07.11.1952
Neðri deild: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

127. mál, menntaskóli

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hv. frsm. hefur nú rætt aftur um þetta frv., en ekki gat ég heyrt, að hann hefði nein rök fram að færa gegn því, sem ég fyrst og fremst tel mæla gegn þessu frv. frá uppeldislegu sjónarmiði — frá sjónarmiði skólamannsins. Í fyrsta lagi tel ég, að það raski þeirri hugsun mþn. í skólamálum, sem flokkaði skólakerfið niður í 6 ára barnaskóla, 4 ára gagnfræðaskóla, þ.e.a.s. unglingaskóla, miðskóla og gagnfræðaskóla, og 4 ára menntaskóla, og með þessu móti skapaði aukið jafnrétti öllum unglingum til handa, hvar sem þeir eru búsettir á landinu. Ég tel, að það liggi í augum uppi, að þegar búið væri að fylla neðstu bekki Menntaskólans á Akureyri og Menntaskólans í Reykjavík með nemendum fyrst og fremst úr þessum kaupstöðum, þá yrðu smugurnar færri handa nemendum, sem hefðu þó miðskólapróf í höndunum frá hinum ýmsu miðskólum víðs vegar um landið. Þá væri aftur farið að ráða húsnæði eða ekki húsnæði um það, hvort ungt fólk víðs vegar um landið fengi að mennta sig eða ekki, og það er að þessu, sem þetta frv. vissulega stefnir. Því verður ekki neitað. Hv. frsm. var hins vegar svo sanngjarn, að hann viðurkenndi, að ef þetta sjónarmið mitt hefði við rök að styðjast, þá væri það mikilvægt, og það er óneitanlega mikilvægt. Það voru margir skólamenn búnir að reka sig á þennan annmarka við gömlu fræðslulöggjöfina, að gagnfræðadeildirnar við menntaskólana voru yfirfullar, þegar sótt var — eftir skólavist við þessa skóla, og nemendur þá — tugum og hundruðum saman — fengu ekki skólavist í menntaskólunum, meðan hið gamla skipulag ríkti. Þess vegna sá mþn. í skólamálum nauðsyn bera til að fella niður gagnfræðadeildina við menntaskólana, svo að allir hefðu aðgang að óskipuðum 1. bekk menntaskólanna beggja. Jafnframt var svo tekið upp landsprófskerfið, þar sem tekið er próf, sem gildir sem inntökupróf í 1. bekk menntaskóla við hvern héraðs- eða gagnfræðaskóla, og þar var gefinn lykillinn, lykilaðstaðan var ekki bara í Reykjavík og á Akureyri lengur, heldur um allt land, þar sem gagnfræðaskóli eða héraðsskóli var til, og þá lykilaðstöðu á ekki að taka af unga fólkinu, þótt það búi fjarlægt Akureyri og fjarlægt Reykjavík. Ég tel, að þeir menn, annaðhvort vitandi eða óafvitandi, vinni illt vek, sem reyna til þess að setja lykilinn eingöngu í hendur Akureyringa og Reykvíkinga.

Hinu reyndi hv. frsm. ekki heldur að mótmæla, að þegar skóli er orðinn það stór, að hann telur meira en 200–300 nemendur, þá missi hann á því sem uppeldisstofnun, en það er almennt viðurkennt af skólamönnum ; það þori ég að fullyrða. Skóli með 500–600 nemendum er of stór, þó að hin beztu skilyrði séu fyrir hendi, sem ekki er nú til að dreifa hérna í Menntaskólanum í Reykjavík, því að hann hefur hin hörmulegustu ytri skilyrði upp á að bjóða og er þar að auki orðinn allt of fjölmennur skóli til þess, að stjórn hans geti verið í fullu lagi, en samt er streitzt við að gera Akureyrarskólann líka að svo stórum skóla, eins og hann yrði sennilega, þegar hann væri með fullskipaða gagnfræðadeild, kannske margskipta. Í brbl. var í tvö fyrstu skiptin haft ákvæði um það, að ekki mættu vera nema einskiptar ársdeildir. Nú er það fallið í burt. Nú mega þær vera tví-, þrí- eða fjórskiptar, þannig að það gætu verið 10–20 gagnfræðabekkir þarna við þennan skóla í viðbót við lærdómsdeildina, sem líka getur verið með margskiptar ársdeildir. Það er sem sé verið að skapa að því rammann, að skólinn fyrir norðan geti orðið skólabákn, sem ekki hefði eins góð uppeldisskilyrði eins og skólinn hefði um langa framtið, ef hann væri eingöngu 4 ára menntaskóli.

