16.12.1952
Neðri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Einar Olgeirsson:

Hv. þm. Borgf. talaði um, að eignaraðstaðan viðvíkjandi kristfjárjörðunum væri ekki samrýmanleg núverandi kringumstæðum, og það er á vissan hátt rétt. Sú eignarhugmynd, sem gengið er út frá við ákvæðin um kristfjárjarðir, er í algerðu ósamræmi við núverandi aðferðir um kaup og sölu á jarðeignum. En það, að þetta, sem búið er að standa margar aldir, sé ósamrýmanlegt því ástandi, sem er í augnablikinu, réttlætir ekki, að við höfum siðferðislegt vald til þess að breyta þessu, sem þarna er fyrir. Þetta getur orðið samrýmanlegt því ástandi, sem seinna meir kann að verða, og hefur verið í margar aldir heppilegt fyrirkomulag. Ég held, að það sé a.m.k. mjög óleyfilegt af okkur að fara að breyta þessu án þess að geta þá fært fyrir því miklu sterkari rök en þau, að það samrýmist ekki vilja og löngun þeirra manna, sem nú búa á þessum jörðum, og þess vegna eigi nú eftir margar aldir að kippa þeim út úr þeirri raunverulegu almenningseign, sem þessar jarðir eru í, og gera þær að markaðsvöru, selja þær og láta þær þar með algerlega glata þeim tilgangi, sem upprunalega var með þeim. Ég held, að við höfum ekkert leyfi til þess gagnvart þeim, sem þetta hafa gefið.

Ég viðurkenni fyllilega þá slæmu aðstöðu núverandi búenda á þessum jörðum. En það er hægt að finna aðferðir til þess að fullnægja þeirra kröfum. Það er hægt að breyta hvað þá snertir og hafa alveg sérstaka veðrétti með sérstökum ábyrgðum ríkisins. Það stendur allt í okkar valdi. Núverandi veðfyrirkomulag er fyrirkomulag, sem er ekki nema nokkurra áratuga gamalt raunverulega, eins og það er nú praktíserað, þó að það sé sjálft nokkurra alda. Það er alveg eins hægt að breyta því og miklu auðveldara og á okkar valdi en að fara að taka þessar jarðir úr þeirri eign, sem þær raunverulega eru í.

Það er alveg gefið, hvað fyrir vakir með breytingunum á þessu. Það vakir fyrir að selja smám saman allar þessar jarðir án þess að þurfa að spyrja Alþ. nokkurn tíma um nokkra einstaka þeirra. Það vakir það fyrir að selja núverandi ábúendum þær, og það á að heita, að eitthvað af því andvirði fari í einhvern sjóð, sem eigi að fullnægja einhverjum af þessum tilgangi, og siðan er sá sjóður eyðilagður á örskömmum tíma. Ég vil bara minna hv. þingmenn á, að ef tekið hefðu þessa ákvörðun þeir, sem sátu hér á Alþ. t.d. árið 1900, að breyta þessum kristfjárjörðum svona og þær hefðu verið seldar þá og það hefðu verið búnir til sjóðir þá, hvað þeir sjóðir væru í dag. Þeir væru að vísu ofur lítið meira en 1% af því, sem þeir voru þá, — þeir væru milli 1 og 2%. M.ö.o., það að gefa heimild til að selja þessar kristfjárjarðir þýðir sama sem að eyðileggja allan þann tilgang, sem í þessu er. Við höfum enga ástæðu til þess að ætla, að krónurnar, sem þetta yrði yfirsett í, héldu eitthvað betur sínu verðgildi það sem eftir er af þessari öld, heldur en þær hefðu haldið það sem af er þessari öld. Það þýðir sem sé, að nú á miðri 20. öldinni yrði tekin sú ákvörðun að taka jarðir, sem búnar eru að vera raunverulega í almenningseign, í sérstöku góðgerðaskyni, taka þær úr eign þessa almennings, úr eign fátækra, eins og þær heita sumar, — fátækrajarðir — og selja þær, og peningarnir verða smám saman einskis virði, og þar með er þetta strikað út. Við skulum alveg gera okkur ljóst, að það er þetta, sem verið er að gera.

