07.11.1952
Neðri deild: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

127. mál, menntaskóli

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það væri nú synd að segja, að ást hv. þm. Ísaf. til Menntaskólans á Akureyri lýsti sér ekki hér í miklum ákafa, því að ég satt að segja skildi ekki til hlítar, hvað það var í þessu máli, sem olli því, að þessi hv. þm. þurfti að byrsta sig og æsa svo mjög eins og raun bar hér vitni um. Hann sagði hér margt í sinni ræðu, sem ástæða væri til að gera að umtalsefni og ræða ýtarlega. Ég mun ekki hirða um að minnast þar á nema nokkur atriði, sem máli skipta.

Ég vil þá fyrst víkja að því, að hv. þm. Ísaf. sagði, að þetta frv., sem hér er fram borið, væri ranglega uppbyggt að því leyti, að það væri breyt. á öðrum l. en það ætti að vera. Þetta er ekki rétt. Það er eðlilegt, að þetta frv. sé breyting við l. um menntaskólanám, af þeirri ástæðu, að hér er ekki um það að ræða í þessu frv., svo sem hv. þingmenn sjá, að verið sé að setja neinar reglur um miðskólanám, — það er gert í l. um gagnfræðanám. Hér er aðeins um það að ræða að heimila öðrum skólum að halda uppi kennslu samkv. l. um miðskólanám, þannig að það er í alla staði eðlilegt og rökrétt uppbygging þessa frv., að það sé breyt. á l. um menntaskólana. Hann hélt því fram einnig, að ég hefði sagt, að hér væri ekki um að ræða neina breytingu á fræðslukerfinu. Ég hélt því fram, að hér væri ekki um að ræða breytingu á fræðslukerfinu að því leyti til, að það væri ekki breytt formi miðskólanámsins. Það er gert ráð fyrir, að það sé jafnlangt eins og er í gagnfræðaskólunum eða miðskólunum og kennslutilhögun sé nákvæmlega á sama hátt. Munurinn er aðeins sá, að þarna er um að ræða að veita heimild til þess, að hvort tveggja þetta nám sé í sama skóla, en það séu ekki tveir aðskildir skólar. Það tel ég ekki breytingu á náminu sjálfu að uppbyggingu til á nokkurn hátt. Náminu er hagað á nákvæmlega sama hátt, í báðum tilfellum.

Hv. þm. hneykslaðist mjög yfir því, að það hefðu verið allsterk samtök hér á hinu háa Alþ. um að veita Menntaskólanum á Akureyri þau réttindi að halda áfram starfsemi miðskóladeildar. En ég held, að það sé ekki til vansa, heldur fremur til sóma hv. þm., sem að því máli hafa staðið að koma í veg fyrir, að þessi ágæta menntastofnun, menntaskóli Norðurlands, væri á margan hátt eyðilögð, vil ég segja, með þeim til ætlunum, sem uppi voru í sambandi við fræðslulögin.

Hv. þm. sagði, að það væri skoðun ýmissa ágætra manna, menntamanna, sem hann nefndi skólamenn, að það væri ekki heppileg tilhögun, sem hér væri farið fram á. Hann vildi jafnframt halda því fram sem unnandi Menntaskólans á Akureyri, að það væri ekki heppileg tilhögun þar. Ég vil nú leyfa mér að halda því fram, og má hver lá mér það sem vill, að það sé ekki síður að marka, heldur miklu fremur, orð og ummæli þeirra manna, sem hafa staðið að því fremstir manna að byggja upp þessa skóla. Þessir menn eru ekki síður skólamenn en aðrir, og þeim er nákunnugast um það, hvert er heppilegt kerfi í þeirra skóla. Þeir hafa reynsluna, og það er sameiginleg skoðun forustumanna og kennará beggja menntaskólanna, að óæskileg sé sú leið, sem gert er ráð fyrir í fræðslulögunum, að útiloka það, að þessir skólar geti haft miðskólakennslu innan sinna veggja. Það má stæla um það endalaust, hvor skoðunin sé réttari, hvorir séu meiri skólamenn, hv. þm. Ísaf. og aðrir ágætir menn eða forustumenn menntaskólanna. Það verður auðvitað aldrei endanlega kveðinn upp úrskurður um það; það verður alltaf matsatriði. En ég held, að það sé ekki óeðlilegt og það sé ekki órökrétt að halda því fram, að það sé a.m.k. ekki síður ástæða til að álíta, að forustumenn þessara skóla viti sínu viti og viti, hvað þeir eru að gera með þeim till., sem þeir hafa lagt áherzlu á að fá samþ. hér hvað eftir annað á hinu háa Alþ., um að komið væri í veg fyrir, að miðskóladeildirnar yrðu lagðar niður algerlega við menntaskólana.