Ég fór ekki nánar út í að skýra það fyrir mönnum, hvernig á því stendur, að 12–13 ára unglingar eiga ekki að öllu leyti í félagslífinu samleið með tvítuga fólkinu. En það er þó alkunn staðreynd, svo að maður nefni eitt dæmi, að það er margur unglingurinn 18–20 ára byrjaður bæði að reykja og drekka. Skyldi það vera verulega hollt fyrir 12–13 ára unglinginn að telja sig vera í sömu stofnun með sömu réttindi og mega þó ekki, umfram allt ekki þroska sins vegna a.m.k., fara út á þessa braut með eldri félaganum? Mörg fleiri dæmi er hægt að nefna, en þetta er nægilegt til þess, að það eitt ætti að mæla móti því að hafa unglinga saman í skóla frá 12 og 13 ára og upp að tvítugu, og eldri félaginn í skóla verður alveg óumdeilanlega fyrirmynd fyrir þeim yngri í neðstu bekkjunum.

Ein höfuðröksemdin fyrir því, að stjórnendur Menntaskólans á Akureyri fengu því framgengt, að árlega var tekið allmikið fé sem framlag til heimavistarhúss á Akureyri, var sú röksemd, sem var góð og gild, að aðalskólahúsið á Akureyri er timburhús - mikið timburhús — og heimavistirnar allar voru þar uppi á 2. og 3. hæð.

Af eldhættu var því talið alveg óverjandi að hafa heimavistirnar í hinu gamla skólahúsi, og Alþ. lagði fram árum saman háar upphæðir, til þess að hægt væri að byggja mikið og veglegt heimavistarhús við menntaskólann á Akureyri. Nú er það aftur á móti notað sem röksemd fyrir nauðsyninni að taka upp miðskóladeildir við menntaskólann, að heimavistarhúsið á Akureyri sé og verði svo stórt og rúmmikið, þegar því sé lokið, að það komi til með að standa autt, ef ekki sé prjónað neðan við skólann með miðskóladeildum. M.ö.o., það er verið að segja hv. Alþ. það nú, að það hafi verið beðið um hluti, sem ekki hafi verið við hæfi Menntaskólans á Akureyri og ekki að þörfum. Ég tel, að þetta séu í raun og veru villurök til þess að knýja þetta fremur ómerkilega mál fram. Það er alveg áreiðanlegt, að Menntaskólinn á Akureyri er í vexti sem menntaskóli, og forráðamenn hans áttu að leggja kapp á að efla hann og stækka sem menntaskóla. Þá er sennilegt, að ekki hefði verið talin þörf fyrir að stofna þriðja menntaskólann í landinu, ef þeir hefðu beint áhuga sínum að þessu, en ekki sífellt einblint á það, að þeir vildu prjóna við skólann að neðan, en á það hafa þeir, sem stjórna skólanum, lagt höfuðkapp nú í mörg ár. Svo hefur af þessu sprottið upp menntaskóli á Laugarvatni, sem vafasamt er að hefði haft nokkru hlutverki að gegna, ef Menntaskólinn á Akureyri hefði verið efldur sem menntaskóli. En er þá eitthvert laust heimavistarpláss í heimavistarhúsinu nýja fyrir norðan? Nei, ekki eitt einasta. Skólameistarinn var hér á dögunum til þess að ýta þessu máli enn þá úr vör, því að þessum 7 flm. er ekki trúað fyrir að gera það einum núna, þó að það sé verið að fara af stað með málið í þriðja sinn. Skólameistari Menntaskólans á Akureyri er alltaf að koma hér til þess að ýta málinu úr vör. Það er meira að segja svo þungt undir fæti, að hann verður að dveljast hér um lengri tíma til þess, og hann verður meira að segja að ganga milli andstæðinga málsins og biðja þá að beita sér nú ekki móti málinu. Alltaf hittir hann mig að máli til þess að biðja mig að beita mér ekki á móti málinu. En hann sagði mér einmitt núna, þegar hann var að tala við mig seinast: „Það stóðst alveg á í haust, að við þurftum engum að neita um heimavist, en það er líka hvert heimavistarpláss skipað.“ „Er þá búið að leggja niður heimavistirnar í timburhúsinu, skólahúsinu gamla?“ sagði ég. Nei, það er enn þá fólk í heimavistunum, búandi þar víð alla eldhættuna, sem ekki var talið forsvaranlegt að láta hið unga heimavistarfólk búa við, þegar fyrir mörgum árum var beðið um fjárveitingar til heimavistarhússins. Það er sem sé full þörf á að geta lokið heimavistarhúsinu fyrir norðan, til þess að hægt sé að ná því marki, sem stefnt var að með byggingu hússins, að hætta að hafa heimavistir í timburhúsinu. Og það er markið; sem við ætluðum að stefna að fyrst og fremst.

Ég býst við, að það gefist tækifæri til þess að ræða þetta mál nánar á þessu þingi. Það kemur sjálfsagt frá n., — þótt að mínu álíti ætti það að deyja hægum og rólegum dauða, sofna í n., og þá koma vafalaust í ljós undirtektir menntmrh. einn sinni enn, fræðslumálastjóra og mþn. í skólamálum. Og vafalaust verður séð svo um, að n. taki ekkert tillit til samróma álits allra þessara aðila, sem ættu þó að vera réttdæmir um skólamál og óhlutdrægir aðilar, og málið knúið út úr n. og reynt að koma því í gegnum hv. d. enn þá einu sinni.

