28.01.1953
Efri deild: 57. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

179. mál, löggilding verslunarstaðar í Vogum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég verð nú fyrst að biðja afsökunar á því, að ég hef mælt með þessu frv. og þar gert annað en ég tel rétt vera, þegar ég hef athugað frv. Ég finn mér skylt að gera grein fyrir, hvernig ég lít á málið.

Ég vil þá fyrst benda á það, að þegar verzlunarstaður er löggiltur, þá geta legið til þess þrjár ástæður, aðallega að minnsta kosti. Fyrsta ástæðan er sú, að það mun ekki vera hægt að fá skip til að koma — eða að minnsta kosti ekki hægt að fá tryggðar vörur á aðra staði en þá, sem löggiltir eru. Þessi ástæða mun varla vera þarna til staðar. — Önnur ástæðan er sú, að það þarf ekki meðmæli hreppsnefndar til þess að fá verzlunarleyfi á þeim stöðum, sem eru löggiltir verzlunarstaðir. En ef það er um leyfi til sveitaverzlana að ræða, þá þarf þess. Það er þess vegna rýmra um að koma af stað verzlun þar, sem eru löggiltir verzlunarstaðir, heldur en þar, sem þeir eru ekki. — Og þriðja ástæðan er sú, að það er yfirleitt ekki hægt að fá veðdeildarlán hjá veðdeild Landsbankans út á hús, sem eru ekki byggð á verzlunarlóðum. Það er þriðja ástæðan.

Nú hagar svo til hér í þessum hreppi, að það er löggiltur verzlunarstaður í þessum Vogum, sem heitir Vogavík, en mér er sagt, að sýslunefnd Gullbringusýslu - og hér er inni oddviti hennar, svo að hann getur leiðrétt, ef ekki er rétt farið með — hafi aldrei fengið ákveðið verzlunarsvæði í Vogavík. Mér er sagt þetta. Aðrir segja mér, að það hafi verið ákveðið svo lítið verzlunarsvæði 1894 eða 1895, þegar það var ákveðið, að nú sé byggðin komin langt út fyrir það og það fáist ekki veðdeildarlán út á þau hús, sem standa utan þessa litla verzlunarsvæðis, sem ákveðið var fyrir aldamót. Nú sé ég ekki, að það hafi nokkra minnstu þýðingu að fara að löggilda á ný verzlunarstað á sama stað og Alþingi

ákvað 1893. Ég hef tvisvar sinnum komizt í einmitt alveg nákvæmlega sömu aðstöðu og mér skilst að þetta frv. sé sprottið upp af. Ég hef komizt í þá aðstöðu, að ég hef þurft að útvega veðdeildarlán út á hús í kaupstöðum. Verzlunarlóðin hafði verið ákveðin í öðru tilfellinu um miðja 18. öldina, en svo lítil, að það var ekki orðið innan hennar nema pínulítill hluti af húsunum í kaupstaðnum. Og veðdeildin neitaði að lána veðdeildarlán. Þá var höfð sú einfalda leið, sem liggur beint fyrir og er beint ákveðin í l. frá 1905, þar sem stendur:

„Stjórnarráði Íslands veitist heimild til að ákveða eftir tillögum hlutaðeigandi sýslunefnda takmörk verzlunarlóðar í löggiltum verzlunarstöðum, svo og til að breyta takmörkum verzlunarlóðar þar, nema ákveðin hafi verið með lögum.“

Það, sem hér liggur þess vegna alveg beint fyrir, er, að ef verzlunarlóðin hefur aldrei verið samþykkt, þá á að ákveða hana af sýslunefndinni og fá hana staðfesta af stjórnarráðinu, en ef hún hefur verið samþ. og er orðin of lítil, þá á að ákveða hana stærri af sýslunefndinni og fá hana svo samþykkta í stjórnarráðinu. En að það þurfi að setja ný lög um það, til þess að fá samþ. áður löggilta verzlunarlóð, það skil ég ekki.

Með þessu vildi ég gera þm. og hv. d. grein fyrir minni afstöðu til málsins. Ég tel lögin alveg óþörf og að það sé eftir l. nr. 61 10. nóv. 1905 hægt að ná þessu alveg með sýslunefndarsamþykkt og svo stjórnarráðsúrskurði á eftir. 1. gr. ákveður það, að sýslunefndin geti breytt þessu, og 2. gr., að stjórnarráðið skuli fara eftir till. sýslunefndarinnar í þessu. Þess vegna tel ég, að frv. sé óþarft. Það getur vel verið, að það geri ekki neitt til, þótt það sé aftur samþ. að löggilda þennan verzlunarstað, en ég skil ekki, að það sé þörf á því, og mér skilst að ástæðan fyrir þessu sé þessi, að það séu komin hús, sem ekki fást lán út á hjá veðdeildinni, af því að þau standa utan við það svæði, sem hefur verið ákveðin verzlunarlóð, og þá er sýslunefndarinnar að nota 1. gr. l. frá 1905 til þess að stækka hana og svo stjórnarráðsins að staðfesta hana. Það er leið, sem hefur verið farin í fjöldamörgum löggiltum verzlunarstöðum hér á landi.