Hv. þm. sagði, að hér væri verið að vekja upp draug. Því hefði verið lofað og yfir lýst á síðasta þingi, að þetta mál yrði ekki tekið upp aftur. Því hefur nú auðvitað aldrei verið yfir lýst þá. Því hefur verið yfir lýst ef til vill áður um það, að það væri tímabundin heimild, sem væri fengin til handa Menntaskólanum á Akureyri, að starfrækja tveggja ára miðskóladeild. Ég benti á það hér í minni frumræðu, að eins og þetta mál er nú byggt upp, þá er ekki gert ráð fyrir, að Menntaskólinn á Akureyri hafi neina undanþáguheimild frá því að starfrækja miðskóla í samræmi við gildandi lög. Og það var sú undanþága, sem mest hefur verið á deilt, að það væri veitt þarna sérstök undanþága einum skóla til þess að starfrækja miðskólakennslu á annan veg, en gert væri ráð fyrir í fræðslulögunum.

Varðandi það atriði, að það sé óheppilegt að hafa saman unga nemendur og hina eldri og þeir eigi ekki samleið í félagslífi, — ég verð nú algerlega að mótmæla þeirri skoðun hv. þm. Ég hef stundað nám við menntaskólann á Akureyri og setið þar bæði í gagnfræðadeild og menntadeild, og ég held, að það sé almennt skoðun nemenda frá menntaskólunum báðum, bæði fyrr og síðar, sem farið hafa í gegnum stúdentspróf þar og setið í báðum deildum þeirra, að það hafi aldrei á nokkurn hátt háð þeim, heldur miklu fremur verið þeim til stuðnings, að þeir hafa komið ungir í þessa skóla og haldið þar áfram um lengri árabil, — það hafi aldrei háð þeim á nokkurn hátt, að það hafi verið það mikill aldursmunur milli hinna elztu og yngstu í skólanum, að þeir hafi ekki getað átt samleið í félagsmálum. Það hef ég aldrei orðið var við, þannig að það eru ákaflega veigalítil rök í þessu máli. Hin rökin eru veigameiri hjá hv. þm. Ísaf., ef það væri rétt, að með því að veita þessa heimild, sem hér er farið fram á, væri verið að skapa eitthvert óréttlæti eða ójafnrétti varðandi möguleika nemenda úr gagnfræðaskólum til þess að nema við menntaskólana. Það væru veigamikil rök, ef rétt væri. En nú ber þess fyrst að gæta, að þó að sumir kynnu að halda því fram, að það væru sköpuð betri skilyrði fyrir þá, sem innan skólans eru, og þeim muni vera frekar greiddur aðgangur til framhaldsnáms í menntaskólunum, þar sem þeir eru kunnugir kennurum og líkur til, að þeir, eins og stundum hefur verið haldið fram og var haldið fram hér við menntaskólann í Reykjavík,slyppu betur varðandi próf og utanskólamenn yrðu erfiðar úti, þá vitum við allir, að á þessu er orðin sú mikla breyting, að menntaskólarnir engu fremur en gagnfræðaskólarnir hafa aðstöðu til þess að ráða um þessi próf. Þeir fá send verkefni, og það eru allt aðrir aðilar, sem ráða einkunnunum, þannig að þeir hafa engin tök á að hafa áhrif á það, hvorki til né frá, hvort þeirra nemendur innan skóla eða utanskólamenn verða þar verr úti. Auk þess er þess að gæta, að samkv. l. er gert ráð fyrir því, að þeir, sem ljúka miðskólaprófi, eigi rétt til þess að setjast í menntaskólana án prófs þaðan. Og það er augljóst mál, að ef svo yrði málum háttað, að fleiri nemendur sæktu um framhaldsskólanám í menntaskólunum heldur en hægt væri að veita þar viðtöku, þá auðvitað gefur að skilja, að fræðslumálastjórnin mundi alls ekki veita undanþágu eins og þá, sem hér greinir. Ef t.d. sækja fleiri nemendur um menntadeild Menntaskólans á Akureyri heldur en hægt er í hana að taka, meðan miðskóladeildin er starfandi, þá mundi það að sjálfsögðu valda því annaðhvort, að miðskóladeildin yrði afnumin, eða þá a.m.k., að aðsókn að henni yrði stórlega takmörkuð. Eins og frá þessu frv. er gengið, þá er einnig auðvitað opinn hvaða möguleiki sem er fyrir fræðslumálastjórn til þess að setja takmarkanir á starfsemi miðskóladeildarinnar til tryggingar því, að það komi ekki á nokkurn hátt niður á þeim, sem framhaldsnámið stunda. Af þeim sökum vil ég leggja á það megináherzlu, að þetta frv. gerir á engan hátt erfiðara um vik neinum þeim nemendum, sem óska að stunda framhaldsnám í framhaldsdeildum menntaskólanna. Mér er ekki kunnugt um, að Menntaskólinn á Akureyri, sem þetta mál hefur aðallega snúizt um, hafi synjað nemendum inngöngu í menntadeild, og það mun að sjálfsögðu ekki verða heldur þolað af fræðslumálastjórn á hverjum tíma, að það verði starfrækt þar miðskóladeild, sem verði þess valdandi, að skólinn geti ekki veitt nemendum viðtöku í menntadeild, þannig að hvernig sem á þetta mál er litið, þá er ekki með nokkrum rökum hægt að halda því fram, að hér sé verið að mismuna nemendum og skapa misjafna aðstöðu fyrir æsku menn úr miðskóladeildum til þess að njóta fram haldsnáms. Það eru engin rök fyrir því fram bærileg.

