28.01.1953
Efri deild: 57. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

179. mál, löggilding verslunarstaðar í Vogum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil bara leiðrétta misskilning hjá hæstv. atvmrh. Þegar verzlunarstaður er löggiltur, þá er aldrei að ræða um nein takmörk á verzlunarsvæðinu í lögunum sjálfum. Það gerir sýslunefndin og svo stjórnarráðið eftir till. sýslunefndar. Það er samþykktur verzlunarstaður, löggiltur verzlunarstaður á þessum og þessum stað. Þarna heitir það Vogavík, það er ákveðin vík í Vogunum, ákveðinn sjávarhluti, vík í sjónum, sem er svo ákveðin sem verzlunarstaður, og svo ákveður sýslunefndin, hvað stórt svæði er löggiltur verzlunarstaður við víkina í landi. Nú sagði ég áðan og endurtek það aftur, að mér er ekki ljóst, hvort þetta svæði hefur nokkurn tíma verið ákveðið. Sumir segja mér, að það hafi aldrei verið ákveðið; aðrir segja mér, að það hafi verið ákveðið, en svo lítið, að það sé núna orðið ónóg, af því að svo mörg hús standi þar utan við, sem ekki fáist þess vegna lán út á hjá veðdeildinni. Hvort heldur sem er, — og mér er alveg sama hvort heldur er, — þá er upplagt mál fyrir hreppsnefndina að óska eftir, að þetta löggilta verzlunarsvæði sé stækkað, og sýslunefnd geri síðan sínar tillögur til stjórnarinnar um að stækka það. Það þarf ekki að fara að ákveða á ný, að það sé löggiltur verzlunarstaður þarna. Það er búið að gera það. Hér í gömlu lögunum stendur að vísu „Vogavík“, en hér er „Vogum“, en það verður eðlilega aldrei ákveðinn verzlunarstaður í heilu plássi. Það er á einhverjum einum stað á sjónum, sem skipum er ætlað að koma inn á þá löggiltu höfn, sem verzlunarstaðurinn byggist utan um, en ekki allri ströndinni. Þess vegna eru l. óþörf undir öllum kringumstæðum, og þessu vildi ég gera grein fyrir, svo að það a.m.k. kæmi fram, að einhver hefði eftir þessu tekið, því að það verður áreiðanlega talið skrýtið af seinni tíma mönnum, að það séu löggiltir verzlunarstaðir hvað ofan í annað á sama stað.