11.12.1952
Efri deild: 38. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

118. mál, hundahald

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Landbn. hv. Nd. flutti þetta frv. að beiðni félmrn. Hundahald og sullaveiki voru fyrr á tímum mjög alvarlegt vandamál á Íslandi, heilbrigðislegs efnis. Nú er öld snúin hvað þetta snertir sem betur fer. Er þó sjálfsagt enn þörf að hafa þau mál í lagi. Núgildandi löggjöf um þetta er að nokkru frá 1890 og að nokkru frá 1924 og er þess vegna orðin úrelt fyrir löngu og nauðsynlegt að gera á henni ýmsar breytingar.

Landbn. þessarar hv. d. hefur athugað frv. eins og það liggur fyrir hér, komið frá Nd., og leggur til, að gerðar verði á því ýmsar breyt.

Helztu efnisbreyt. eru í rauninni aðeins tvær: Fyrst, að í stað þess, sem gert er ráð fyrir í frv. eins og það er nú, að setja reglugerð í hverri sýslu og kaupstað um þessi mál, þá er lagt til, að sett verði ein heildarreglugerð fyrir landið allt. Annað atriðið er það að hækka nokkuð skattinn af seppunum, sérstaklega af svo kölluðum óþarfahundum.

Það má segja, að efni þessa frv. sé í rauninni tvíþætt. Fyrstu 3 gr. eru um hundahaldið. Þar er hreppsn. og bæjarstjórnum heimilað að banna eða takmarka hundahaldið á sínu svæði, þar er ákvæði um framtöl í þessu sambandi og loks um skatt. Síðari hlutinn er svo um heilbrigðisráðstafanir þær, sem nauðsynlegt er talið að gera enn í dag til varnar sullaveikinni, þ.e. um meðferð sulla úr sláturfé, um það, hverjir skuli framkvæma hreinsun hunda vegna bandorma, og svo ákvæði um heildarreglugerð, eins og ég hef áður minnzt á.

Ég vil aðeins geta þess, að það hefur fallið niður í 2. brtt., þar sem segir: „og afhenda hana sýslumanni eða bæjarfógeta í aprílmánuði ár hvert.“ Hérna vantar innskot. Það er enginn bæjarfógeti í Reykjavík, og þarf því að skjóta inn orðunum: „í Reykjavík tollstjóra“. Þetta verður væntanlega leiðrétt sem prentvilla, en ef það þykir ekki fært, þá verður lögð fram um þetta brtt. við 3. umr. málsins.

Ég sé svo ekki ástæðu til að taka fleira fram. Landbn. leggur fram sínar till. á þskj. 424 og leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem þar greinir.