27.01.1953
Neðri deild: 57. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

205. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Jón Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 541, um breyt. á l. um eyðingu svartbaks, er komið frá Ed. Þessi breyt., sem hér er farið fram á í frv., er sú, að þar sem áður hefur verið samkv. eldri lögum veitt 1 kr. til verðlauna fyrir eyddan svartbak, þá verði þau verðlaun nú hækkuð í 3 kr. Þetta frv. var flutt af landbn. Ed. í samráði við landbrh. Þetta einnar krónu verðlaunaákvæði í l. er orðið gamalt og virðist vera orðið allmikið úrelt nú, því að tilfellið mun vera það, að skot, sem hæfilegt er að skjóta á svartbak, muni nú orðið kosta hátt á aðra krónu.

Svartbakur er allmikill skaðvaldur í varplöndum, og enda víða er það svo, að hann er hættulegur sauðfé um sauðburð, og er töluverð ástæða til að gera eitthvað að því að minnsta kosti að hræða hann á þeim stöðum, sem hann gerir tjón, þótt ekki sé nú líklegt, að hann verði skotinn svo, að það verði til þess að eyða honum. En hann er styggur og hræðist mjög skot. Til þess að ýta heldur undir það, að menn sinntu því eitthvað að fæla hann frá varplöndum og öðrum þeim stöðum, sem hann gerir skaða á, er þessi lagabreyting gerð. Annars er ekkert meira um þetta að segja. Landbn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.