15.01.1953
Efri deild: 49. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

118. mál, hundahald

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er aðeins til að rekja þetta ágreiningsatriði, sem er á milli deildanna, svo að mönnum sé það ljóst, sem ég kvaddi mér hljóðs. Eins og frv. kom frá heilbr.- og félmrn., þá var ætlazt til þess, að gjaldið af hundunum væri misjafnt. Af þörfu hundunum átti að ákveða þetta með reglugerð heima í sýslum og vera 25–100 kr. og af óþarfahundunum 100–200 kr. Nd. breytti þessu og frv. í heild mikið og færði þá gjaldið í 15 kr. af þörfu hundunum og 100 kr. af þeim óþörfu. Í þessari d. tók svo frv. mjög miklum breytingum, sem Nd. hefur sætt sig við nema hæð hundaskattsins. Í staðinn fyrir, að í Nd. var ætlazt til, að það væri sérstök reglugerð fyrir hverja einstaka sýslu og allar saman samþykktar þar heima fyrir, þá er nú ætlazt til, þar sem hér or um eina allsherjar ráðstöfun að ræða, er gildir um allt landið, hundahreinsunina, og heyrir undir heilbrigðisyfirvöld landsins, að ein reglugerð komi fyrir landið í heild og að yfirdýralæknirinn og landlæknir hafi yfirumsjón með þessu. Þetta hefur nú Nd. fallizt á, og það eina, sem hún hefur ekki fallizt á, er gjaldið af hundunum, sem hún nú aftur færir niður í 15 kr. af þarfahundunum, en lætur vera 150 kr. af þeim óþörfu. Þetta er breytingin, sem hefur orðið á frv. síðan það fór frá nefndinni.

Þegar við vorum með 20 krónurnar og 200 krónurnar, þá höfðum við það í huga, að þetta gjald gæti staðið undir kostnaði við hundahreinsunina, hvar sem væri í landinu. En fjöldi hundanna er ákaflega mismikill í sýslunum. Í þeim sýslum, þar sem þeir eru tiltölulega fæstir, standa þessar 15 kr. ekki undir því. Þar verður þess vegna sýslusjóður að borga til viðbótar, ef við samþykkjum frv. eins og það er núna. En ef við förum að láta málið fara í Sþ., sem það mundi gera, ef við færum að breyta þessu aftur, þá hygg ég, að það sé sameiginlegt álit n. allrar, — það hefur nú ekki verið rætt í henni samt, — en ég hygg, að það sé sameiginlegt álit nefndarinnar allrar að sætta sig við þessa samþykkt Nd. (ÞÞ: Nei.) Nú, er það ekki? Og láta það ekki fara í Sþ. Það er a.m.k. álit mitt. (Gripið fram í.) Já, það er síðasta umr. þetta, og frv. fer svo í Sþ., ef við ekki samþykkjum það. Ég legg þess vegna til, að það sé samþykkt, þó að einstakar sýslur verði þá að leggja úr sýslusjóðnum til viðbótar. Ég veit, að það getur orðið upp undir 200 kr. mest úr sýslusjóði, og þó að mér þyki það verra, þá legg ég til, að frv. verði samþ. eins og það nú er.