Hv. þm. sagði í sinni ræðu, að þetta mál ætti erfitt með að deyja hér í þinginu, og ég vona sannarlega, að það eigi erfitt með að gera það, vegna þess að ég álít, að það væri þinginu til lítils sóma, ef það mundi verða þess valdandi, að ekki yrði hægt að halda áfram því skipulagi, sem tíðkazt hefur við þá skóla, sem einkum telja kost að því fyrir uppeldi skólanna, að það skipulag haldist. Það er bjargföst trú forustumanna Menntaskólans á Akureyri, sem aðallega hafa barizt fyrir þessu máli, og sú skoðun er styrkt af forustumönnum Menntaskólans í Reykjavík, að þetta skipulag sé hentugt og heppilegt, og ég sé ekki, að það sé nokkur ástæða til að útiloka, að heimild sé til þess fyrir fræðslumálastjórnina og menntmrh. Allra sízt ef það er rétt, sem hv. þm. Ísaf. sagði, að menntmrh. hver eftir öðrum hefðu verið andvígir þessari heimild, þá virðist mér, að það mundi ekki vera hætta á því að veita þessum mönnum möguleikana til að nota hana,því að hún mundi þá ekki verða misnotuð, ef það er rétt, að andstaða þeirra gegn málinu sé slík sem hann segir. Það er þá því frekar trygging fyrir því, að engin hætta sé á því, að þessi heimild, þó að samþykkt yrði, yrði misnotuð á nokkurn hátt, þannig að misrétti skapaðist meðal nemenda úr hinum ýmsu skólum. Ég vil því mjög mega vænta þess, að hv. þd. sjái sér fært að ljá þessu máli stuðning og afgr. það á þann eðlilega hátt, sem við teljum að felist í þessu frv.