Ég held, að við ættum að leggja okkur í líma að finna heldur út að fullnægja þeim nauðsynlegu kröfum, sem ábúendurnir þarna verða að gera, á annan hátt. Ég álít, að ríkið væri ekkert of gott til að taka meira að segja hér einhverja sérstaka ábyrgð gagnvart þeim ábúendum. Það er á okkar valdi, að gagnvart öllum ábúendum kristfjárjarða skuli ríkið veita þeim alveg sérstaka ábyrgð, sem kemur í staðinn fyrir þann veðrétt, sem þeir ættu að fá í jörðinni. Það er fyllilega hægt. Það er algerlega á okkar valdi. Ríkið gengur í eins konar ábyrgð gagnvart öllum þessum aðilum, sem kemur þeim alveg fyllilega í staðinn fyrir að geta veðsett sína jörð, sem þeir ættu sem eign. En eignarrétturinn á jörðinni héldist áfram í höndum þessara aðila. Og ég skil það satt að segja ekki, af hverju barizt er fyrir þessu af þeim hv. þm., sem segjast nú vilja halda mjög í margt af því, sem gamalt sé, — og það er nú ekki svo mikið af gömlum minjum, sem við höfum í þessum efnum hér á Íslandi, að meira að segja bara sjálft nafnið á þessum jörðum og eignarréttarákvæði viðvíkjandi þeim eru hlutir, sem miklu frekar á að varðveita og hafa heldur en að láta þann kapítalistíska eignarrétt núna eyðileggja þetta allt saman.

Það er búið að fara nógu illa með allar þjóðjarðirnar, þó að það sé nú ekki farið að taka þetta sama taki. Ég held þess vegna, að það minnsta, sem við getum gert í þessu, sé að láta gilda þau sömu lög um þetta eins og um þjóðjarðirnar. Þjóðjörðunum gátum við ráðið á Alþ. Þar höfðum við ákveðinn rétt, því að það var eign þjóðarinnar. Það var hægt að ráðstafa því. En hér er um allt annan hlut að gera. Ef menn hafa einhverja virðingu fyrir vilja þeirra manna, sem hugsað hafa vel og hugsað hafa fjárhagslega skynsamlega upprunalega, þegar þeir gáfu þetta, þá eiga menn að respektera hann. Um þjóðjarðirnar eru lög, og það er ekkert talið eftir hér á þingi að samþykkja lög í hvert skipti sem þarf að selja eina þjóðjörð. Hví í ósköpunum er þá a.m.k. ekki hægt að hafa það þannig með þessar jarðir? Þær eru nú ekki svo margar orðnar eftir, eins og menn sjá á skránni, sem með fylgir. Það eru ekki nema 20 jarðir 1952, og jarðir í fátækraeign 1952 eru ekki nema 13, sem þar eru taldar upp. Það er ekki það mikið eftir af því, að það væri ekki fyllilega hægt að taka þá lög fyrir í hvert einasta skipti. En ég sé það alveg greinilega fyrir, að svo framarlega sem þetta verður samþ. eins og þetta frv. liggur fyrir núna, þá er þessu ruslað út, þá verða þessir hlutir þurrkaðir burt. Og ég álít það ákaflega óviðfelldið, svo ég taki ekki sterkara til orða, og ég efast um, að við höfum nokkra heimild til þess að gera það. En svo verð ég að segja eitt. Mér finnst ákaflega einkennilegt að setja þetta fyrst og fremst til landbn. Ég held, að þetta ætti nú alveg eins heima í fjhn. eða allshn., ef farið væri að ræða um, í hvaða n. þetta ætti að vera. En í hvaða nefnd sem það fer, þá vildi ég elndregið mælast til, að þessar jarðir væru gerðar a.m.k. jafnréttháar þjóðjörðunum, því að við höfum áreiðanlega minni siðferðislegan rétt til þess að ráðstafa þessum jörðum heldur en þjóðjörðunum.