14.11.1952
Neðri deild: 26. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

2. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Frsm. (Pétur Ottesen):

Sjútvn. hefur athugað þetta mál og varð sammála um að mæla með framgangi þess aðeins með einni breytingu, sem snertir 2. málsl. 1. gr. Þetta frv. er borið fram til staðfestingar á brbl., sem ríkisstj. gaf út á s.l. sumri, og brbl. hljóða eingöngu um það, í fyrsta lagi, að bann gegn fiskveiðum með botnvörpu taki einnig til flotvörpu, sem nú er farið að nota allmikið, bæði til þorskveiða og síldveiða. Í öðru lagi er ráðherra heimilt að veita undanþágu frá banninu til þess að stunda kampalampa- og leturhumarveiðar á tilteknum svæðum með vörpum, sem eingöngu eru ætlaðar til þessara veiða. Í þriðja lagi er ráðherra heimilt, að fengnum tillögum Fiskifélags Íslands, að veita leyfi til síldveiða í landhelgi með flotvörpu, en í 3. málsl. 1. gr. eru sett skilyrði fyrir slíkum leyfisveitingum, og getur þá ráðherra yfirleitt bundið þetta þeim skilyrðum, sem hann telur nauðsynleg, þ. á m., að allur afli annar, en síld, sé upptækur til ríkissjóðs. Þetta er að sjálfsögðu gert í varúðarskyni í sambandi við það, að eigi sé í þessum veiðum farið út fyrir þau takmörk, sem leyfið hljóðar upp á.

Sjútvn. hefur fallizt á þessi frávík frá höfuðstefnu hinnar nýju friðunar, en lítur svo á, að í þessum efnum beri að fara varlega og gætilega í allar sakir, því að Íslendingum er í þessu efni allmikill vandi á höndum, bæði að því er það snertir, að hin aukna friðun nái sem fyrst þeim tilgangi, sem stefnt er að með henni, að auka fiskmagnið og vernda ungviði fisksins, og í öðru lagi, að ekkert það sé aðhafzt í þessu efni, sem gæfi erlendum fiskveiðaþjóðum átyllu til þess að bera brigður á, að friðunarráðstafanir okkar væru oss lífsnauðsyn. Það er af þeirri ástæðu, sem sjútvn. hefur á það fallizt; að réttara sé að hafa þessar undanþágur í heimildarformi, því að með því móti er betur hægt að fylgjast með þessum undanþágum heldur en annars væri, ef leyfi til þeirra væru veitt skilyrðislaust.

Með tilliti til þeirrar varúðar, sem nefndin álítur að beri að gæta um öll frávik frá friðunarákvæðunum, hefur hún lagt hér til, að áður en ráðherra veitir undanþágu frá banni þessu til þess að stunda kampalampa- og leturhumarveiðar, verði leitað um það álits Fiskifélags Íslands, og er það í samræmi við ákvæði 3. liðar 1. gr., þegar um er að ræða að veita leyfi til þess að nota flotvörpu til síldveiða. Það er gert ráð fyrir því, að um það verði áður fengnar tillögur frá Fiskifélagi Íslands. Fiskifélag Íslands er sú stofnun, sem ber að fylgjast með í þessum málum, og á því að vera nokkurt öryggi í því, að Fiskifélagið sé haft með í ráðum um veitingu slíkra undanþága. Hins vegar telur nefndin eðlilegt, að veitt sé undanþága til kampalampa- og leturhumarveiða, en ástæðan til þess, að nefndin lítur, svo á, að þetta eigi að vera í heimildarformi, en ekki gefið alveg frjálst, er sú, að með því móti ætti að vera hægt að fylgjast betur með því, að í blóra við þessar veiðar væri ekki farið inn á þá braut að stunda óleyfilegar botnvörpuveiðar innan hins friðlýsta svæðis. Hins vegar gengur nefndin út frá því sem sjálfsögðum hlut, að þar sem um er að ræða leyfisveitingar fyrir slíkum undanþágum, þá sé þannig til hagað, að ekki þurfi að valda neinum erfiðleikum þeim, sem um þær sækja og rétt þykir að veita slíkar undanþágur. Það kom einmitt fram við 1. umr. þessa máls, að á s.l. sumri hefði orðið einhver dráttur á að fá úr því skorið, hvort slíkar undanþágur yrðu leyfðar eða ekki, og var svo gerð grein fyrir því af viðkomandi ráðh., að þetta hefði einmitt borið að í þann mund, sem var verið að koma á hinni nýju friðun, og þess vegna fór fram mjög gaumgæfileg athugun á því, hvað gera bæri á fyrsta stigi þessa máls. Af því mun hafa stafað sá dráttur, sem kvartað var hér um, að átt hefði sér stað, en þegar þetta er komið í nokkuð fast form, ætti ekki að þurfa að óttast, að það yrði til að valda neinum erfiðleikum. — Það er nú komin hér fram brtt. um að gefa þetta alveg frjálst. En ég hef þegar gert grein fyrir afstöðu nefndarinnar til þess, en hún kýs frekar eða telur réttara, að þetta sé haft í heimildarformi. Það er eingöngu af þeirri ástæðu, að þá er frekar hægt að fylgjast með því, að í blóra við þessar leyfisveitingar séu ekki stundaðar óleyfilegar botnvörpuveiðar. — Nefndin leggur til, að þetta frv. verði samþykkt með þeirri brtt., sem flutt er á þskj. 219.