19.01.1953
Efri deild: 51. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

205. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er ekki langt eða margbrotið. Það er aðeins breyting á þeim lögum, sem nú gilda um eyðingu svartbaks. Þau lög, sem nú eru í gildi, eru frá 1941, og er sú upphæð, sem þar er veitt fyrir unninn svartbak, ákveðin í þeim lögum ein króna. Nú er það upplýst, að eitt skot kostar nú nær tvær krónur, og á því sést, að það verður heldur lítið arðsöm atvinna að veiða svartbak með skotum, þegar verðlaunin, sem skotmennirnir fá, eru tæplega hálft það verð, er þeir verða að gefa fyrir skotið sjálft. Þess vegna hefur það verið athugað hjá landbn. í samráði víð hæstv. landbrh. að hækka nú þessi verðlaun í samræmi við það, sem er um annað hliðstætt þessu, eins og til að mynda laun fyrir refadráp og minka, sem hafa verið margfölduð miklu meira en þetta. En hér er farið svo lágt í sakir sem auðið er.

Það er athugavert við þetta frv., að það er þó nokkur hækkun, eins og flest eða öll þess konar frv. eru, fyrir ríkissjóð, og mun sú hækkun nema, ef svipað er drepið af svartbak eins og áður, 4–5 þús. kr. á ári fyrir ríkissjóð. Það sýnist ekki geysimikil hækkun, þegar hér er líka í húfi, — ég vil ekki segja sú arðsamasta, en a.m.k. sú skemmtilegasta og að mörgu leyti mjög arðvænleg atvinnugrein fyrir þjóðina, sem er skylda hennar og nauðsyn að efla sem mest hún getur, því að þessari atvinnugrein er þannig varið, að í staðinn fyrir að margar af okkar atvinnugreinum, aðrar en iðnaður, ganga mest upp í því að drepa dýr og fiska, er hér aðeins um það að ræða að hlúa sem mest og hlýja að hinum arðsömu og skemmtilegu fuglum, æðarfuglinum, en aftur á móti er hér nauðsyn til að vernda þá fyrir ágangi vargfugls eins og þessa. Annars sýnist það vera svo margt, sem stefnir að æðarfuglinum eða eyðingu hans, eins og minkurinn og fleira, að rík nauðsyn er að snúast gegn vargfuglinum, eftir því sem efni leyfa.

Ég ætla ekki að orðlengja miklu meira um þetta mál, sé enga ástæðu til þess. Það liggur í hlutarins eðli, að ef menn á annað borð vilja vernda æðarvarp og þá atvinnugrein, þá sé sjálfsagt að samþ. þetta frv. Það er um það eitt, að hækkuð eru verðlaunin til þeirra manna, sem vinna að eyðingu vargfuglsins. Og ég tek það fram, að ég tel enga ástæðu til þess, þar sem mál þetta er flutt af n., að fara að vísa því aftur til nefndar, því að n. var sammála um þessa breyt., og kom ekkert nýtt fram í þessu máli sérstaklega. Tel ég það tilgangslaust og ekki nema aðeins skriffinnsku eina að fara að krefjast nál. um ekki stærra eða margbrotnara atriði en hér er um að ræða. Óska ég svo, að málinu verði vísað til 2. umr.