða frá fjhn., um þetta frv., sem við í fjhn. höfum flutt hér eftir beiðni ríkisstj., en höfum hins vegar óbundnar hendur um afstöðu til þess.

Eins og hv. þm. sjá, þá fer þetta frv. fram á, að ríkisstj. sé heimilað að greiða úr ríkissjóði til bráðabirgða í samræmi við ákvæði fjárlaga fyrir þetta ár gjöld, sem þyrfti að greiða á fyrsta mánuði næsta árs. Ég hafði nú haldið, að hæstv. fjmrh. eftir hans mjög svo miklu yfirlýsingar og hans mikla lof um hans eigin fjármálastjórn mundi reyna að sjá til þess, að fjárlög yrðu afgreidd á þessu þingi, og mér finnst satt að segja lítið leggjast fyrir kappann, að hann skuli nú fara fram á það, sem hæstv. ráðh. hefur fordæmt mest hjá öðrum ríkisstjórnum, að biðja nú þingið um að veita sér bráðabirgðafjárgreiðsluheimildir í janúarmánuði næsta árs, en treysta sér ekki til þess að ljúka fjárlögunum áður en þetta þing tekur jólaleyfi. Ég þykist vita, af hvaða ástæðum hæstv. ríkisstj. muni ekki treysta sér til þess að ljúka fjárlögum. En sannleikurinn er, að þær ástæður, sem ég veit að hún muni færa fram, er ekki hægt að taka gildar. Ég þykist vita, að hún muni bera því við, að vegna þess verkfalls, sem nú sé búið að standa í 18 daga í landinu, sjái hún ekki, hvernig hún eigi að afgr. fjárlög, meðan ekki sé vitað, hvernig það leysist. Hæstv. ríkisstj. var það kunnugt mánuði áður en verkfallið skall á, að það verkfall var í undirbúningi. Og henni hlaut að vera það því kunnugra sem að nokkru leyti hennar eigin stuðningsflokkar á meðal verkalýðsfélaganna standa að ákvörðuninni um verkfallið. Hún vissi þess vegna, að það var algert samkomulag milli verkamanna af öllum flokkum í landinu um þetta verkfall 1. desember. Og hæstv. ríkisstj. vissi, að það var á hennar valdi fyrst og fremst og á hennar ábyrgð að sjá um að gera atvinnulífinu í landinu mögulegt að leysa þetta verkfall, vegna þess að hæstv. ríkisstj. hefur ýmist tekið sér eða notað áfram gamlar heimildir til þess að hafa allt vald í sínum höndum yfir öllu atvinnulífi okkar lands. Og hæstv. ríkisstj. hefur ekki fengizt til þess að slaka nokkurn skapaðan hlut á þeirri kló. Hún hefur látið sína flokka hér í þinginu leggjast á móti hvaða till. sem fram hefur komið um að gefa atvinnulífinu eitthvert frjálsræði, til þess að það gæti sjálft svo að segja fengið að standa undir sér og gæti sjálft samið við verkamenn um þá kauphækkun, sem meira að segja atvinnurekendur viðurkenna að þeir þurfi að fá.

Hæstv. ríkisstj. hefur ekki látið svo lítið allan þennan tíma, í þessa 18 daga, að ræða þetta verkfall við Alþingi. Aðeins í þeim umr., sem fram fara svo að segja utan við þær daglegu afgreiðslur, sem sé eldhúsdagsumræðunum, hefur verkfallið raunverulega verið rætt. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki látið svo lítið sem að gefa neinar skýrslur um neinar hugmyndir, sem hún hefði í þessu efni, né að ræða við Alþingi, því síður að leita nokkurra tillagna. Það er sami einræðishátturinn í meðferð hæstv. ríkisstj. á þessu máli eins og er í allri afstöðu hennar gagnvart Alþ. Þetta er raunverulega því harðvítugra sem með núgildandi lögum hæstv. ríkisstj. og hennar fjárhagsráði er lagt á herðar alveg skýrt og skorinort að sjá um, að verkamenn á Íslandi hafi réttlátar tekjur og hafi næga og örugga atvinnu. Hæstv. ríkisstj. er beinlínis að brjóta bein lagafyrirmæli, þegar hún skeytir ekki meira um ástandið hjá þjóðinni heldur en hún hefur gert núna. Ef hæstv. ríkisstj. skyldi vera búin að gleyma því, þá skal ég lesa upp fyrirmælin um, við hvað fjárhagsráð hennar skuli miða sín störf, þegar það stjórnar raunverulega öllu okkar atvinnulífi. Þar er tekið fram í fyrsta lagi, að öll framleiðslugeta sé hagnýtt til fulls og öllum verkfærum mönnum tryggð næg og örugg atvinna. Í öðru lagi, að öllum vinnandi mönnum og þó sérstaklega þeim, er stunda framleiðsluvinnu til sjávar og sveita, séu tryggðar réttlátar tekjur fyrir vinnu sína, en komið í veg fyrir óeðlileg sérréttindi og spákaupmennsku. „Séu tryggðar réttlátar tekjur“, er sagt í lögum, sem hæstv. ríkisstj. er bundin af, lögum frá 1947. Og það er engum efa bundið, að það, sem þá vakir fyrir löggjafanum, er, að tekjur verkalýðsins þá séu ef til vill ekki að öllu leyti réttlátar, að þær mættu gjarnan ef til vill vera nokkru hærri og ríkisstj. eigi að stuðla að því með því að auka afkastagetu landsmanna og með öðrum þeim ráðstöfunum, sem henni er falið að gera. Engum þeim þm., sem samþykkti þessi lög 1947, hefði dottið í hug að skilja þau á þann hátt, að það ætti að fara kerfisbundið að rýra lífskjör vinnandi manna frá því, sem þá var. Og þó er svo komið nú, og því er ekki neitað af hæstv. ríkisstj., að þær tekjur, sem verkamenn hafa nú, eru hvað raunverulegan kaupmátt snertir, ef tillit er tekið bæði til rýrnunar á kaupgildi tímakaupsins og til atvinnuleysisins, varla meira en helmingur eða lítið meira en helmingur á við það, sem var 1947. Svona hefur hæstv. ríkisstj. staðið sig í því að tryggja réttlátar tekjur. Hafi eitthvað skort á, að það væri fullt réttlæti þá, þá er búið að skapa stórkostlegt ranglæti núna, og hæstv. ríkisstj. er beinlínis að brjóta lög með sínu algera sinnuleysi og skeytingarleysi um öll okkar atvinnumál, en halda jafnharðvítuglega eins og hún hefur gert á öllu því einokunarvaldi, sem hún hefur.

