06.11.1952
Neðri deild: 21. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

2. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég er ákaflega sammála hv. þm. Ísaf. um það, að það er mjög óviðfelldið, að borgararnir skuli alltaf þurfa að ganga betlandi um leyfi til þess að gera þetta og leyfi til að gera hitt. Og ég vil því taka höndum saman við hann og aðra þá, sem slíka skoðun hafa, um að afnema öll þessi bönn og höft, sem hér eru á borgurunum, í miklu ríkari mæli, en gert hefur verið. Bönnunum hefur nú verið komið á mikið fyrir hans tilstilli og hans flokks og annarra slíkra ágætismanna, þó að ég geti sjálfur ekki talið mig syndlausan í þeim efnum, en hef nú gert það þá frekar gegn mínum óskum, heldur en samkvæmt þeim.

Ég vil um þetta að öðru leyti segja, að ég treysti mér ekki alveg til þess að dæma um, hvort það er nauðsynlegt eða hversu rík nauðsynin er til að hafa þetta ákvæði eins og það er. Og ég skal sízt hafa á móti því, ef þeir, sem þessum málum eru kunnugastir, telja, að þetta sé ekki nein nauðsyn, að greininni verði breytt eins og hv. þm. lagði til. Hitt er ekki nema eðlilegt, að þegar við vorum að setja þessi lög þarna í byrjun, núna í vor, þá þætti okkur varlegra að hafa allt sem öruggast gagnvart þeirri ásókn útlendinga, sem við þóttumst sjá fram á, að fyrir dyrum stæði, — að við værum að meina þeim að veiða, en leyfa okkar mönnum að gera það á þessum friðuðu svæðum. Nú má ekki í þeim efnum, frekar en öðrum, fara í öfgar, og það er auðvitað alveg rétt, að ekki er líklegt, að Bretar fari — eða aðrar erlendar þjóðir — að sækja til slíkra veiða hingað til Íslands, og ég veit nú ekki, hvort það er líklegt heldur, að Bretar færu að sækja til dragnótaveiða til Íslands. Það er ekki aðalatriðið í málinu. Aðalatriðið verður það, úr því að við byggðum á annað borð á friðunarlögum, að við getum þá sem gleggst staðið á þeim rökum, að við höfum yfirleitt lagt megináherzlu á að friða. En ég sem sagt segi það, að hvað mig og minn vilja áhrærir, þá eru mínar skoðanir og vilji að engu leyti brotið, þó að þessi málsgr. yrði felld niður, og vildi ég mælast til þess, að hv. n. ræddi það nú við t.d. forseta Fiskifélagsins og skrifstofustjórann í atvmrn., en þeir eru mjög kunnugir og allra manna kunnugastir þessum efnum.

Ég vil svo ekki neitt sérstakt um þessar aðfinnslur segja, að dregizt hafi umsóknir frá tveimur mönnum um leyfisveitingu til að stunda þessar veiðar. Ég er alveg viss um, að svo miklu leyti sem þær hafa komið til mín, sem ég man nú ekki svo eftir, vil ekki fullyrða neitt um, þá hefur mín tilhneiging verið sú að fara varlega. Og ætli það hafi nú ekki verið svona meðfram hjá okkur öllum viss hvöt til þess að ljá ekki höggstað eða leyfa ekki fangs á okkur? Og það getur, eins og ég segi, farið út í öfgar í þessum efnum eins og öðrum. En þessi bönn verða sem sagt með mínu fulla samþykki afnumin, ef þeir, sem gerst þekkja málin, telja það óhætt.