Ég gat þess ekki áðan, að málið hefur líka frá öndverðu fengið þung ámæll frá skólastjóra Gagnfræðaskólans á Akureyri, Þorsteini M. Jónssyni. Hann sýndi fram á það strax, að sínum skóla væri mikill miski gerður með framgangi þessa frv. Það mundi verða lagt höfuðkapp á það af íbúum Akureyrarkaupstaðar að koma sínum nemendum strax inn í gagnfræðadeild við menntaskólann til þess að tryggja þeim þar örugglega leið upp í gegnum þann skóla, en láta þá ekki fara í gagnfræðaskólann á Akureyri og eiga svo á hættu, að þeir kæmust ekki vegna nemendanna í gagnfræðadeildinni við sjálfan menntaskólann inn í lærdómsbekkina, því að þá er búið að fylla skólann upp úr. Og þessi hefur orðið reynslan. Nemendurnir hafa lagt meira kapp á að komast inn í 1. bekk gagnfræðadeildar við menntaskólann heldur en í hinn gagnfræðaskólann á Akureyri, og þó er viðurkennt, að Gagnfræðaskólinn á Akureyri er líka hin ágætasta stofnun. Sá skóli stendur því uppi með hið minna námshæfa fólk yfirgnæfandi, og þeirri stofnun er þannig spillt fyrir það, að hún nýtur ekki þeirra eðlilegu skilyrða, sem henni var ætlað að búa við samkv. skólalöggjöfinni. Unga fólkið þarna á ekki alveg frjálst val um þetta. Það er talinn kostur að láta þá fara strax inn í skólann, sem tryggir þeim beina braut upp úr. Þó að þessir skólar standi hlið við hlið í sama kaupstað, þá sér fólk, að ekki er fullt jafnrétti milli þeirra, sem fara inn í 1. bekk Gagnfræðaskólans á Akureyri og í gagnfræðadeild menntaskólans. Það er fyllri réttur þeirra, betur fyrir honum séð, ef þeir fara beint inn í 1. bekk gagnfræðadeildarinnar við menntaskólann. Þar með er augljóst mál, að það er gengið á rétt allra þeirra nemenda, sem byrja nám sitt og verða að stunda það í öðrum gagufræðaskólum landsins. Mótmæli Þorsteins M. Jónssonar gegn frv. hafa ekki heldur haft neina þýðingu, og verð ég þó að segja, að fáir hafa rökstutt andstöðuna við frv. betur en hann í fylgiskjölum, sem fylgdu því, að ég hygg, þegar það var flutt hérna fyrst.

Þá skal ég aðeins víkja að því, sem ég hélt fram í fyrri ræðu minni. Það var um það, að miklu eðlilegra væri, að þetta frv. væri breyt. á l. um gagnfræðaskóla, því að á því skólastigi eru miðskólarnir og þetta er að öllu leyti viðvíkjandi framkvæmd á kennslu á miðskólastiginu. En þetta er aftur flutt, eins og ég áðan sagði, sem breyt. l. um menntaskóla. 3. gr. l. um menntaskóla er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Í skólanum eru 4 ársbekkir. Greinast 3 efstu bekkirnir í 2 deildir, máladeild og stærðfræðideild.“ — Þessi grein er sem sé um lærdómsdeildirnar gömlu og skiptingu þeirra í máladeild og stærðfræðideild. Í þessu frv. segir svo, að aftan við 3. gr. l. um menntaskóla komi ný mgr., svo hljóðandi: „Fræðslumálastjórn er heimilt, ef ástæða þykir til, að halda uppi miðskólakennslu við menntaskólana.“ Á þetta þarna við? Ég held ekki. Ég held, að það hefði nú farið betur á því að hafa þetta sem sérstaka grein heldur en neðanprjóning við grein um, hvernig fjögurra ára menntaskóli greinist í máladeild og stærðfræðideild. Ég get ekki látið vera að vekja athygli á því. Þetta er algerlega út í hött og algerlega við skökk lög. Vitanlega er þetta meginbreyting á framkvæmdinni á l. um gagnfræðaskóla, þann kafla, sem þar fjallar um miðskóla.

Ég skal láta útrætt um þetta mál að sinni. Ég er alveg sannfærður um það, að þetta er til engra bóta fyrir Menntaskólann á Akureyri og til stórtjóns fyrir námsaðstöðu fólks viða um land, ungs fólks, sem ekkert hefur af sér gert þannig, að 6 eða 7 þm. þurfi að bindast samtökum um það á hverju þingi að skerða rétt þess. En það er gert með þessu frv. Ég mæli þess vegna á móti þessu frv. og læt að lokum í ljós þá ósk, að hv. flm. gætu séð sér fært að taka frv. aftur eða a.m.k. að sækja í sig veðrið, að það sofnaði í nefnd. Umr. (atkvgr.) frestað.