Hins vegar, þó að hæstv. fjmrh. hirði lítið um, hvernig lög séu framkvæmd og hvort lög séu látin vera í gildi, að svo miklu leyti sem kemur til afkomu og tekna verkamanna, þá skiptir dálítið öðru máli, þegar um er að ræða að rukka inn tekjur ríkissjóðs. Ég hef skýrt hérna frá því, þegar hér hefur verið fjallað um einn aðaltekjustofn ríkisins, söluskattinn, hve harðvituglega hafi verið gengið að, þannig að á ábyrgð hæstv. fjmrh. hefur verið lokað iðnaðarfyrirtækjum og söluskatturinn krafinn af þeim með slíkri harðýðgi, að þau hafa farið út í það að brjóta þau lög, sem fyrirskipa þeim að borga verkamönnum út vikulega, og ekki gert það. Og nú síðast býst ég við, að það hafi skeð, sem gjarnan má vafalaust vitnast hér, að lokað hafi verið hjá Ríkisskip vegna söluskattsinnheimtu, eða a.m.k. hótað með klukkutíma fyrirvara að gera það. Máske gæti hæstv. fjmrh. gefið upplýsingar um það, hvort lögreglan hafi ekki verið í þann veginn að loka hjá Ríkisskip eða jafnvel lokað þar út af vangreiðslu á söluskatti og hvort Ríkisskip til þess að greiða söluskattinn til hæstv. fjmrh. hafi gripið til þess að svíkjast um að borga út laun, hafi ekki borgað út full laun eins og því ber. M.ö.o., söluskatturinn til ríkisins, skattur heimtur af vörum, sem ekki eru seldar, sem atvinnurekendur t.d. verða að greiða fyrir fram, er innheimtur með þannig harðýðgi, að fjölmargir atvinnurekendur hér í Reykjavík, t.d. iðnrekendur, hafa greitt söluskattinn til þess að forðast lokun fyrirtækjanna hjá sér, en látið það ganga út yfir verkafólkið, þannig að þeir hafa ekki greitt verkafólkinu kaupið vikulega, heldur verið með smápíring í það hægt og hægt. Og núna, þegar fjöldi manna er búinn að standa 18 daga í verkfalli hérna í Reykjavík, eiga þeir kaup inni hjá atvinnurekendum fyrir nóvembermánuð enn þá, einmitt fyrst og fremst vegna þess, hvernig hæstv. fjmrh. lætur fógetavaldið riða húsum í atvinnulífi þjóðarinnar. Og nú er þetta komið svo, að meira að segja fyrirtæki ríkisins sjálfs, þ.e. Ríkisskip, er lokað eða hótað að loka því, nema því aðeins að gripið sé til þess að taka kaup, sem á að borga verkamönnum út og starfsmönnum, og fresta útborgun launa og brjóta þar með lög. Það er rétt að vekja athygli á því, hvernig ástatt er í þessum efnum.

Ef hæstv. ríkisstj. hins vegar gefst upp við að afgreiða fjárlög, þá er náttúrlega ákaflega erfitt að neita henni um fjárgreiðslur í janúarmánuði næsta árs. Það sér náttúrlega hver maður. Það er ákaflega erfiður hlutur. — Þær ríkisstjórnir, sem áður sátu hér að völdum, voru nú ekki með nein mjög harðvítug loforð um að afgr. endilega fjárlög fyrir nýár. Það er fyrst núverandi hæstv. ríkisstj., sem hefur byrjað hvert þing með því að hæla sér af því, að það sé nú einhver munur á henni eða þessum dæmalausu amlóðum, sem hafi alltaf verið hérna á undan. T.d. Framsfl. hefur nú verið óspar á að segja: Ja, þegar Sjálfstfl. fór með fjármálastjórn, það var nú hrottalegt ástand. Það er nú eitthvað annað, þegar Framsfl. er tekinn við fjármálastjórn. — Þess vegna skil ég nú náttúrlega að sumu leyti feimnina hjá hæstv. fjmrh. og hans fulltrúa í fjhn., að þeir kjósi ekki að segja neitt sérstaklega mikið með þessu litla frv. En mér hefði fundizt, að það minnsta, sem hæstv. ríkisstj. hefði getað gert, hefði verið að ræða hér, þótt stutt væri, við Alþ. um það ástand, sem væri í landinu, um þau vandkvæði, sem hún sæi að skapazt hefðu út frá því ástandi, um hennar till. til lausnar á þessu ástandi, — það minnsta, sem hæstv. ríkisstj. hefði getað gert, áður en hún fór fram á þá heimild, sem nú er ætlazt til að við gefum henni. Þetta vildi ég láta koma fram út af þessu frv.